Skráður félagi í Fram tveimur mánuðum fyrir fæðingu.

Íþróttaáhugi getur tekið á sig magnaðar myndir á borð við landsliðstreyjur á fæðingadeild, en þó getur hann gengið svo langt að ná út fyrir gröf og dauða, eða jafnvel fram fyrir fæðingu.

Faðir minn heitinn var einstaklega gallharður Framari og varð 17 ára gamall Íslandsmeistari með Fram í sínum aldursflokki og valinn efnilegasti leikmaðurinn.

Hann hafði alist upp með góðum knattspyrnumönnum á borð við Albert Guðmundsson og kunni vel trix á borð við "skæri" og þess háttar.

Þau voru aðeins 18 ára gömul, hann og mamma, þegar hún var barnshafandi, og þau ákváðu, tveimur mánuðum fyrir afmælisdag hennar, að skrá mig sem félaga í Fram, sama hvort ég yrði strákur eða stelpa.

Þess vegna hef ég haldið upp á stórafmælisdag minn 16. júlí, tveimur mánuðum fyrir stórafmæli mín, þ. e. stórafmæli Framarans.   


mbl.is Á fæðingardeild í landsliðstreyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúran njóti loks vafans.

Íslendingar skrifuðu undir´Ríó sáttmálann 1992, þar sem tvö af meginatriðunum eru sjálfbær þróun og að náttúran njóti vafans.

Í vor mátti heyra úrtöluraddir varðandi það að nokkuð yrði gert til að hamla gegn hnignun lífríkis Mývatns. Aðal rökin voru þau að það væri ekkert víst að hnignunin væri af mannavöldum og þess vegna væri alls óvíst að það dygði að gera neitt.

Í þessum rökum lýsir sér það viðhorf, sem hefur verið landlægt svo lengi, að náttúran eigi ekki að njóta vafans, heldur þvert á móti hegðun okkar gagnvart henni.

Það er vel ef nú á að grípa til aðgerða við Mývatn. Ef vafi leikur á að það dugi svona seint á náttúran að njóta vafans, ekki hvað síst á svæði eins og Mývatnssveit er.


mbl.is Ráðuneyti vinnur tillögur um Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnir og margræðni. "Rule, Britannia" á útleið?

Margt af því sem tengist úrsögn Breta úr ESB virðist fullt af mótsögnum og margræðni.

Þannig tala talsmenn meira sjálfstæðis tveimur tungum í Englandi og í Skotlandi, vilja fara úr ESB í Englandi, en í Skotlandi vill meirihlutinn vera áfram í ESB. Línurnar þar eru að vísu ekki alveg skýrar, en fyrir Skota eru yfirráð og áhrif Englendinga stærra mál en hugsanleg áhrif frá Brussel.  

Það er mikil margræðni í málinu öllu.

Það er löng hefð fyrir því í Englandi að hinn landfræðilegi aðskilnaður, sem Ermasundið veitir, skili sér í því að hamla gegn áhrifum frá meginlandinu.

Og hefðin fyrir mótþróa Skota gegn breskum yfirráðum og áhrifum í Skotlandi er einnig löng.

Kannski er það, sem er að gerast núna, upphaf á því að á Bretlandseyjum verði þrjú eða jafnvel fjögur sjálfstæð ríki, Írland, með Norður-Írland innanborð, Skotland og England-Wales, eða England sér og Wales sér.

Endalok Stóra-Bretlands síðustu þriggja alda? Þeir, sem elska að syngja hvatningarsönginn "Rule, Britannia!" senn að syngja sitt síðasta?


mbl.is Bretar kjósa að ganga úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vendipunktur í 76 ára gamalli sögu Evrópusamvinnu.

Þegar ljóst var að Frakkar væru að tapa stríðinu við Þjóðverja vorið 1940 og þýskar hersveitir voru komnar langt inn í Frakkland, flaug Winston Churchill til fundar við frönsku ríkisstjórnina til að stappa í hana stálinu.

Hann varð fyrir áfalli að verða vitni að uppgjafartóninum í frönsku ráðamönnunum og gerði þeim þá örvæntingarfullt tilboð um að komið yrði hið snarasta á sameiginlegum ríkisborgararétti begggja þjóðanna.

Þessu höfnuðu Frakkar, og 22. júní gáfust þeir upp fyrir Þjóðverjum og sömdu frið.

Charles De Gaulle, leiðtogi Frjálsra Frakka, bjó við sært þjóðarstolt og var alltaf í nöp við Breta.

Hann komst til valda í landinu 1958 á þeim tíma þegar gríðarleg efnahagsuppsveifla ríkti í Vestur-Evrópu og Frakkland, Ítalía og Benelux-löndin höfðu lagt grunninn að núverandi ESB með Kola- og járnsambandi, sem þróaðist upp í Efnahagsbandalag.

Þáverandi ráðamenn í Bretlandi höfðu áhuga á að ganga inn í hið stækkandi efnahagsbandalag, en meðan De Gaulle ríkti, allt til 1968, stóð hann í vegi fyrir því.

Eftir að hann lét af völdum fór af stað hægfarfa stækkunarferli sambandsins sem endaði með því að Breta gengu inn og smám saman allar þær þjóðir sem nú eru í ESB.

Í efnahagshruninu 2008 urðu kaflaskil í öfuga átt í sambandi ESB og EES-ríkjanna, því að nú voru það ekki Frakkar sem voru tregir, heldur Bretar og fleiri þjóðir.

Ef Bretar ganga nú úr ESB hefur orðið vendipunktur í 76 ára gamalli sögu evrópskrar samvinnu.

En jafnvel þótt kosið hafi verið í þessa veru nú, mun það taka langan tíma að koma þessari útgöngu að fullu á, ef hún þá verður nokkurn tíma alger, og auðvitað hafa Bretar ekki "gengið úr Evrópu" eins og sumum hefur hætt við að túlka það sem er að gerast.

Alþjóðasamvinna er einfaldlega komin lengra en svo að hægt sé að sundra henni í einu vetfangi.


mbl.is Bendir enn til útgöngu Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband