Berskjaldað fólk.

Ég hef sjálfur nýlega upplifað það rækilega á eigin skinni, vöðvum, sinum, liðböndum og beinum, hve berskjaldað hjólandi og gangandi er í umferðinni.

Stórstígar framfarir hafa orði í slysavörnum fyrir fólk í bílum, en litlir möguleikar eru á svipuðum vörnum fyrir það fólk sem ekki er með hliðstæða vörn umhverfis sig.

Eini möguleikinn væri sá að banna umferð gangandi og hjólandi fólks, en það er að sjálfsögðu hvorki framkvæmanlegt né réttlátt, ekki síst vegna þess þjóðhagslega ávinnings sem er að því að ganga og hjóla.

Ég hef heyrt miklar sögur af umferðinni í Róm þar sem er mýgrútur hjóla og gangandi fólks í blöndu af bílum og fólki á hjólum.

Aðdáunarvert og lærdómsríkt mun vera að fylgjast með þessari umferð, sem byggist á margra áratuga reynslu íbúanna.

Þar leggjast allir á eitt, jafnt bílstjórar, hjólafólk og gangandi fólk.

Nóg eigum við nú ólært í þessum efnum þótt ekki sé ráðist ítrekað að hjólafólki með því að setja upp stórhættulegar gildrur á vegi þess eins og dæmin sanna.   

 


mbl.is „Þetta er bara stórhættulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sigrar vinnast ekki á stöðugu undanhaldi."

Breski herinn beið sinn beiskasta ósigur í sögu sinni fram að því við hafnarborgina Dunkirk í júníbyrjun 1940. Á fjórða hundrað þúsund hermanna voru umkringdir, urðu að flýja yfir Ermasund og skilja allan búnað sinn eftir.

Með þessu lauk hernaði Breta gegn Þjóðverjum í Frakklandi um sinn.

Margir bentu á að verra hefði verið ef Þjóðverjar hefðu tekið allan þennan her til fanga og að vel heppnaður flótti hans yfir sundið hefði verið hernaðarafrek og jafnvel hernaðarsigur.

Einstaka maður vitnaði í það hvernig Rússar hefðu með skipulegu undanhaldi og jafnvel ósigri í orrustunni við Borodino árið 1812 gabbað Stórher Napóleons út í vonlausa hersetu í Mosvku og einhverja mestu hrakför hers í framhaldinu til baka út úr landinu.

Winston Churchill sagðist að vísu geta tekið undir þetta sjónarmið, svo langt sem það næði.

"En sigrar vinnast samt ekki á stöðugu undanhaldi og ósigrum", bætti Churchill við.

Vitað er að það lið, sem hampar Evrópumeistaratitli í Frakklandi á næstunni, getur það ekki nema vera sigurlið með hugarfar sigurvegarans.

Það eru skilaboðin sem felast í ummælum Ara Freys Skúlasonar, vinstri bakvarðar íslenska landsliðsins.


mbl.is Þetta er nú vitlaus spurning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hafragrautur góður er..." Upp með skyrhræringinn!

Í mínu ungdæmi voru hafragrautur og skyrhræringur, sem var blanda af hafragraut og skyri, daglega á borðum.

Hafragrauturinn þokaði áratugum saman fyrir morgunkorni en er nú að fá uppreisn æru, og er daglega á mínum borðum.

Nú er sagt að hann vinni gegn hættunni á því að fá krabbamein.

Því miður eru mörg ár síðan ég bragðaði skyrhræring, en á því þarf að verða bragarbót.

Þegar ég var í Kaldárseli var þetta sungið, daglegum hafragraut til dýrðar:

 

Hafragrautur góður er.

Gæða sér á honum ber.

Sá, sem hafra- góflar - graut

gildur verður eins og naut.

 

Æ, þar fór í verra í síðustu ljóðlínunni, því að hún segir grimman sannleika. Í 100 grömmum af haframjöli eru 374 hitaeiningar, næstum eins og í súkkulaði, og tíu sinnum fleiri en í 100 grömmum af Kóladrykk.

Af 100 grömmum af haframjöli eru 8 grömm af fitu og 24 grömm af kolvetnum, mun meira en í mjólk.

Offita er sögð verða mesta heilbrigðisvandamál þessarar aldar, svo að síðasta ljóðlínan hefur orðið að áhrínsorðum, nema menn passi sig vel og vinni upp mikla orku og fitu í morgungrautnum með því að minnka hana í mataræðinu síðar á deginum.


mbl.is Hafragrautur hindrar krabbamein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband