"Veðurkona frægð nú fær..."

Mexíkóska veðurfréttakonan Susana Almeida hefur nú hlotið meiri heimsfrægð, að minnsta kosti í bili, en nokkur annar veðurfréttamaður.

Þessa frægð hefur hún öðlast fyrir klæðaburð sinn sem var þess eðlis á sjónvarpsskjám að frétt um það og mynd hefur trónað efst á fréttalista mbl.is sem mest lesna frétt dagsins og sennilega á mörgum öðrum löndum. Um það gæti gilt þessi ferskeytla:

 

Veðurkona frægð nú fær,

svo fýrar andann grípa.

Töff á skjánum trónir mær

sem Trump langar að klípa.

 

Þetta er ferskeytla, en eðli málsins samkvæmt ætti kannski að breyta henni í það, sem ég hef kallað "sexskeytlur" í rúman aldarfjórðung.

Þá er bætt inn í ferskeytlu stuttri þriðju línu, og til að fá jafnvegi í vísuna er bætt við stuttri, sjöttu línu í endann.

Þá verður sexskeytlan svona:

 

Veðurkona frægð nú fær,

svo fýrar andann grípa -

- mjög víða.

Töff á skjánum trónir mær,

sem Trump langar að klípa -

- og - bjóða út að borða.   

 

Af tæknilegum ástæðum tókst ekki að tengja þennan bloggpistil við fréttina á mbl.is fyrr í kvöld, svo að það er gert hér í annarri tilraun. 


mbl.is Klæðnaður veðurfréttakonu vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ákvörðun Trumps.

Margir harðsnúnir og valdafíknir valdamenn hyllast til að velja sér jábræður og undirgefna samstarfsmenn og ráðgjafa. 

Þegar athygli er vakin á þvi´hvað slæmir ráðgjafar geta gert mikinn usla, ekki aðeins með skaðlegum ráðleggingum og ákvörðunum, heldur einnig með því að skorta hæfni, gleymist það, að hver ráðamaður fær þá ráðgjafa og samstarfsmenn sem hann á skilið og hefur valið sér sjálfur. 

Ráðamaðurinn valdi oft jafnvel slaka menn frekar en hæfa til þess að geta gert þá óörugga með sig og háða foringjanum. 

Sem betur fer hefur Donald Trump loksins valið mjög hæfan mann í afar mikilvægt embætti þjóðaröryggisráðgjafa. Ekki síst er þetta ánægjuefni vegna þess, að einstrengingslegar hugmyndir Trumps og sýn hans á þjóðaröryggi Bandaríkjamanna hafa verið helsta áhyggjuefnið varðandi það að hann skuli nú gegna embætti "valdamesta manns heims". 

Valið minnir á það þegar Richard M. Nixon valdi Henry Kissinger sem helsta áhrifamann í utanríkismálum Bandaríkjanna. Enginn veit að vísu hve mikið mark Trump muni taka á H.R. McMaster, en val hans vekur þó von, einkum vegna þess hve þjóðaröryggismálin og sýnin á þau munu vega þungt næstu árin vestra. 


mbl.is McMaster er meistari herkænskunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræði að hann skyldi ekki heita Christian?

Engin ástæða hefur enn verið gefin upp fyrir því að á íslensku yfirráðasvæði var farþega vísað úr íslenskri flugvél en sá frelsissvipti telur að bandarísk kona hafi annast framkvæmd verksins. 

Á meðan staða málsins er þessi, er ekkert óeðlilegt að spurningar vakni um þetta mál, sem nú er komið í breska fjölmiðla og á leið inn á borð utanríkisráðherra Bretlands ef marka má fréttir þar um. 

Þar með virðist málið vera milliríkjamál Breta og Íslendinga að boði Bandaríkjamanna. 

Ekki er tilgreint í vegabréfum hverrar trúar handhafi þess er, svo að mér sé kunnugt um, og því er skiljanlegt af hverju Juhel Miah telji, að varla geti verið um nema eina ástæðu að ræða fyrir brottvísun hans og frelsissviptingu, sem sé að fornafn hans, Muhammad eða Múhameð, er skráð í vegabréfið. Nafn sem hann notar þó aldrei. 

Ef þetta er veröldin, sem við erum á leið inn í, gæti það orðið slæmt að heita nafni eins og Ómar, ef maður er á ferð milli vestrænna landa, en heita Kristinn, ef maður á ferð til Arabalands.

Sjá nánar næsta bloggpistil á undan þessum. 

 


mbl.is Tók myndband af brottvísuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nóg að heita Múhameð? En hvað með Ómar?

Hvorki kennarinn frá Wales né neinir aðrir utan Bandaríkjanna hafa enn fengið að vita af hverju kennarinn var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli. 

Tvennt er þó nefnt í umræðunni um þetta sem hugsanleg ástæða til grunsemda:  

1. Hann ku heita Múhammeð. 2. Hann er múslimatrúar.  

Og það gæti verið "too much".

Að vísu eru trúarbrögð ekki skráð í vegabréf, þannig að kannski er ástæðan aðeins ein, eins og Juhel Miah hefur ýjað að, nafnið Muhamed, en bendir á að þetta fornafn sitt noti hann aldrei. Ekki frekar er að Barck Obama notaði aldrei millihafnið Hussein. Kannski vissara fyrir Obama, því að annars hefði hann kannski getað átt það á hættu að vera meinað að koma til baka til Bandarríkjanna, þegar hann ferðaðist til annarra landa. 

Ef þessu er svona farið, fara fleiri kannski að verða órólegir, líka ég.  Ekki síst ef það eru tvö atriði eða jafnvel fleiri sem eru grunsamleg.

Og mér til hrellingar sé ég að það blasa við að minnsta kosti fimm grunsamleg atriði ef ég ætla vestur um haf.

1. Ég heiti Omar. Hugsanlega algengasta nafn hryðjuverkamanna. Og ef á annað borð er óheppilegt að heita svona nöfnum á ferðalögum, og þjóðirnar, sem slík nöfn koma frá, byrja að beita svipuðum aðferðum við brottvísanir vesturlandabúa úr landi og welski kennarinn lenti í, lendum við Íslendingar í miklum vandræðum með allar þær þúsundir sem heita Kristinn, Kristín, Kristján, Kristjana, Kristbjörg, Kristbjörn o.s.frv. Og ef það verður ofan á að Guð og Allah sé ekki sama fyrirbærið, má Guð hjálpa öllum Guðmundunum og Guðrúnunum. 

2. Ég heiti líka Þorfinnur, en það er vitað að maður með því nafni var einn þeirra fyrstu sem fór til Ameríku án þess að hafa passa eða skilríki.

3. Ég á son, sem heitir líka Þorfinnur og ekki bara það, hann starfar og býr í Brussel!  Æ,æ.  

4. Ég hef réttindi til að fljúga flugvél og í höfuðstöðvum NATO í Brussel er mynd uppi á vegg af mjög krefjandi flugi mínu í gegnum Hafrahvammagljúfur. Maður, sem heitir Ómar og flýgur flugvél á slíkan hátt hlýtur síðan árið 2001 að vera afar tortryggilegur og til alls vís. Og þá er ekki víst að það þyki málsbætur, að ísraelska sjónvarpið gerði 7 mínútna umfjöllun um það árið 2010, hvernig ég hefði farið að því að fljúga einn og taka myndirnar af hljóðbylgjunum í gosinu í Eyjafjallajökli. Ég var dálítið undrandi, þegar þeir vildu gera þessa umfjöllun, en einn í ísraelska hópnum sagði mér að í Ísrael væru flugmenn í sérstökum metum sem bjargvættir þjóðarinnar í átökum hennar við Araba og að þess vegna væri gríðarlegur áhugi þar í landi á flugi, flugmönnum og flugmálum og að Ísraelsmendu taka mér afar vel ef ég kæmi til Ísraels. 

5. Ég hef unnið fyrir fjölmiðla, sem að dómi helstu fylgjenda Trumps hér á landi, flytja "falsfréttir" og ber því að skilgreina sem "óvini þjóðarinnar", að minnsta kosti "óvini bandarísku þjóðarinnar." 

Þar fór í verra. Komin meira með allt að fimm sinnum fleiri atriði en hjá welska kennaranum. Og pælingarnar um ástæður hugsanlegra brottvísána kannski orðnar dálítið langsóttar. En eðli þessa máls, sem engar skýringar fást enn á, kallar á vangaveltur.

En það er huggun fyrir bæði mig og Bandaríkjamenn, að Kanarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur því að ég ætli vestur um haf, því að næsta utanferð mín verður ekki þangað.

Hlægilega ódýrt flugfar, sem við hjónin höfum pantað og borgað vegna flugs úr landi í júlí í sumar, þegar við þurfum að fara í erindagjörðum yfir hafið, er ekki til Bandaríkjanna, heldur til Brussel!

Æ, æ, Wow! til Brussel!  Komin sex atriði!  Þar fór það alveg!  


mbl.is Svaf ekki í tvo daga eftir brottvísunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband