Ennþá meira tilraunaverkefni en kísilverið í Helguvík?

Eftir um hálfsárs barning og vandaræði virðist margt í starfsemi United Silicor í Helguvík hafa verið hálfgerð tilraunastarfsemi með fleiri uppákomum og vandræðum en nokkur ímyndaði sér fyrirfram. 

Ef þetta hefur verið svona í starfsemi, sem ekki var talin fyrirfram vera nein tilraunastarfsemi og þurfti að fara í mat á umhverfisáhrifum, ef ég man rétt, - við hverju má þá búast í starfsemi Silicor Materials á Grundartanga, sem er fær undanþágu frá mati á umhverfisáhrifum og hefur þó verið skilgreint að minnsta kosti einu seinni sem tilraunastarfsemi? 

Nei, allt sem eigendur verksmiðjunnar leggur fram um framleiðsluaðferð, sem á sér enga hliðstæðu, er tekið gott og gilt, og það litla sem kannað er, er í gegnum aðila, sem draga má stórlega í efa að sé ekki vanhæfur. 

Í ljós kom í vetur, að fyrirtækið Silocor Materials hefur ekki átt fyrir gjöldum vegna lóðar og greiðslna til íslenskrar aðila, og er rétt að benda á athuganir og skrif Haraldar Sigurðssonar um það efni. 


mbl.is Býst við að heyra frá Silicor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnirnar í hinni "mikilfenglegu Ameríku."

Margt er mótsögnum hlaðið í hinni "mikilfenglegu Ameríku" sem forseti BNA þráir svo mjög. Á bandarískan mælikvarða þykir hægri mönnum þar í landi Demókratar vera nánast sósíalistískur flokkur, jaðra við kommúnisma. 

En á íslenskan mælikvarða er þessi flokkur hægra megin við allt íslenska flokkalitrófið. 

John F. Kennedy hefði aldrei komist til valda með sínar hugsjónir ef hann og ætt hans hefðu ekki verið vellríkt fólk. 

Raunar eru völd stjórnmálamanna vestra byggð á peningum, því að Hæstiréttur landsins hefur úrskurðað að engin takmörk megi setja á fjármögnun kosningabaráttu og stjórnmálastarfsemi í landinu. 

Af því leiðir eitthvert spilltasta þing á Vesturlöndum, þar sem þingmenn verða að eyða meirihluta vinnu sinnar í að þjóna þeim auðjöfrum, stórfyrirtækjum og fleirum, sem fjárfestu í þeim til þess að geta haft áhrif á þingið og störf þess. 

Tilsýndar er erfitt að sjá að húsið, sem Obama var að kaupa, sé 800 milljóna króna virði, þótt stórt sé. En margt í Bandaríkjunum er verðlagt talsvert öðru vísi en við eigum að venjast.  

Það fylgir sögunnni að húsið sé í "dýru", fínu hverfi. 

Slík hverfi er víða að finna vestra og minnisstætt er slíkt hverfi í borginni Avon í Klettafjöllunum í Colorado, sem við Helga sáum í ferð okkar vestra 2003. 

Borgin gerir út á það að vera "fínasta og dýrasta" skíðaborgin vestra og hinir ríku búa þar í sérstöku hverfi með glæsivillum. Við urðum að virða dýrðina fyrir okkur tilsýndar, því að hverfið er umgirt mannheldri girðingu og með öryggisgæslu allan sólarhringinn. 

Og verðlagið á húsunum er himinhátt, langt umfram íslensk verðmætamat. 

Á sínum tíma bjó Tage Erlander forsætisráðherra Svíþjóðar í ósköp venjulegri íbúð í blokk. 

Og virtist bara vera sæll og ánægður með það.

Ekki er ég viss um að íbúarnir í "dýra, fína" hverfinu í Avon séu haldnir meiri hugarró og hamingju en hinn hógværi sænski forsætisráðherra.   


mbl.is Obama keypti hús á 800 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn mínúta er betra en átta mínútur. Orðum fylgi ábyrgð.

Það eru út af fyrir sig jákvæðar fréttir mitt í öllu svartnættinu að það hafi tekið lögregluna í London aðeins átta mínútur að koma á vettvang ódæðanna og taka öll völd á svæðinu. 

En það var því miður ekki nóg til að koma í veg fyrir að ódæðísverkin væru framin. 

Átta mínútur er ótrúlega stuttur tími, en næsta skref eða takmark hlýtur að vera að koma alveg í veg fyrir morð og limlestingar. Tvennt má nefna. 

1.  Í sjónvarpsþættinum 60 mínútur kom fram, að rannsóknir á atburðarás og eðli máls varðandi brjálæðinga sem ráðast á saklaust fólk í þeim eina tilgangi að drepa og limlesta sem flesta, hafi sýnt að hinn gamla aðferð, að reyna að nálgast tilræðismenn með varfærni og yfirbuga hann af gætni, tilheyri liðinni tíð. 

Í ljós hafi komið að allar tafir á afgerandi aðgerðum kosta miklu fleiri mannslíf og hörmungar í heild en ef ráðist hefði verið hiklaust gegn morðingjunum. 

2. Orðum verða að fylgja ábyrgð og tjáningarfrelsið endar þar sem ofbeldi og hatur byrjar. Ofstopafull og öfgafull hatursorðræða á ekki að líðast.

Árásarmaðurinn, sem hafði fyrir voðaverk sín sagst vera tilbúinn til að gera allt í nafni Allah, hefði átt að gera óskaðlegan strax og láta hann taka ábyrgð á því sem var í raun viðbjóðsleg hótun.

En hér er vandi á höndum, sem verður samt að leitast við að leysa, að ekki verði til þvílíkt lögregluríki að jafna megi til þess sem gerðist og gerist í verstu alræðislöndum.  

 


mbl.is Lögregla var vöruð við árásarmanninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband