Stalín hefur lengi verið grunaður um græsku.

Morðin illræmdu í Katyn-skógi á pólskum liðsforingjum sýndu að Rússar reyndu eftir megni að draga mátt úr Pólverjum á stríðsárunum.

Þrættu þeir fyrir morðin í meira en hálfa öld en viðurkenndu þau eftir fall Sovétríkjanna. Forsætisráðherra Pólverja fórst á leið til minningarathafnar um morðin í fyrra.

Stalín hefur lengi verið grunaður um að hafa spilað þannig úr spilum sínum í ágúst og september 1944 að Pólverjum blæddi sem mest.

Þetta verður svo sem aldrei sannað til fulls enda var það svo í sókn herja Bandamann bæði úr vestri og austri, að herirnir stöðvuðust alllengi meðan verið var að byggja þá upp með flutningum og skipulagi fyrir næstu sóknarbylgju.

Nefna má hve lengi innrásarherinn í Normandí var kyrrstæður áður en Patton tókst að rjúfa herkvína og einnig, hve lengi honum miðaði lítið áfram yfir vesturlandamæri Þýskalands.

Sovétherinn fór líka hægt yfir á leið sinni inn í Þýskaland síðustu mánuði ársins 1944 og fram yfir áramót.

Í stríðlok voru Bretar fúlir út í Roosevelt Bandaríkjaforseta fyrir að draga taum Sovétmanna varðandi örlög Póllands.

Bretar fóru út í stríðið 1939 út af árás Þjóðverja á Pólland, sem var gerð í kjölfar griðasamnings Hitlers og Stalíns. Pólsk útlagastjórn hafði setið öll stríðsárin í Bretlandi og því fúlt í stríðlok að horfa á eftir Póllandi í gin Rússa.

Á móti þessu kom, að í rúma átta mánuði frá september 1939 til maí 1940 lyftu Bretar og Frakkar ekki litlafingri gegn Þjóðverjum á vesturlandamærum Þýskalands heldur stóð þar yfir fyrirbæri sem fékk heitið "Platstríðið" (Phony war).

Allan þennan vetur áttust Bretar og Þjóðverjar aðeins við á hafinu og það var fyrst eftir 9. apríl 1940 að Bretar reyndu að hjálpa Norðmönnum í vörn gegn innrás Þjóðverja í land þeirra.

Það kom í hlut Sovétmanna að reka Þjóðverja út úr Póllandi og í stríðinu við Þjóðverja misstu Rússar 20 milljónir manna. Þess vegna er eftirlátssemi Roosevelts skiljanleg þótt Bretum þætti hún ósanngjörn.

Í augum Stalíns voru lönd Austur-Evrópu stuðpúði gegn hugsanlegri ásælni úr vestri í framtíðinni og hann var reynslunni ríkari eftir hina miklu innrás Þjóðverja 22. júní 1941.


mbl.is Minnast Varsjáruppreisnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

það voru kanske mistök að halda ekki áfram austur þegar ljóst var hver Stalín var.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 1.8.2011 kl. 22:10

2 identicon

Það voru herfræðileg mistök að nýta sér ekki glundroðann í Varsjá og taka borgina. Meir að segja Bretar reyndu að leggja lið með loftstuðningi og vopnadreifingu, en án árangurs, enda um mhög langan veg að fara.

Þetta var hinsvegar pólítísk ávörun Sovétmanna, og Katyn atburðurinn ásamt eyðingu Varsjár situr ennþá djúpt í Pólsku þjóðarálinni.

Ég segi eyðing Varsjár, því engin borg varð eins illa úti í seinna stríði, og eru þá Dresden, Hamborg, Berlín, Hiroshima og Nagasaki ekki gleymdar.

Mannfall Pólverja á styrjaldarárunum var einnig það hlutfallshæsta.

Jón Logi (IP-tala skráð) 2.8.2011 kl. 09:51

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Fór til Póllands 2007 og kom m.a. við í Kreisau en þar er m.a. safn, en á Kreisau komu saman reglulega yfirmenn úr þýska hernum á stríðsárunum, sem vildu byggja upp friðarbandalag í Evrópu.

Í safninu er talsvert farið yfir hryðjuverk þýska hersins í Póllandi annars vegar og hryðjuverk Rússa og m.a. í Katyn-skógi en þar var talið að Rússar hafi drepið um 22.000 yfirmenn í pólska hernum. Undir stjórn kommúnista var það kennt í pólskum skólum að þýski herinn hafi verið þar að verki, en því er ekki haldi fram í dag.

Safnvörður sagði okkur til nokkurrar furðu að það væru einstaka aðilar sem mótmæltu að einhverjir hefður verið drepnir í útrýmingarbúðum, nasista í Majdanek, Chelmno,Belzec,Sobibor,Treblinka, Auschwitz en þar er talið að hafi verið drepnir um 3.500. Þetta væri oftast ungt fólk og karlmennirnir oftast snöggklipptir. Hann útskýrði einnig fyrir okkur að annar hópur efaðist um dráp Rússa á Pólverjum í  Katyn-skógi. Hann taldi það vera vinstri sinna. 

Ómar þú segir að eitthvað hafi ekki verið sannað til fulls. Hvað áttu við?

Sigurður Þorsteinsson, 2.8.2011 kl. 11:12

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta orðalag, Sigurður, á við það hvort það hafi verið djöfulleg áætlun Stalíns að egna Varsjárbúa til uppreisnar og láta Þjóðverja um að slátra þeim.

Ég hef hvergi séð beina sönnun fyrir þessu þótt það sé afar liklegt miðað við það hvern mann Stalín hafði að geyma.

Þess má geta að komið hefur fram að til voru Bretar í stríðslok sem vildu að herir Vesturveldanna héldu áfram í austur og sæktu gegn Rauða hernum og að fá liðsauka austan frá Kyrrahafi til þessa verks eftir að gengið hefði verið frá Japönum.

Þeir töldu átök á milli Vesturveldanna og Sovétmanna óhjákvæmileg og að best væri að ljúka þeim af sem fyrst.

En þeir herforingjar sem réðu ferðinni töldu þetta hernaðarlega óframkvæmanlegt og á þessum tíma var áreiðanlega enginn vilji fyrir því hjá stríðsþreyttum þjóðum í Vestur-Evrópu

Ómar Ragnarsson, 2.8.2011 kl. 12:07

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar, þetta er mjög áhugaverður hluti sögunnar. Mörgum Pólverjum svíður hvað lítið er gert úr glæp Sovétmanna í samskiptum sínum við þá. Þeir líta á sig sem litla þjóð sem þurfi að berjast fyrir sínu, og halda vöku sinni.

Sigurður Þorsteinsson, 2.8.2011 kl. 12:46

6 identicon

Ég hef nú ekki heyrt þá kenningu fyrr að Varsjárbúar hefðu verið egndir til uppreisnar.

Þeir vissu hins vegar að rauði herinn væri skammt undan, og vonuðu að hann nýtti sér uppreisnina til að skunda í slaginn.

Herfræðilega rétt, og hefði veitt sovétmönnum hraðari framsókn, og þar af leiðandi stærri stuðpúða.

 Frá heilbrigðu skynsemis-sjónarmiði rétt, þar sem það hefði gert Pólsku þjóðina heldur jákvæðari í garð sovétsins, - það var búið að anda köldu áður, - 1919 ef ég man rétt, og svo 1939.

En, yfirstjórnin, eða Stalín sjálfur virðast hafa lúrt á myrkari hugsunum. Það kostaði vísast sovéskt blóð að nýta ekki þetta tækifæri, og mun kaldari samskipti við Breta og Bandaríkjamenn.

Og að sjálfsögðu voru Bretar fúlir í stríðslok yfir því að vera þeir einu af hinum 3 stóru  sem staðfastlega vildu sjálfstætt Pólland. Bretar og Frakkar sögðu Þýskalandi stríð á hendur vegna Póllands. Sovétið var á meðan með samninga og stórviðskipti við Þýskaland Hitlers, og það gladdi ekki Breta að vita það í miðjum loftárásunum 1940-1941 höfðu Þjóðverjar nóg af Rússabensíni. Þjóðverjar hófu svo stríð á hendur Sovétmönnum og lýstu yfir stríði á hendur Bandaríkjunum við árásina á Pearl Harbour. Það eru ótrúlega margir Bandaríkjamenn sem vita þetta ekki!

Churchill gamli, - prinsippmaður og fastur fyrir, auðvitað varð hann ekki dús við að Roosevelt lúffaði fyrir Stalín, og Truman fylgdi stefnu hans. 

Stalín hins vegar hafði orð um aðdáunarverða staðfestu Churchills....

Jón Logi (IP-tala skráð) 2.8.2011 kl. 12:49

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Var að horfa á 30 klst af efni um seinni heinstyrjöldina. Hugmyndin um að halda áfram austur kemur ekki fram þar.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 2.8.2011 kl. 22:28

8 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

En þetta kom fram á fundi bandamanna: Truman segir að það verði að refsa yfirmönnum Þjóðverja með einhverjum hætti eftir stríðið. Stalín segir: "Söfnum saman 50.000.- yfirmönnum Þýska hersins og skjótum þá". Truman hélt að hann væri að djóka og svarar: "Nei 49.000.

Churchill svarar að ef eitthvað svona eigi að gera þá krefjist hann þess að hann verði fyrstur leiddur út og skotinn.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 2.8.2011 kl. 22:40

9 identicon

Kallinn í hnotskurn.

Það er til myndaþáttur um þetta "þríveldi". Hét "Risarnir" þegar það fékkst á VHS. Man ekki hvort það var Bob Hoskins sem lék Churchill, og svei mér ef ekki Michael Caine var Stalín kallinn.

Svona-svona myndræma, en margt af athyglisverðum hlutum,

Jón Logi (IP-tala skráð) 3.8.2011 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband