"Katla og Grímsvötn kallast á"

Ein af myndunum níu sem ég hef byrjað á, ber ofangreint heiti. Hún á að fjalla um svæðið frá Eyjafjöllum og Mýrdal norður og norðaustur til Vatnajökuls.p1012449.jpg

Þetta kom upp í hugann þegar ég fór með Helgu í dag til að sækja FRÚna, sem hafði bilað uppi í Veiðivötnum á sunnudagsmorguninn. 

Akstursleiðin og síðan flugleið mín þaðan til Hvolsvallar skartaði sínu fegursta í lágri kvöldsólinni og eru myndirnar á síðunni teknar í þessu ferðalagi okkar, - enn einu slíku sem við köllum nafninu "flug og bíll".  p1012465.jpg

Fyrir fimm árum sóttu orkufyrirtæki um að fá að fara inn á svæðið verstan Landmannalauga til tilraunaborana sem auðvitað var aðeins byrjunin á virkjanaframkvæmdum, því að svona fyrirtæki henda ekki milljörðum í slíkt án þess að vera nokkuð viss um framhaldið. 

Augljóst var að þetta var stórmál því að svæðið er efst á lista virkjanasinna sem orkumesta jarðvarmasvæði landsins og líka efst á lista náttúruverndarfólks. Ljósmyndirnar af þessu svæði sem ég smellti út um flugvélargluggann í kvöld gefa örlitla hugmynd um það. p1012452_1011018.jpg

Hluti þessa svæðis ber nafnið "Friðland að fjallabaki" en ljóst var að það myndi litlu máli skipta, því a bæði Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir sögðu að friðanir þyrftu ekki að vera endanlegar, þeim mætti alltaf aflétta eftir þörfum. 

Þannig var friðun aflétt á sínum tíma af þeim hluta Kringilsárrana sem sökkt var undir Hálslón. p1012471.jpg

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" færi ég rök að því að hálendið norðan Suðurjökla standi hinum fræga þjóðgarði Yellowstone framar sem náttúruverðmæti, en í hinu gríðarlega jarðvarma- og vatnsaflsorkubúnti Yellowstone og á svæði sem er stærra en Ísland í kringum þjóðgarðinn, eru allar boranir bannaðar, - punktur.

Ég rauk til fyrir fimm árum og fór margar ferðir að vetri og sumri bæði akandi og fljúgandi til þess að taka myndir á þessu yfirgripsmikla svæði. Fékk dálítinn styrk hjá Umhverfisráðuneytinu og eyddi honum og talsvert meiru í þetta kapphlaup mitt við orkufyrirtækin. 

Svo fór þó að leyfin voru ekki gefin en ný og ný svæði voru nú sett í aftökuröðina ásamt olíuhreinsistöðvum og á eftir öllu þessu neyddist ég til að hlaupa með myndavélarnar til þess  að reyna að koma af stað upplýstri umræðu í stað þess að enginn þekkti svæðin sem áttu að fara að virkja. 

Í umhverfisnefnd á landsfundi Samfylkingarinnar 2009 tókst mér að fá það samþykkt sem stefnu þess flokks að allt þetta svæði yrði gert að þjóðgarði og þar með friðað fyrir virkjunum. 

Ljóst er þó af nýjum og nýjum virkjanaáformum, sem dúkka sífellt upp, að baráttan er rétt að byrja fyrir því að verjast hinni skefjalausu ásókn í skjótfenginn skammtímagróða á kostnað komandi kynslóða. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar.  Einu sinni sá ég í sjónvarpi mynd af grágæsarhreiðri sem var að lenda í vatni vegna Kárahnúkavirkjanna. En hverning er þetta með andastofnin í Vatnsmýrinni í Reykjavík?

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 21.7.2010 kl. 08:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Norður á Akureyri frétti ég af félagi, sem heitir Andavinafélag Íslands og sýnist mér að félagar þess komi úr ýmsum áttum, þ. á. m. Halldór Blöndal, Þorsteinn Davíðsson og Baldvin Sigurðsson.

Þetta félag og Fuglaverndarfélag Íslands virðast vera aðilar sem geti tekið þetta mál upp á sína arma.

Ómar Ragnarsson, 21.7.2010 kl. 08:28

3 Smámynd: Ár & síð

Fagurt er landið og fjöllin blá

með fönn í skafli.

Katla og Grímsvötn kallast á

og kynda af afli.
Matthías

Ár & síð, 21.7.2010 kl. 09:28

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ertu alveg viss um það Ómar, að Kringilsárrani hafi verið friðaður?

Enn og aftur ertu að bera Yellowstone þjóðgarðinn saman við austurhálendi Íslands. Gjörsamlega út í hött.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.7.2010 kl. 11:31

5 identicon

Þetta landsvæði er stórkostlegt!

Ég flaug þarna um helgina og tók þá þessar myndir:

http://picasaweb.google.com/matthias.sveinbjornsson/Morguntur#

Þetta myndskeið tók ég í Jökulgili - best að horfa á það í HD:

http://www.youtube.com/watch?v=-iRYcGMv2t8

Matthías Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 21.7.2010 kl. 12:34

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lestu betur, Gunnar minn. Síðan hvenær hefur Friðland að Fjallabaki verið á austurhálendinu?

"Katla og Grímsvötn kallast á" heitir efni pistilsins. Þú ætlar þó ekki að halda því fram að austurhálendið sé á milli Kötlu og Grímsvatna?

Ómar Ragnarsson, 21.7.2010 kl. 14:22

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á sínum tíma fékk ég sérstakt skriflegt leyfi þáverandi Náttúruverndarráðs til að lenda flugvél á Hraukahjalla í Kringilsárrana vegna þess að það var friðland.

Sá lendingarstaður er nú á um 40 metra dýpi í hinu auruga Hálslóni.

Ómar Ragnarsson, 21.7.2010 kl. 14:25

8 identicon

Áfram Ómar!

Hvernig getur nokkrum íslendingi dottið það í hug að eyðileggja þetta stórbrotna og ægifagra land? Maður fyllist vanmætti og hryggð.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 21.7.2010 kl. 14:59

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ómar það er gott að vernda landi okkar !!!og allt það, en þetta með að gera meira og mynna að' þjóðgarði eru öfgar okkur veitir ekkert af orkunni til nýtingar við lifum ekki eingöngu á ferðamönnum og veglausri nátórunni/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 21.7.2010 kl. 17:01

10 Smámynd: Heimir Tómasson

Það sem Ómar er að benda á er að það eru fleiri virkjunarstaðir en þeir sem Landsvirkjun krefst. Orkufrekur iðnaður og náttúruvernd geta vel búið saman. Það þarf bara mannskap með meira en hálfa meðalgreind á báðum stöðum. Ómar er okkar albesti sérfræðingur um náttúru Íslands, það vantar mann á svipuðu reki virkjanamegin.

Heimir Tómasson, 21.7.2010 kl. 17:45

11 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég tek undir með Heimi Tómassyni.

Ómar er óumdeilanlega sá maður sem bestan og mestan vörð hefur staðið um náttúru okkar fallega lands. Sumum hefur þótt hann ganga full langt á stundum, en engum hefur þó tekist að benda á rangfærslur eða ósannsögli í umfjöllun hans.

Stóriðja og náttúruvernd geta átt samleið, en það er ekki í verkahring Ómars og annara verndarsinna að taka upp hanskann fyrir stóriðju og orkufrekan iðnað, þeir sem hlyntir eru slíkri starfsemi þurfa sjálfir að sjá um að koma sínum málstað á framfæri.

Gunnar Heiðarsson, 21.7.2010 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband