Hvað um fangaflutningana?

Nú er komið í ljós að bandarísk stjórnvöld heyktust á því að geyma kjarnavopn á Íslandi, en þá langaði til þess. 

Saga stórveldanna er vörðuð leyndarhyggju og afneitunum. 

Þegar fangaflutningar Bandaríkjamanna stóðu sem hæst þrættu þeir staðfastlega fyrir að hafa flutt fanga um íslenska lofthelgi og Keflavíkurflugvöll. 

Kannski vitnast það eftir hálfa öld hvort þeir gerðu það. 

Þegar Rússar skutu niður bandarísku U-2 njósnaflugvélina yfir sovésku landi 1959 þrætti Eisenhower forseti eindregið að slíkt flug hefði átt sér stað.

Gary Powers flugmaður var með blásýrutöflu, sem honum hafði verið skipað að drepa sig með ef hann næðist.

Powers heyktist á því, enda hefði það engu breytt um það að vél hans var skotin niður og að þar með höfðu Rússar næg sönnunargögn í þessu máli.

Lygi Eisenhowers olli algerlegum trúnaðarbresti milli hans og rússneskra ráðamanna, sem höfðu haft hann í metum sem yfirhershöfðingi vestrænna bandamanna í sameiginlegu stríði við Hitler.

Fyrir bragðið varð ekkert úr fyrirhuguðum leiðtogafundi í París, og svonefnd þíða í samskiptum risaveldanna breyttist í kuldakast.  


mbl.is Varaði við geymslu kjarnavopna á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smækkuð mynd af ástandinu á fjórða áratugnum?

Á fjórða áratug síðustu aldar tókust þjóðernissinnar og kommúnistar stundum á hér á landi, þótt ekki væri það í miklum mæli og auðvitað hvergi nærri í sama mæli og í Þýskalandi.

Fréttir af Austurvelli í dag vekur því ákveðna ónotakennd.  


mbl.is Braut skilti hjá mótmælanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgöngur skipta sköpum fyrir Íslendinga.

Það gefur auga leið að Ísland gat ekki orðið albyggt á undra skömmum tíma nema að siglingar væru örar til og frá landinu.

Forsenda þeirra var að hægt væri að smíða skip í landinu og hugsanlega að festa kaup á skipum í Noregi. Sjá má frásagnir af því að stórviður var keyptur í Noregi og fluttur til landsins.

Landnámsmennirnir kunnu sér hins vegar ekki hóf í að höggva kjarr og skóga landsins og þar að auki fór veðurfar kólnandi og eldgos gerðu usla.

Jarðvegurinn íslenski hvíldi á stórum hluta landsins á lausri eldfjallaösku, og þegar skógar og kjarr voru hoggin og bundu ekki lengur jarðveginn og moldina með rótakerfum sínum, byrjaði rof sem á endanum feyktu jarðvegnum af stórum svæðum á hinum eldvirka hluta landsins út í buskann.

Þetta var ólíkt því sem var í Noregi, þar sem moldin og jarðvegurinn hvíldu á klöpp.

Samskiptin við Noreg voru afar náin eins og sést á því að Þórður kakali fékk "brennivínsslag" í Skíðaborg (Skien) þegar hann var að fagna því að vera orðinn stjórnandi Skíðafylkis.

1262 var svo komið að sú lífæð, sem siglingarnar voru, var orðin svipur hjá sjón, og á Gamla sáttmála má sjá, að samningurinn við Noregskonung um að tryggja lágmarks siglingar til og frá landinu var líklega ein af aðalástæðum þess að sjálfstæðinu var fórnað.

Eftir þetta var það að mestu háð nýtingu erlendra þjóða á auðlindum Íslands og framleiðsluvörum landsmanna, auk verslunar við Íslendinga, hve mikil einangrunin gat orðið vegna fjarlægðarinnar frá öðrum löndum og takmarkaðs skipastóls í eigu landsmanna.

Þessi einangrun hélst í meginatriðum fram eftir 19. öld, eins og sést vel á því, að þegar Friðrik 7, konungur Dana og Íslendinga lést 15. nóvember 1863, fréttist það ekki til Íslands fyrr en með vorskipi frá Kauðmannahöfn mörgum mánuðum síðar.

Allan þann tíma var stjórnsýslan á Íslandi framkvæmd eins og konungurinn væri í fullu fjöri.

Nú er öldin önnur, en mikilvægt er að Íslandingar sjálfir eigi þau samgöngutæki og fjarskiptatæki, sem nota þarf í lofti og á sjó til að tryggja sem best samband við útlönd.  


mbl.is Fornleifafræðin á nýjum sjónarhóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfskaparvíti að mestu.

Málin, sem nú er eftir að afgreiða, svo að Framsóknarflokkurinn telji sig geta farið í kosningar með sæmilegan afrakstur kjörtímabilsins, eru flest þess eðlis, að ekki er hægt að kenna stjórnarandstöðunni um það hve aftarlega þau eru á merinni. 

Verðtryggingin, aflétting hafta, húsnæðisfrumvörp, búvörusamningur og fleiri mál eru dæmigerð fyrir það að þau hafa einfaldlega tafist vegna mismunandi sjónarmiða innan stjórnarflokkanna sjálfra og velkst þing eftir þing í meðförum stjórnarliða. 

Staðan er að mestu sjálfskaparvíti stjórnarflokkanna og ekki hægt að sjá að þau hefðu farið mikið lengra ef kosningar hefðu orðið næsta vor. 


mbl.is Segir Framsókn í tímaþröng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostir og gallar ystu brautar fyrir "senuþjófinn".

Wayde van Niekerk stal senunni af sjálfum Usain Bolt með því að bæta hið fræga 17 ára gamla heimsmet Michaels Johnsons í 400 metra hlaupi um 15/100 úr sekúndu áður en Bolt og keppinautar hans skeiðuðu 100 metrana.  

Niekerk hljóp á ystu braut sem hefur þann galla að sá, sem hleypur á henni, "hleypur blint" eins og það er kallað, sér engan af keppinautum sínum nema þeir séu búnir að draga á hann og hlaupa hann uppi. 

En á móti kemur að sá, sem er á ystu brautinni tekur ekki eins krappar beygjur og keppinautarnir, og það tekur smá toll á næstum 40 kílómetra hraða að vinna á móti beygju, og því meiri sem beygjan er krappari.

Raunar tekur sá, sem er á innstu braut, alls 360 gráðu beygju samtals í hlaupinu, þar af 180 gráður í fyrri beygjunni, en sá, sem er í ystu beygjunni, tekur aðeins um 135 gráðu beygju í fyrri beygjunni.  

Raunar kemur það að hlaupa "blint", ekki að sök í fyrri beygjunni því að í 400 metra hlaupi hlaupa allir á útopnu, eins og þeir geta, fyrstu 100 metrana og byrja ekki það sem kallað er "coasting" fyrr en á beinu brautinni, það er, að reyna að halda hraðanum óbreyttum án þess að taka á á útopnu.

Sigur Niekerk var aldrei í hættu og hann átti mest inni á endasprettinum og jók forskotið.

Sérlega glæsilegt!  

Auðvitað var Bolt skærasta stjarnan eins og sást á viðbrögðum áhorfenda þegar hann sigraði í þeirri grein Ólympíuleikanna, sem jafnan vekur mesta athygli, og bætti enn einum sigrinum við á sínum glæsta ferli, en heimsmetið í 400 metrunum var þó það sem verður lengst munað eftir. 


mbl.is Met Johnsons í 400 slegið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband