Leikur að (púður)eldinum.

Í tvígang hefur Donald Trump gert hugsanlega skotárás á Hillary Clinton að umtalsefni. 

Tilefnið er ekki það að Clinton vilji afnema byssueign, því að það gerir hún ekki. 

Hún er aðeins að kalla eftir strangara eftirliti og lagaumgjörð varðandi skotvopn til að takmarka möguleika sálsjúkra og ofbeldisfullra einstaklinga til að komast yfir skæð skotvopn. 

Með því að espa upp umræður um skotárásir á frambjóðendur er Trump að óþörfu að leika sér að eldinum.  


mbl.is Vill að lífverðir Clinton afvopnist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Árangur áfram - ekkert stopp!" enn og aftur?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vann það afgerandi sigur á heimavelli sínum í Norðausturkjördæmi, að tveir af fjórum núverandi þingmönnum kjördæmisins hverfa nú af þingi. 

Nú mun hann vafalaust byggja frekari sókn sína á því að Sigurður Ingi Jóhannsson þori ekki að bjóða sig fram gegn honum, og miðað yfirlýsingar Sigurðar Inga, hverfur hann þá úr stjórn flokksins.

Hér virðist stefna í lýðræðislegar hreinsanir í flokknum ef andstaðan við Sigmund lyppast niður og hann nær að leiða flokkinn í næstu kosningum.

Til er orðið Phyrrosarsigur, sem merkir það að góður sigur í einni orrustu þarf ekki endilega að þýða endanlegan sigur.

Slagorð SDG um árangur áfram minna á slagorðið "árangur áfram - ekkert stopp" fyrir kosningarnar 2007. 

Í þeim kosningum beið Framsókn ósigur og hrökklaðist úr ríkisstjórn. 

 

Næstu sex til átta vikur munu leiða í ljós hvort sú verður raunin.  


mbl.is Sigmundur með afgerandi forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Go all the way, - then back off!"

Harley Earl vann hjá General Motors og var áhrifamesti útlitshönnuður bandarískra bíla á síðustu öld. Kjörorð hans eða leiðarstef, var setningin í fyrirsögn þessa bloggpistils um að fara alla leið í upphafi, en draga síðan í land. 

Þetta virkaði vel áratugum saman, nema síðustu tvö ár Earl, árgerðirnar 1958 og 1959, þegar farið var of geyst og nær ekkert dregið í land. 

Píratar hafa nú bara þrjá þingmenn og hafa enga reynslu af því hvernig eigi að vinna úr úrslitum kosninga við að mynda ríkisstjórn. 

Þá vantar fólk, sem hefur reynslu af slíku. 

Þeir virðast vera að átta sig á því, að til lítils er að stórauka fylgi sitt á þingi, ef þeir komast ekki í stjórn eftir kosningar. 

Stjórnmál eru list hins mögulega og til þess þarf aðstöðu. 

Það hefur stundum verið sagt, að það sé eitthvert ömurlegasta hlutskipti stjórnmálamanna að lenda í stjórnarandstöðu, því að til þess að hafa áhrif og koma málum sínum fram, verði að ná framkvæmdavaldinu í sínar hendur með aðild að ríkisstjórn. 

Að klikka á því tækifæri sem gefst til þess að komast í stjórn eftir kosningar, getur komið framboðum í koll, og má sem dæmi nefna, að Kvennalistinn gat ekki, þrátt fyrir gott gengi og að mörgu leyti lykilaðstöðu í kosningunum 1987, komist í stjórn í tvennum stjórnarmyndunum. 

Að koma óreyndir og óskipulagðir út úr kosningum er álíka og ef landslið hleypur inn á völlinn án þess að hafa neitt leikskipulag og engan leikmann, sem hefur leikið landsleik áður. 

Það verður ekki mikill tími fyrir Pírata til að búa til stjórnarmyndunarleikskipulag á næstu vikum, og þá vantar reynt fólk í þeim efnum til þess að leiðbeina sér eða taka verkið eða hluta þess að sér. 

En samt hlýtur að vera skárra fyrir þá að reyna hvað þeir geta í þessum efnum, sjá hvað þeir geta gengið langt og vera tilbúnir með það hve langt þeir þurfi að bakka ef þörf krefur.

Um það gildir slagorð kröfufyrirtækis eins í Reykjavík: Ekki gera ekki neitt.  


mbl.is Undirbúa hugsanlega stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband