FUNDIN ÞJÓÐARSÁTT FYRIR OKKUR ÖLL.

Heyri í útvarpsfréttum að tveir framsóknarráðherrar hafa fundið þjóðarsátt um virkjanamálin á grundvelli starfs svonefndrar auðlindanefndar með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og annarra aðila sem málið snertir. Stórfrétt og góð tíðindi. Nú getur náttúruverndarfólk farið heim og lagt sig og stjórnmálabaráttan farið að snúast um allt annað en umhverfismál eins og verið hefur í síðustu kosningum.

Þetta eru enn betri tíðindi fyrir þá sök að náttúruverndarfólk þurfti ekkert að hafa fyrir þessu, því það átti enga aðild að sáttinni heldur lögðu ráðherrarnir það á sig að vinna allt málið upp í hendurnar á okkur.

Samtök ferðaþjónustunnar áttu víst heldur engan fulltrúa í nefndinni enda er þeirra hlutverk að finna leiðir til að láta erlenda ferðamenn skoða risaverksmiðjur, háspennulínur og stórvirkjanir.

Að sjálfsögðu áttu orkufyrirtækin fulltrúa í nefndinni enda eru það orkufyrirtækin sem meta það hvenær "brýn nauðsyn" og "almannaheill"eru í húfi þegar lönd eru tekin eignarnámi fyrir virkjanir.

Náttúruverndarfólk þarf ekki einu sinni að skrifa undir þessa sátt. Hugsa sér hvað þetta er einfalt þegar þetta er borið saman við þjóðarsáttina frægu 1990. Þá þurftu fulltrúar beggja deiluaðila, atvinnurekenda og launþega, að leggja sig alla fram vökunótt eftir vökunótt vikum saman til þess að ná þeirri frægu sátt.

Nú voru það aðeins fulltrúar orkufyritækjanna sem unnu þetta starf fyrir náttúruverndarfólkið sem aðilar að málinu. Þetta minnir á Sovétríkin sálugu þar sem fulltrúar fólksins í kommúnistaflokknum unnu alla vinnuna við að ákveða kaup og kjör og ná þjóðarsátt um þau án þess að þurfa að dragnast með frjáls verkalýðsfélög í þeirri vinnu.

Ég bið spenntur eftir þjóðarsáttinni sem Jón og Jónína hafa unnið fyrir alla þjóðina. Raunar var ég nýlega á málþingi þar sem fram kom í máli vantrúaðra að þjóðarsáttin myndi fara að virka eftir að búið væri að virkja sem svaraði tveimur Kárahnjúkavirkjunum í viðbót svo að hægt væri koma á koppinn fyrstu áföngum þeirra álvera sem eru á teikniborðinu. 

En þessar virkjanir og álverin eru náttúrulega smámunir miðað við svona stórkostlega sátt. Í henni hlýtur að felast að öll nýju Sólarsamtökin auk þeirra umhverfissamtaka sem fyrir voru geta nú lagt sjálf sig niður. Það er engin þörf fyrir þau, - ráðherrarnir sjá um sáttina sem þjóðina þyrstir í, - baráttan fyrrgreindra samtaka reynist vera óþörf hér eftir. Hvílík dýrð! Hvílík dásemd! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta er hárrétt hjá þér Ómar. Margir voru búnir að spá því að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur myndu breytast í "umhverfisverndarflokka" rétt fyrir kosningar. En þessir flokkar verða dæmdir af verkum sínum. Svo geta þeir hugsað sitt ráð í stjórnarandstöðu næstu fjögur eða átta árin. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 12.2.2007 kl. 14:39

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við hvern á að ná sátt úr ykkar röðum Ómar? Þig? Andra Snæ? Árna finnson? Hver er stefnan ykkar og talsmaður hennar? Hafið þið kannski skemmt fyrir ykkur með bulli og vitleysu?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.2.2007 kl. 15:23

3 identicon

Sæll Gunnar

Þú beindir spurningu þinni til Ómars og því rétt að hann svari þér, en þú hitttir kannski naglann á höfuðið með talsmenn.  Ég sé ekki önnur ráð en að stofnað verði til framboðs svo þú og fleiri skiljið að það er mikil alvara er á ferðum.  Annars þætti mér vænt um að þú útskýrðir þetta með bullið og vitleysuna.  Ég er einmitt einn þeirra þúsunda sem hef ekki getað ekki kosið gamla flokkinn minn, m.a. vegna  viðhorfa í stóriðjumálum. 

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 15:47

4 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Það sem við þurfum er algjörlega ný ríkisstjórn. Það má ekki vera snefill af gömlu ríkisstjórninni eftir. Nú þarf að stjórna af festu, sýna hugrekki og framsýni. Framtíð Íslands liggur ekki í álverum heldur í fjölmörgum sprotafyrirtækjum sem þurfa meiri pening. Hafa menn skoðað hvað litlir peningar fara til rannsókna- og þróunarstarfs hér á landi ? Það er alltaf verið að skera niður í þeim geira!

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 12.2.2007 kl. 16:33

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Þetta er ágæt lýsing á málinu. Það er algjör brandari að ætla sér að kalla þetta þjóðarsátt. Að vísu held ég að formaður Framsóknar hafi kallað þetta "farveg þjóðarsáttar" sem er alveg í hans stíl - þjóðarsátt var of einfalt orðalag fyrir hann.

Auðvitað er ekki um neina sátt að ræða þegar hagsmunaaðilar s.s. ferðaþjónustan og frjáls félagasamtök eru ekki velkomin að borðinu. Þetta er risastökk fyrir framsókn en því miður aðeins hænuskref fyrir þjóðina sem heimtar að nú verði sagt stopp og ráðist í vinnu við að skapa hér alvöru sátt um náttúruvernd.

Það verður líka að segjast eins og er að frumvarpið sem Umhverfisráðherra boðar er í sama stíl og annað hjá þessari ríkisstjórn. Það má segja að eina stefna stjórnvalda sé að hafa enga stefnu og að kasta ábyrgðinni af höndum sér.

Þannig kastaði hún ábyrgðinni á skipulagsmálum á sveitarfélögin og ábyrgðinni á því hvað má rannsaka/og virkja af sameiginlegum auðldinum kastaði hún á orkufyrirtækin sem nú eru í ofsafengnu kapphlaupi um að slá eign sinni á gersemar landsins.

Núna segist umhverfisráðherra ætla að standa við Kyoto en segir jafnframt að stóriðjunni sé heimilt að fara fram úr öllum heimildum, það sé bara á þeirra ábyrgð að útvega sér viðbótarheimildir!

Er það nú stefna! Ætlar hún þá bara að benda á Alcoa og Alcan þegar alþjóðasamfélagið spyr af hverju við höfum ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar. Af hverju við tökum ekki þátt í að berjast á móti yfirvofandi hamförum, þurrkum, eyðileggingu heilu borganna með tilheyrandi áhrifum á líf hundruða milljóna manna.

Hvílíkur metnaður!

Dofri Hermannsson, 12.2.2007 kl. 17:36

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

....gott Ómar, að benda hið augljósa!

"keep up the good work!" 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.2.2007 kl. 18:27

7 identicon

Það ber líka að hafa í huga að með þessari meintu sátt er verið að etja orkufyrirtækjunum í kapphlaup um rannsóknarleyfi því þau fá forgang um nýtingu á þeim svæðum sem þau rannsaka. 

Tryggvi Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 18:52

8 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hver voru aftur ánægð með niðurstöðu auðlindanefndar og hver ekki ?

Pétur Þorleifsson , 12.2.2007 kl. 19:10

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég skal reyna að útskýra bullið og vitleysuna. Í þessu tilfelli tala ég um rök andstæðinga Kárahnúkavirkjunar (og áður Eyjabakkalóns/Fljótsdalsvirkjunar) en í sjálfu sér er hægt að heimafæra það á flest sem úr munni svokallaðra náttúrverndarsinna hefur hrotið.

1.) Fullyrt er að verið sé að eyðileggja hálendið. Ómetanlegar náttúruperlur svívirtar og lífríki gæsa og hreindýra stefnt í voða. Svar: Ekki mín skoðun né flestra sem þekkjum svæðið frá því löngu fyrir umræðuna um Kárahnjúka. Meira að segja Hjörleifi Guttormssyni fannst lítið til svæðisins koma í grein sem hann skrifaði á 9. áratugnum. Mat á umhverfisáhrifum vegna gæsa/hreindýra bendir til að engin hætta sé áferðum.

2.) Fullyrt er að tap muni verða á Kárahnjúkavirkjun. Svar: Ég er ekki fær um að reikna arðsemina út sjálfur  en trúi frekar á áralanga rannsóknarvinnu færustu sérfræðinga en útreikninga kaffibollahagfræðinga sem komast að annari niðursöðu eftir kvöldlanga athugun án þess að hafa forsendur fyrir útreiknungunum heldur gefa sér þær svo útkoman verði þeim að skapi.

3.) Lóu og spóastofnar eru í hættu í Héraðsflóa vegna þess að Jökulsá á Dal er veitt í Lögin. Svar: Ekki samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Auk þess heldur vatnið áfram að falla í Héraðsflóa.

4.) Loftslag í Hallormstaðaskógi muni kólna. Svar: Getgátur. Engin vísindaleg rök. Jökulvatni er jú veitt í jökulvatn.

5.) Ferðamannaiðnaðurinn á austurlandi í hættu og jafnvel landinu öllu vegna ímyndar Íslands. Svar: Aldrei verið eins margir ferðamenn á austurlandi né landinu öllu.

6.) Sprotafyrirtæki og smáiðnaður líður fyrir stóriðjuna. Svar: Aldrei hafa sprotafyrirtæki og lítil iðn og þjónustufyrirtæki verið í eins miklum uppgangi á Mið-Austurlandi og s.l. 2 ár.

7.) Ruðningsáhrif stóriðjunar hafa skelfileg áhrif á smærri fyrirtæki. Svar: 2 fyrirtæki hafa hætt á Reyðarfirði frá því framkvæmdir hófust. SR-mjöl og Skinney/Þinganes. Formaður V-Grænna hrópaði ; sko! hvað sagði ég ykkur!Kynnið ykkur hvers vegna þessi fyrirtæki hættu starfsemi á Reyðarf. í staðinn fyrir að trúa í blindni á foringjann.

8.) Ekki muni fást íslenskir starfsmenn til vinnu í álverinu heldur verði það mannað með undirborguðum útlendingum í gegnum starfsmannaleigur sem borgi ekki einu sinni skatta hér. Svar: Í þau 300 störf sem þegar hefur verið ráðið í bárust 3000 umsóknir. Allt Íslendingar.

9.) Laun er lág og menntunarstig lágt hjá starfsmönnum álversins. Svar: 90% starfsmanna mun hafa iðnmenntun eða meira. Stór hluti með háskólamenntun.

10.) Alcoa skilar litlu til samfélagsins og heldur Mið-Austurlandi í í heljargreipum með leyndum og ljósum hótunum. Svar: Samningur Alcoa er til 40 ára. Þeir hafa styrkt samfélagið mikið með margskonar fjárframlögum til samfélagsins, t.d. 150 milj. til heilbrigðismála, 80 milj. til íþróttamála auk þess sem hafin er undirbúningur á byggingu 18 holu golfvallar. o.m.fl.

11.) Mengun í Reyðarfirði mun verða óbærileg vegna þess hve lokaður og staðviðrasamur hann er. Svar: Rannsóknir hafa farið fram á veðurfarslegum staðháttum árum saman. Umhverfismat; ekki ástæða til að hafa áhyggjur.

Ég ætla að láta þetta nægja. Ég gleymi fullt af atriðum því varla hefur liðið dagur án þess að eitthvert bullið byrtist á prenti.  Það virðist sama ef einhverjar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á landsbyggðinni þá eru ómetanlegar náttúruperlur í hættu. Náttúran er auðvitað smekksatrið í hverju tilfelli fyrir sig og um smekk verður ekki deilt. En það er voðalega þægilegt að hafa slagorð eins og " Látum náttúruna njóta vafans". Þá þarf ekki nema fámennan háværan hóp fólks til að stöðva framkvæmdir vegna þess að það segir að um einstakar náttúruperlur sé að ræða. Bull og vitleysa.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.2.2007 kl. 19:14

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mig langar að bæta við: 12.) Kárhnjúkavirkjun er ólögleg framkvæmd þar sem skipulagsstofnun hafi hafnað henni á grundvelli umhverfismats. Svar: Rangt, framkvæmdinni var breytt verulega frá upphaflegum áformum og í kjölfarið samþykkt af öllum lögformlegum aðilum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.2.2007 kl. 19:20

11 identicon

Sæll Dorfi. Ég trúi því að þú og margir aðrir í Samfylkingunni séuð einlægir náttúruverndarsinnar og ég fagna röddum slíkra hvaðan sem þær koma, en því miður get ég ekki treyst flokki þínum frekar en Framsókn, Frjálslyndum eða Sjálfstæðisflokki þótt  þar sé að finna landverndarfólk.

 

Þrátt fyrir stefnuna um “Fagra Ísland” þá mælir forystumaður í sterkasta kjördæmi flokks þíns fyrir stækkun álversins í Straumsvík og annar forystumaður ykkar í Norð-austur kjördæmi segist ekki munu standa gegn álveri á Húsavík, standi slíkt til boða. Hið sama var og er uppi á teningnum varðandi álverið á Reyðarfirði.  Hvaða stefnu takið þið varðandi önnur álver sem koma til með “að standa til boða” í framtíðinni með öllum þeim hörmungum sem slíku fylgir?  Það sæmir ekki að benda bara á hina.

 

Þrátt fyrir þetta óska ég þér og öðrum þeim sem enn berjast fyrir landvernd innan flokka sinna góðs gengis í baráttunni.  Ekki veitir af.

 

Sjálfur gat ég ekki kosið minn flokk 1999, ekki 2003 og þaðan af síður núna þegar allir ættu að vera orðnir upplýstir um hvaða hryðjuverk er verið að vinna.  Ég er rétt eins og þú félagi í Framtíðarlandinu og studdi áform um þverpólítiskt framboð á þess vegum.  Ég var lengi í vafa um hvort þetta væri rétt, þ.e. hvort samtök okkar hefðu meiri og betri áhrif utan þings en innan.  Niðurstaða eftir kosningu liggur nú fyrir og þótt framboðshugmynd á vegum Framtríðarlandsins hafi verið felld þá liggur í loftinu að einhverjir aðrir og jafnvel félagar í þessum samtökum muni láta til skarar skríða. Margir umhverfisverndarsinnar geta ekki hugsað sér að veita Vinstri grænum atkvæði sitt af hugmyndafræðilegum ástæðum þótt sá flokkur hafi einn staðið í lappirnar gegn stóriðjuáformum.  Miðað við þá miklu óánægju sem gerjar innan “stóriðjuflokkanna” kæmi mér ekki á óvart að framboð með umhverfismál að leiðarljósi skilaði fjöldahreyfingu inn á alþing.

 

Því miður varð ég þess var að flokkapólitíkin skilaði sér inn á fund Framtíðarlandsins sem haldin var á Hótel Lofleiðum um framboð.  Þar fór fram málefnaleg umræða og margir héldu góðar ræður.  Eftir á að hyggja fannst mér þó óeðlilegt að fólk sem er í framboði fyrir stjórnmálaflokka mælti gegn því að félagið færi í framboð.  Um það mál var þetta fólk auðvitað vanhæft þótt við stæðum saman í landverndarbaráttunni.  

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 19:21

12 identicon

Takk fyrir útskýringar á bullinu Gunnar, en þú gleymdir að segja að þetta kæmi allt frá hundasúrufólki með vit sem nær ekki út fyrir 101 í Reykjavík. 

Fullyrðingar þínar eru nokkuð einhæfar en krefjast auðvitað svara aftur og aftur en mér sýnist á öllu að langt sé land um að við getum orðið sammála og er hræddur um að við séum farnir að misnota þessa annars ágætu síðu hans Ómars. Læt hér staðar numið í bili.  Með bestu kveðjum austur.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 20:00

13 Smámynd: Stefán Stefánsson

Nei Snorri, við erum ekki farin að misnota þessa góðu síðu hans Ómars.  Síðan er góð eins og margt sem komið hefur frá Ómari í gegn um tíðina.
Það er kraftur í Ómari.

Gunnar Theódór er einungis að svara og hrekja þann áróður sem andstæðingar framkvæmdanna á austurlandi hafa haft í frammi og gerir hann það vel.
Ég er alveg fullkomlega sammála því sem hann skrifar hér vegna þess að þetta er raunveruleikinn.

Stefán Stefánsson, 12.2.2007 kl. 20:39

14 identicon

Sæl öll. Vissi ekki að mín biði erindi á þessari síðu, hefði búist við slíku á www.dofri.is en nú er ég búinn að sjá erindið svo mér er ljúft að svara Snorra.

Í fyrsta lagi skulum við hafa á hreinu að ALLIR þingmenn Samfylkingarinnar hafa skrifað upp á Fagra Ísland. Þar er kveðið á um að rannsaka skuli allt landið með tilliti til verndargildis og tryggja verndun verðmætra svæða. Það sem út úr því kemur á að verða grundvöllur að öllu skipulagi hálendisins (og annarra svæða) til að tryggja að mannvirki s.s. uppbyggðir vegir, hálendishótel eða virkjanir liggi utan þessara svæða. Þetta þýðir EKKI að ALDREI megi leggja veg, byggja hótel eða virkja orku - það mun hins vegar ekki verða innan verndarsvæða.

Fagra Ísland er eitt helsta baráttumál flokksins í komandi kosningabaráttu og formaðurinn hefur sjálf sagt að Fagra Ísland verði eitt af grundvallarmálunum sem samið verður um í stjórnarmyndunarviðræðum, komist Samfylkingin í aðstöðu til. Fagra Ísland er það verkfæri sem við þurfum - það þarf að stoppa núna og ráðast í Rammaáætlun um NÁTTÚRUVERND - það er eina leiðin til að ná utan um þetta stærsta deilumál þjóðarinnar.

Það er rangt að Lúðvík hafi mælt með stækkun í Straumsvík. Hann hefur ekki gefið upp afstöðu sína til stækkunar. Hann hefur hins vegar ekki heldur mælt á móti henni. Hann er bæjarstjórinn í Hafnarfirði og í stað þess að heimila stækkun sem hefði verið eðlilegast ef hann væri svona ákafur í það eins og þú heldur fram hefur hann og hans fólk ákveðið að leggja þá ákvörðun í dóm bæjarbúa. Af því bæjarstjórnarflokkurinn er með 56% fylgi í Hafnarfirði væri það ekki í anda lýðræðis að bæjarstjórnarflokkurinn gæfi út "línuna" í íbúakosningunum um þetta þverpólitíska mál. Það verður því ekki gert.

Hafnarfjörðu hefur átt í viðræðum við Alcan um stækkun í nokkur ár. Að þeim bollaleggingum hafa komið stjórnmálamenn úr öllum flokkum, líka Vg sem þú segir réttilega hafa staðið fast í lappirnar í náttúruverndarmálunum. Í stjórn OR stóðu þeir samt að samningi á orku til stækkunarinnar - í góðri trú um að það væri bara hið besta mál - þá töldu flestir háhitavirkjanir vera það grænasta af öllu grænu.

Á Húsavík dreymir marga um álver, það er rétt, líka Vinstri græna, það er bara þannig. Ég hef sagt að besta hugsanlega náttúruverndarstefnan sem hægt væri að finna upp við núverandi aðstæður væri metnaðarfull byggðastefna. Það er ekki endilega sjúkleg löngun í álver sem plagar fólk á Húsavík - fólk þar vill hins vegar fá eitthvað sem styrkir byggðina. Það er okkar allra klúður að svo skuli vera komið.

Það hefur hins vegar verið alveg kristaltært af hendi Kristjáns og þingflokksins að orkan í Þeystareykjum verður einungis nýtt ef það samræmist niðurstöðum Rammaáætlunar um náttúruvernd. Ekki kemur til greina að virkja Jökulsá á Fjöllum eða Skjálfandafljót. Sem sagt - Fagra Ísland stendur föstum fótum.

Það er dálítið kúnstugt að Samfylkingin skuli tortryggð þótt hún hafi á síðustu misserum síst staðið sig verr en t.d. Vg sem á sveitastjórnarstigi hafa aldrei mótmælt stækkun á Grundartanga, sett sig á móti rannsóknum við Þeystareyki, tekið þátt í orkusölusamningum fyrir stækkun í Straumsvík og sett Skatastaðavirkjun inn á tillögu að aðalskipulagi í Skagafirði.

Það er rétt að Samfylkingin hefur ekki alltaf verið sammála í þessum málum en það er einmitt þess vegna - og vegna þess að þar á bæ þora menn að ræða sig að niðurstöðu í málefnum sem ágreiningur er um - að lausnin á vandanum kemur frá Samfylkingunni. Það er fyrst þegar fólk með ólík viðhorf tekst saman á við verkefnin að lausnin birtist. Það er mikið talað um trúverðugleika en hver hefur hann óskoraðann. Skiptir ekki mestu hvað fólk ætlar sér að gera hér eftir? Viðhorfin hafa breyst hratt síðustu misseri og það er gott, þau þurftu líka að breytast og breytast hratt. Tökum því fagnandi.

Varðandi Framtíðarlandið, þá er ég nú ekki í framboði og það er Hjörleifur Guttormson ekki heldur eftir því sem ég best veit. Mér fannst rangt og finnst enn að eyðileggja þverpólitísk grasrótarsamtök með því að gera úr þeim stjórnmálaflokk. Mér fannst reyndar líka vanta töluvert mikið upp á að hægt væri að samþykkja framboð fyrir hönd Framtíðarlandsins.

Það er töluverður munur á að bjóða fram til Alþingis og að vera sterkt þrýstiafl og hugmyndaveita. Hið síðarnefnda hefur Framtíðarlandið svo sannarlega sýnt fram á að það getur - svo um munar. Þar er kröftum þess best varið að mínu viti. Ég er þess fullviss að það verður gert með eftirminnilegum hætti fram að kosningum.

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 23:23

15 identicon

Jæja strákar, Gunnar og Stefán.  Það væri freistandi að svara útskýringum Gunnars lið fyrir lið en mér sýnist þið svo djúpt sokknir í gullgrafarapyttinnn þarna fyrir austan að ykkur sé ekki við bjargandi.

 

Það vill svo til að ég hef farið um svæðin sem fórnað er vegna álversins á Reyðarfirði, ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar, bæði áður en framkvæmdir hófust og seinna, síðas rétt áður en áfylling Hálslóns hófst.

 

Það skyldi þó ekki vera að hvatinn að auknum ferðamannastraumi um víðerni Snæfells í sumar hafi verið sá að nú væri hver síðastur að skoða þetta stórkostlega svæði.

 

Sjálfsagt hafa einhverjir sagt eitthvað vanhugsað með eða á móti þessum framkvæmdum, en ég hef aldrei heyrt frá neinum að þessi risaframkvæmd yrði ekki lyftistöng fyrir atvinnulíf á Austurlandi.  Það væri nú annað hvort.  Verst að hún er vafasöm.

 

Valið hefur staði um hvort réttlætanlegt sé að færa allar þessar fórnir fyrir 800 rándýr störf.  Atvinnuleysi á Austurlandi var reyndar innan við hálft prósent áður en þessar framkvæmdir hófust.  Það var engin neyð á ferðinni.

 

Hvernig stendur á því að fylgi Framsóknarflokksins hrynur ef þetta er aðeins fámennur hópur öfgasinna sem stendur fyrir fölskum áróðri vegna góðverka“ flokksins.  Það skyldi þó ekki vera að Framsóknarfólk sé, þegar á reynir, skynsamara en aðrir og hafi þess vegna séð að sér og  yfirgefið flokkinn vegna stóriðjustefnunnar.  Ef ekki, ætti flokkurinn að blómstra að minnsta kosti í Norðurlandskjördæmi eystra.  Getur verið að andstæðingar stóriðju á Austurlandi séu fleiri en þið viljið vera láta?

Það væri kannski ekki úr vegi að þið kíktuð á þetta.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 00:28

16 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Aðeins út af orðum Gunnars Theodórs hér fyrir ofan. Þegar rætt er um arðsem þá er nú kannski gott að gera sér grein fyrir að það verðmætasta í heiminum er að verða orka. Og þá kannski sér í lagi umhverfisvæn orka. Nú vitum við eftir frægt viðtal við Forstjóra Alcoa fyrirtækisins að t.d. í Brasilíu eru þeir að borga c.a. helmingi meira fyrir orkuna en hér.

Álfyrirtæki í Evrópu eru líka að borga minnst helmingi meira en hér. Þannig að það er nokkuð ljóst að þó Kárahnjúkavirkjun geti hugsanlega staðið undir sér þá erum við að gefa nokkurnveginn þessa orkur.

Þá minni ég þig á að við erum nú þegar búinn að virkja um það bil minnir mig um 60 - 70% af þeirri vatnsorku sem talinn er auðvirkjanleg. Og stærsti hluti hennar er bundinn í stóriðju. Við hugsanleg ný álver nokkurnvegin klárum við dæmið. Þá er spurningin hvað eiga næstu kynslóðir að gera. 

Næstu kynslóði gera þá væntanlega ekki a.m.k. út á ferðamennsku nema til að sýna land þar sem allt er manngert og óeðlilegt.

Magnús Helgi Björgvinsson, 13.2.2007 kl. 00:39

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Snorri: Það er algengur misskilningur þegar talað er um rándýr störf vegna álvers í Reyðarfirði, að hægt hefði verið að veita þessum peningum í "eitthvað annað". Þessir peningar koma ekki úr vasa skattgreiðenda, hvorki peningar sem fara í Kárahnjúkavirkjun né þeir sem fara í álverbygginguna. Og í sambandi við ferðamenn, munið þið þá segja  að ferðamenn sem komi til austurlands í framtíðinni að þeir séu bara að skoða manngerða hluti á hálendinu?  En þeir koma þó og ferðiðnaðurinn mun gleðjast yfir því, ólíkt áður fyrr þegar þessi iðnaður hékk á heljarþröm hér um slóðir. Það er rétt hjá þér Snorri að atvinnuleysi var hér einna minnst á landinu og hefur verið þau 17 ár síðan ég flutti frá Reykjavík hingað austur. Það var ekki vandamálið heldur einhæfni í störfum. Ungt fólk sem fór til mennta (Langskólanám) hafði ekki að neinu að snúa í heimabyggðum sínum.´Afleiðingin var fólksfækkun sem hafði keðjuverkandi áhrif, þjónustan minnkaði, lítil sprotafyrirtæki lögðu upp laupana o.s.f.v. Í dag streymir þetta fólk til baka með fjölbreytta menntun. Örfá dæmi um menntun fólks sem fengið hefur vinnu hjá Alcoa; Bókasafnsfræðingur, kennarar, verkfræðingar, iðnrekstrarfræðingar, margskonar tæknifræðingar, hagfræðingar viðskiptafræðingar og margir fleiri auk að sjálfsögðu tugir smiða,rafvirkja, rafeindavirkja, járnsmiða, vélstjóra vélvirkja. Aðeins um 10% starfsfólk verður með litla sem enga menntun.

Magnús Helgi: Það er nú svo við við búum hér við ysta haf fjarri öllum mörkuðum svo að sjálfsögðu þurfum við að bjóða þeim stórfyrirtækjum sem hér vilja setjast að einhverja gulrót. Ál er eðlisléttur og ódýr málmur sem dýrt er að flytja um langan veg á hafi. Raforkusamningur Alcoa byggist á heimsmarkaðsverði á áli. Þegar arðsemisútreikningar á Kárahnjúkavirkjun voru gerðir upphaflega þá var verð á áli mun lægra en nú og bjatsýnustu spár um álverð (langtímaspár) voru mun lægri en nú. En það er ekki rétt hjá þér að raforkuverð sé svona miklu lægra hér en annarsstaðar. Í nýlegri úttekt um raforkuverð til stóriðju í OECD löndum erum við nálægt meðalverði. En hinsvegar eru þessi fyrirtæki að flytja frá iðnríkjum Evrópu vegna þess að samningar þeirra eru margir hverjir að renna út og við endurnýjun og stækkun þessara verksmiðja þá stendur þeim einfaldlega ekki orka til boða. Þar er orkuskortir og því leita þeir annað. Auk þess er þar allt yfirfullt af allskonar öðrum stórverksmiðjum. Iðnbyltingin þar hófst nefnilega á miðri 19. öld en er rétt að hefjast hér núna. Auðvitað kemur fljótlega að því að þetta verði látið gott heita hér, en það er ekki komið að því enn, eðlilega.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.2.2007 kl. 11:45

18 identicon

Það er greinilegt Gunnar Theodór að við höfum misjafnt mat á landsins gæðum.  Þar á ég ekki eingöngu við þetta svæði, heldur landið allt.  Okkur kemur þetta við hvar sem við búum og líka þér.  Ég get hins vegar vel skilið áhyggjur þínar með vöxt og viðgang í byggðarlagi þínu og þar deili ég með þér áhyggjum.  Ég er einlægur talsmaður landsbyggðarinnar og tel að hana beri að styrkja.  Það er okkur öllum fyrir bestu.  Líka höfuðborgarbúum.  Frá mínum bæjardyrum séð eru mörkin hins vegar skýr.  Ekki fórna landinu fyrir erlenda stóriðju.

Sumt þarf að skipulegga en annað kemur af sjálfu sér, fyrst og fremst þarf breytt viðhorf.  Reyndar held ég að fólk sé farið að átta sig á því að það getur verið gott að búa utan höfuðborgarsvæðisins.  Ég tel sjálfsagt að flyta opinber störf út á landsbyggðina eftir atvikum en líta verður til þess að þangað vill þó enginn fara nauðugur frekar en til Suð-Vestur hornsins.  Þá finnst mér miklu nær að einhenda okkur í bættar samgöngur svo fólk geti sótt sjálfsagða þjónustu á milli byggðarlaga.    Einnig að jafna orku- og flutningskostnað á öllu landinu og ef illa horfir á einhverjum landsvæðum að grípa til sértækra aðgerða.  Þar verður þó að fara varlega.

Til að spara tíma leyfi ég mér að endurnota eftirfarandi texta sem ég hef áður fengið birtann hér á síðunni:

“Því miður hef ég ekki forsendur til að rökstyðja útreikninga um kostnað vegna Kárahnjúkavirkjunar.  Ég tel mig hins vegar hafa fylgst mjög vel með umræðu um þessa risaframkvæmd og afleiðingar hennar og þar hefur því oft verið haldið fram, að hvert starf sem skapað verði muni kosta 300 milljónir.  Ég hef aldrei heyrt að þessi tala fyrir hvert starf hafi verið véfengd.  Er þetta ef til vill eitt af því sem ekki mátti nefna, eða kostar hvert starf miklu meira?  Ef minna, gott mál.

 

Ég veit ekki hvað er nákvæmlega rétt í þessu, en sjálfur hafði ég í huga kostnað við rannsóknir, hönnun, hafnarmannvirki, húsbyggingar, vegi, brýr, rafmöstur, línur og spennuvirki auk kostnaðar við allar stíflur, varnargarða, jarðgöng ásamt kostnaði við hverfla, loku- og vélbúnað, mótvægisaðgerðir, fórnarkostnað vegna jarðminja, greiðslur fyrir vatnsréttindi og umhverfisspjöll hjá landeigendum  o.fl. o.fl.

 

Kostnaður við hvert starf mun einfaldlega vera fundið út með því að deila heildarkostnaði, að frátöldum kostnaði við álverið sjálft, í þann fjölda starfa sem áætlað er að muni skapast eftir að framkvæmdum lýkur, þ.e. störf í álveri Alcoa, við virkjunina og í afleiddum störfum á Austurlandi, samtals um 800 störf.

 

Gott væri fyrir þjóðina að fá nákvæmari upplýsingar um þetta.  Svona til glöggvunar tek ég hér dæmi um sjálfan mig.  Það tæki mig, miðað við fastalaun um 120 ár að ná inn 300 milljónum að frádregnum tekjuskatti.

 

Af þessu má sjá hvaða endaleysa þetta er.  Nær hefði verið að borga öllum vinnufærum Austfirðingum laun fyrir að gera ekki neitt frekar en leggjast í hernað gegn náttúrunni.  Auðvitað mæli ég ekki með slíku ráðslagi, því ég treysti Austfirðingum eins og öðru landsbyggðarfólki vel til betri verka en við þessa ömurlegu nýsköpun í landshlutanum.”  Tilvitnun lýkur.

 

Þá komum við að þessu sem þú kallar misskilning.  Auðvitað hef ég persónulega engar tekjur af raforkusölu, en hver á Landsvirkjun og hvað tók langan tíma að afskrifa Búrfellsvirkjun og hvað mengaði álverið í Straumsvík mikið á þeim tíma.  Störfin í Hafnarfirði eru um 9.000 og þar af um 160 Hafnfirðingar í Straumsvík.

Dettur þér ekki í hug að við hefðum getað varið þeim ógnarskuldum sem við tókum á okkur vegna Kárahnjúkavirkjunar til arðbærari og geðslegri starfa, þótt ekki væri nema fyrir brotabrot af þeim skuldum.  Sú eyðilegging sem þarna hefur átt sér stað verður aldrtei bætt og hvers virði er það.   

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 14:41

19 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Gunnar og hvað þýðir orkuskortur? Jú auðvita að orkan er verðmætari en áður. Og hversvegna erum við eina landið sem gerir leynisamninga um orkuverð. Jú af því að við erum að bjóða það langt undir markaðsvirði. Bendi á að Landsvirkjun skilaði um 5 milljarða tapi í síðasta uppgjöri. Það sem ég er að segja um orkuna er að hún er að verða verðmætari með hverju árinu sérstaklega endurnýjanleg orka.

Afhverju að spreða henni allri nú á þessum tíma þegar við getum beðið og hún verður verðmætari og þjóðin orðið meira sammála um hvernig við nýtum hana og hverju við erum tilbúin að fórna fyrir hana.

Og hvað gerum við ef svona framheldur. Þá erum við búin innan fárra ára að ráðstafa allri þeirri orku sem við höfum yfir að ráða nú. Við vitum ekkert um djúpboranir ennþá? En skv. því sem menn hafa kannað erum við nú þegar búinn með um 60% af þeirri orku sem við eigum. Hvað gera menn þá? Kannski 6 til 7 stóriðjur sem taka til sýn um 70% af allri orku semeigum. Og skapar beint kannski svona um 3 þúsund störf. Og kannski svona 30 milljarðar í ríkissjóð. Þjóðinni fjölgar hratt og stórir árgangar þurfa störf. Þessar stóriðjur þróast hratt og þurfa stöðugt færra og færra starfsfólk til að vinna þar.

Afhverju ekki að skoða aðra möguleika. Afhverju ekki að eyða einhverjum milljörðum i að skapa aðra atvinnuvegi. T.d. í ferðaþjónustu. Hvað er við hefðum tekið lán upp á 120 milljarða eins og gert var í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Hvað hefði verið hægt að gera fyrir þær upphæðir. Óendanlegt. Og hefði kannski skilað okkur meira. Það eina sem við höfum út úr þessum Stóriðjum eru smáaurar. Þær flytja hingað hráefni nota orkuna til að umbreyta því og flytja það til baka. Við fáum nokkur störf og smágreiðslur í til ríkis og sveitafélaga og tiltölulega fá störf.

Magnús Helgi Björgvinsson, 13.2.2007 kl. 23:24

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Afurð framkvæmdanna, þ.e. Kárahnjúkavirkjun borgar lánið. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Auk þess fáum við virðisaukann og aðra skatta af umsvifunum sem er ´"beint í lommen" Þetta er fugl í hendi...hitt er fugl í skógi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.2.2007 kl. 12:55

21 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Beint í lommen" segir Gunnar Theodór og hittir naglann á höfuðið. "Take the money and run" segir Kaninn. Þetta er hugarfarið, - ekki að hugsa aðeins lengra fram í tímann og skoða möguleika á betri lausn til lengri tíma litið.

Skammgróðinn blífur. Ári áður en framkvæmdir fóru af stað að einhverju marki við Kárahnjúka brast á þensla í þjóðlífinu. Sérfræðingur hjá Seðlabankanum fann út að 80 prósent þenslunnar mátti rekja til aukins yfirdráttar á kreditkortum landsmanna.  

Varðandi arðsemi af Kárahnjúkavirkjuninni er hann samkvæmt tölum Landsvirkjunar svo lítill að aðeins sovétstýrt ríkisfyrirtæki með ríkisábyrgð gat staðið fyrir henni. Arðsemin var of lítil til að nokkurt einkafyrirtæki, stórt eða smátt, hefði lagt í þessa hræðilegu framkvæmd.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2007 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband