Var þetta "allt miklu betra hérna í gamla daga"?

Því stærra, flóknara og umfangsmena tölvukerfi er í ákveðinni starfsemi eða tækjabúnaði, því illvígari bilun virðist geta orðið í því með ótrúlega víðtækum afleiðingum. 

Það sýnir viðgerð á tölvubúnaði sem varð til þess að loka þurfti algerlega öllum 13 verslunum Hagkaupa í dag. 

Þvílíkt og annað eins hefði verið óhugsandi hér í gamla daga. 

Þegar ég rekst á eitthvað svona, en það gerist svo miklu oftar en viðunandi er, bregð ég oft fyrir mig rödd gamla mannsins hjá Ladda og segi í hálfkæringi: "Þetta var allt saman miklu betra hérna í gamla daga." 

Og stundum er ekki laust við að það sé sannleiksvottur í því. 

Henry Ford hafði illan bifur á vökvakerfum og hélt fast við teinahemla í mörg ár eftir að keppinautarnir voru búnir að taka upp vökvahemla í staðinn. 

Hann hélt líka fast við stífan framöxul og þverfjöður að framan í 14 ár eftir að keppinautarnir höfðu lagt slíkt af. Þetta og fleiri afturhaldssamar ákvarðanir hans gengu næstum að fyrirtækinu dauðu á árunum eftir stríð. 

Ég á það sameiginlegt með Ford, að ég hef frekar illan bifur á alls kyns rafdrifnu og "vakúm"drifnu og vökvadrifnu dóti í bílum, að ekki sé talað um sumt af þeim sjálfvirka búnaði, sem svo mjög er dýrkaður. 

Konan mín á fjögurra ára gamlan bíl, sem hefur reynst einstaklega vel í alla staði þótt hann hafi verið sá ódýrasti á markaðnum þegar hann var keyptur. 

En rafbúnaðurinn á framrúðunni bílstjóramegin hefur aldrei verið í lagi, hefur tekið upp á því að bila og fara ekki upp, án þess að nokkur leið sé að finna út, af hverju. 

Svona draugagangur getur jafnvel verið enn verri en þetta. 

Á annarri afturrúðu jeppa, sem ég á, tók hún allt í einu upp á því að láta ekki að stjórn og fór meira að segja af stað niður upp á eigin spýtur án þess að snert væri við neinu. 

Þegar þetta gerðist í seinna skiptið gafst ég upp, setti fast spjald í gatið og hef algerlega forðast á því að koma við rúðuna og rúðurofann síðan. 

Í fyrradag "varð bilun í textavél" að því er sagt var eftir 20 mínútna stöðvun á útsendingu RUV. 

Bilun í textavél hér í gamla daga hefði einfaldlega þýtt, að ekki væri hægt að bregða þýðingartexta á skjáinn og þess vegna verið hægt að halda útsendingu áfram. 

En í þetta skipti var þetta öðru nær, því að öll kerfi úsendingarinnar stöðvuðust í heilar 20 mínútur og var ekki einu sinni hægt að láta hið gamalkunna skilti: "afsakið - bilun" birtast á skjánum! 

"Þetta var allt saman miklu betra hérna í gamla daga."? 

Svei mér þá ef það lítur ekki oft þannig út. 


mbl.is Öllum verslunum Hagkaups lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirliggjandi viðleitni til að koma sér hjá aðgerðum?

Það er búið að tala um "tafarlausar aðgerðir til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi" í nokkur ár án þess að það mál sé komið lengra en raun ber vitni. 

Erfitt er um vik vegna flugumferðar, enda hefur Ísland sérstöðu meðal þjóða hvað það varðar að vera eyland langt úti í hafi og hvað umferð fólks varðar alveg háð flugi. 

Í gangi er viðleitni hjá mörgum til þess að andæfa rafvæðingu bílaflotans, og bent á aðra vænlegri kosti, endurheimt votlendis eða samdrátt í flugi. 

Jafnvel eru hafðar í frammi slíkar reikningskúnstir að aðgerðir varðandi landsamgöngur skili nánast engu.

Þó má sjá í öðrum löndum að á því sviði er lögð einna mest á hundraða milljóna bílafloti jarðarbúa.  

Hvað flugið varðar, sem samgönguráðherra lagði áherslu á í dag, má spyrja, hvort þeir erlendu ferðamenn, sem koma til landsins og sækjast eftir að upplifa einstæða eldfjallanáttúru, myndu ekki fljúga telja sig þurfa að fljúga margfalt lengra, alla leið til Yellowstone, Hawai, Galapagos eða Nýja Sjálands. 

Eða hvort það sé gerlegt eða ráðlegt að draga úr tekjum af ferðaþjónustu og draga stórlega úr utanlandsferðum og viðskiptum við útlönd sem eru nauðsynleg fyrir menntun, verslun og arðsöm samskipti. 

Sérfræðingar í skógrækt og landgræðslu benda á að mikið skorti á að búið sé að rannsaka nægilega árangur af endurheimt votlendis eða landgræðslu og skógrækt. 

Hins vegar liggja mun betri útreikningar fyrir um umbætur á bílaflotanum en á flestum öðrum sviðum, útfærslan liggur fyrir og í fáum löndum heims eru aðstæður eins sláandi góðar til nýtingar á okkar eigin orku, að mestu leyti endurnýjanlegri og hreinni. 

Núna er talað um það sama og fyrir þremur árum, að hægt verði að aka hringinn á rafbíl eftir næstu áramót. 

 


mbl.is „Óumdeilt að endurheimt votlendis gagnast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórathyglisverð rannsókn.

Miklar og ákafar hjólreiðar voru undirstaða þreks og líkamlegs og andlegs ástands míns frá níu ára aldri til 19 ára aldurs. 

Nú hafa ég og sífellt fleiri tekið upp hjólreiðar á fullorðinsárum, og í mínu tilfelli er það mikilvægt, að vegna slæmra hnjáa, - komið bein í bein vagna slits, - get ég stjórnað að mestu álaginu á þau, af því að hjólið er búið rafmótor. 

Ég hef því með rúmlega tveggja ára reynslu fundið hentugt jafnvægi, sem hefur skilað mér betra ástandi hnjánna en áður var auk betra líkamlegs og andlegs ástands almennt, auk peningasparnaðs og eldsneytissparnaðs og minnkaðs útblásturs gróðurhúsalofttegunda. 

Það yrði stórmerkilegt og hið besta mál ef rannsókn dr. Tinnu Traustadóttur gæti leitt í ljós frekari niðurstöður varðandi áhrif hjólreiða og ber að fagna því. 


mbl.is Styrkt til að rannsaka áhrif hjólreiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sputnik"-lið, sem enginn átti von á.

Það var talað um blóðtöku í fyrra þegar ellefu leikmenn hurfu frá meistaraflokki Fram í handbolta, finna varð þjálfara og nýja leikmenn og sætta sig við þá spá, að Fram yrði neðst í vetur. 

Sextán ára "barn" í markinu var nokkurs konar táknmynd liðsins. 

En liðið óx við hverja raun og sprakk út í lokakeppninni þar sem það sló sjálfa Íslandsmeistarana út í leik vetrarins. 

Það var eðlilegt að liðið næði bestum árangri sinum þegar það "toppaði" í leikjunum við Hauka, en það toppaði kannski aðeins of snemma. 

Hvað um það, Valsmenn eru hugsanlega að koma upp nýtt "mulningsvélar" lið og engin skömm að tapa fyrir því. 

 


mbl.is Blaðran sprakk hjá okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband