Skammsýni að stórum hluta samanber "bakpokalýðinn" hér um árið.

Það gerur verið tvíbent að sækjast eingöngu eftir ríkum viðskiptavinum, þótt það megi reikna út ágóða af því að hver þeirra eyði meira fé en hinir fátækari. 

Aldrei er góð vísa of oft kveðin, því að tvö dæmi, sem áður hafa verið nefnd hér á síðunni, sýna hið gagnstæða.

Hið fyrra dæmið er hliðstætt því sem nú á að stefna á, að gera Íslandsferðir svo dýrar, að fæli fátækari ferðamenn frá og einnig ferðamenn, sem vilja fara víðar en um Gullna hringinn.

Þegar ungt fólk fór að ferðast víðar um heiminn á síðari hluta síðustu aldar, var oft talað í niðrunarskyni um "bakpokalýð," sem væri óæskilegur, af því að það græddist svo lítið á honum.

Ég tók einn slíkan upp á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar á miðjum áttunda áratugnum og fékk skömm í hattinn fyrir það hjá sumum, sem ég álpaðist til að segja frá þessu.

Þetta var fátækur þýskur jarðfræðistúdent, sem síðar varð virtur prófessor og vísindamaður og hefur lengi komið árlega til landsins með tugi nemenda sinna!

Það hefur margsinnis verið bent á nauðsyn þess að dreifa ferðafólki betur um landið, en nýja fælingaraðferðin hefur þveröfug áhrif. 

Hitt dæmið er bandaríski bílaiðnaðurinn um 1970, en stjórnendur á þeim bæ töldu óráðlegt að framleiða litla bíla, af því að það var svo lítill gróði af hverjum þeirra.

Þess vegna fóru bílarnir bandarísku stækkandi jafnt og þétt fyrstu áratugina eftir stríð og mesta áherslan var lögð á stærstu drekana.

Japanskir bílaframleiðendur gerðu hins vegar áætlun: Að framleiða ódýra, en gangvissa, sparneytna og viðhaldslitla bíla, sem hippar og annar "bakpokalýður" Bandaríkjanna hefði efni á að eignast.

Japönsku framleiðendurnir vissu, að stærstur hluti þessa markhóps myndi einfaldlega eldast og komast í vel launuð störf.

Þeir gættu þess því að stækka bílana, sem voru í boði, í samræmi við það og treystu á að góð reynsla "krakkalýðsins" af litlu bílunum yrði hvatning til þess að þetta fólk keypti smám saman stærri og dýrari bíla.

Þetta var megingaldurinn á bak við "innrás" japanskra, þýskra og síðar kóreskra bíla inn á bandaríska bílamarkaðinn, sem bandaríski bílaiðnaðurinn hefur átt svo erfitt með að finna svar við, að Donald Trump sér engin önnur viðbrögð en að snúa klukkunni til baka með höftum til þess að gera "America great again."  


mbl.is Færri ferðamenn með hærri skatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eina sem hann sagði að væri "hundrað prósent öruggt."

Donald Trump lofaði mörgu í kosningabaráttunni og tilgreindi meira að segja hverju hann ætlaði að vera búinn að ljúka á fyrstu hundrað dögunum í embætti. 

Það eina af því sem hann kvaðst myndu gera og notaði orðalagið "hundrað prósend öruggt" var að reisa múrinn mikla á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. 

Nú er hann búinn að draga þetta í land líka og enginn veit hverjar efndirnar verða eða hvenær. 

Trump nefnir það helst nú, að múrinn eigi að stöðva flæði fíkniefna til Bandaríkjanna. 

Þótt hann hafi sjálfur efnast á því að lifa og hrærast í umhverfi framboðs og eftirspurnar, virðist hann halda að það sé aðeins framboðið á þessum efnum, sem viðhaldi flæði fíkniefna. 

Að sönnu er viðurkennt að neyslan er að jafnaði meiri eftir því sem auðveldara er að ná í fíkniefni, en mestu máli skiptir þó eftirspurnin. 

Það er hún fyrst og fremst sem knýr framboðið og gerir útvegun fíkniefna ábatasama. 

En í býsna einhæfri sýn sinni á "America great again" er hann iðinn við að kenna öllum öðrum en Bandaríkjamönnum um ástand mála í landi þeirra og finna erlenda blóraböggla.

Í afar eftirminnilegri kveðjuathöfn um Muhammad Ali flutti Billy Crystal snilldarávarp um þann merka mann.

Hann minnist þess hvernig Ali liðsinnti honum sem rétttrúuðum Gyðingi þótt Ali væri Múslimatrúar, og það jafnvel í Ísrael.

Lokaorð Crystals um Ali voru meðal annars þau, að Ali hefði reynt að byggja brýr en ekki múra á milli fólks. 


mbl.is Hættur við að fjármagna vegginn í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkt og samkeppnislag í Eurovisionstíl um ástina og gildi hennar.

Setjum sem svo að ákveðið væri að láta gera fallegt og aðlaðandi Eurovisionlag með texta um ástina og gildi hennar, og að samkeppni væri um samningu og flutning lagsins. 

Hvaða lag skyldi verða hlutskarpast?

Eitthvað lag, sem væri með nafn, sem vísaði að engu leyti til yrkisefnisins?

Lag, sem keppti við önnur lög með skárri nöfnum, markvissari eða betri texta, en þó fyrst og fremst betri lög, með betri flytjendum?

Að sjálfsögðu færi lagið með nafnleysunni hallloka og því yrði hafnað, hversu góð sem meining aðstandenda þess væri.  Af því að flutningurinn skilaði ekki því sem stefnt var að.   

Heitið Samfylking var andvana fædd vegna þess að upphaflegir aðilar að hugmyndinni klofnuðu strax í gamankunnar tvær fylkingar vinstri manna og að orðið sjálft sagði ekkert út af fyrir sig um það hvers kyns flokkur þetta væri. 

"Útskýringar fást hjá dyraverði" sögðum við stundum í sumarbyrjun í Sumargleðinni, þegar við voru að prófa nýja brandara sem gerðu sig ekki eins úti á landi og þeir höfðu gert í Reykjavík um veturinn. 

Samfylkingin byggðist á þeirri útgáfu af alþjóðlegri hreyfingu lýðræðislegrar jafnaðarstefnu, sem hefur nýst einna best á Norðurlöndunum og Gylfi Þ. Gíslason kallaði blandað hagkerfi. 

Að vinsa það skásta úr kapítalismanum (frjálshyggjunni) og sósíalismanum (félagshyggjunni) og nýta reynsluna. 

Á Íslandi hafði sú reynsla til dæmis leitt til þess að tilraunin með þjóðnýtingu sjávarútvegfyrirtækja mistókst. 

Nafnið Samfylkingin sagði út af fyrir sig nákvæmlega ekki neitt um eðli flokksins og ef þekking þeirra sem áttu að kjósa flokkinn fór að dofna, þurfti úrskýringar hjá dyraverði. 

Heitið Jafnaðarmenn hefði hins vegar sagt meira eða jafnvel nafnið Sósíaldemókrataflokkurinn. 

Flokkurinn hóf feril sinn á því að "gera sig stjórntækan".

Flokksmenn, einkum þingflokkurinn, voru í nafni þess beygðir til þess að samþykkja verstu aðför gegn jafnrétti kynslóðanna, ofríki gegn komandi kynslóðum, sem hægt var að fremja á Íslandi, en það var Kárahnjúkavirkjun, sem 1. áfangi Rammaáætlunar sýndi fram á að var stærsta mögulega framkvæmd Íslandssögunar með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum. 

Með þessu var "Samfylkingin" klofin í herðar niður í máli, sem var risastórt hjá flokki sem vildi kenna sig við jafnaðarstefnu og mannréttindi, því að troðið var á mannréttindum óborinna Íslendinga með hinum hrikalegu óafturkræfu umhverfisspjöllum. 

Að vera stjórntækur bar Samfylkinguna beint í faðm flokks íslenskrar nýfrjálshyggju sem stefndi efnahagslífi þjóðarinnar lóðbeint niður í mesta efnahagshrun Íslandssögunnar. 

Samfylkingin tók með Vinstri grænum að vísu að sér risavaxna rústabjörgun og endurreisnarstarf, sem var hins vegar þess eðlis að það var ekki hægt að gera neinum til geðs. 

Það var meira að segja ráðist að kjörum aldraðra og öryrkja. 

Auðvelt var að gera einstök mistök eins og að lesa ekki rétt í hvernig ætti að taka á Icesavemálinu.

Einnig halda endalaust áfram við það að setja ESB-aðild í fyrsta sæti, þegar séð varð smám saman, að réttast yrði að halda því til hlés miðað við ríkjandi aðstæður í Evrópu. 

Hrunið leiddi af sér almennt vantraust á stjórnmálum og ólgu, sem kom Besta flokknum á tímabili upp í meirihlutafylgi í Reykjavík í skoðanakönnunum. 

Nú stefna leifar þeirrar hreyfingar á stundum í pilsner-tölu í skoðanakönnunum. 

Vinstri grænir eru núna stærstir á vinstra arminum af einfaldri ástæðu: Þeir syngja og flytja hið pólitíska "Eurovision" samkeppnislag um ást, jafnrétti og sjálfbæra þróun betur en þeir, sem þó voru í upphafi spyrtir við hugmyndina að laginu öðrum fremur. 

Margir fleiri vilja syngja svipað lag, og kosningatölur og skoðanakannanir sýna að þeir gera það einfaldlega betur. "Dómur almennings liggur fyrir" segir fyrrverandi forystumaður réttilega. 


mbl.is „Dómur almennings liggur fyrir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband