SÓL Á SUÐURLANDI, GRASRÓTIN SPRETTUR UPP!

Fundur Sólar á Suðurland og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands í Árnesi gær fór fram úr björtustu vonum. Þegar ég hitti þetta frábæra heimafólk fyrst fyrir mánuði til skrafs og ráðagerða áttu við orð Jónasar: hnípin þjóð í vanda."

Í 40 ár hafa orkufyrirtæki farið sínu fram í krafti óréttlátra lagagreina um að þegar "brýn nauðsyn og almannaheill" krefðu gætu þau tekið það land eignarnámi sem þeim sýndist. Bændum hefur lærst í 40 ár að eina leiðin til að sleppa út úr viðskiptum við Landsvirkjun hefur verið að reyna með samningum að ná sem skástri lendingu um bætur fyrir eignaupptökuna.

Bændur og landeigendur hafa smám saman verið barðir til hlýðni og lært að vera "þægir."  Lögin hafa gefið Landsvirkjun sjálfdæmi um mat á orðunum "almannaheill" og "brýna nauðsyn." Þau hafa eingöngu verið túlkuð Landsvirkjun í hag en ekki þeim sem jafnvel hafa séð meiri verðmæti í því að nýta landið án þeirra umhverfisspjalla sem fylgir virkjunum.

Það blés því ekki byrlega á fyrstu undirbúningsfundunum því að baráttan framundan sýndist vonlítil. Það sýndist jafnvel óheyrileg bjartsýni að fylla 200 manna sal í Þingborg. En smám saman fór boltinn að rúlla og varð að skriðu sem tryggði metfjölda á samkomu í Árnesi þar sem meira en 400 manns komu saman til að grípa til vopna.

Fundurinn í dag var mikilvægur fyrir margra hluta sakir.

1. Hann afsannaði að það væru bara "fáeinir öfgamenn" sem andæfðu svona áformum.

2. Hann sýndi fram á óréttlæti þess að í einu sveitarfélagi geti íbúarnir ákveðið á lýðræðislegan hátt stórfelld náttúruspjöll í mörgum öðrum sveitarfélögumm. Með þessu er ekki verið að kasta rýrð á það prýðilega frumkvæði í Hafnarfirði að efna til kosninga um málið, heldur það hvernig að þessu er staðið í öðrum sveitarfélögum sem hlut eiga að máli.

3. Hann staðfesti enn og aftur að það er bylgja að rísa í þessum málum sem stjórnmálamenn þurfa að fara að taka tillit til, - ekki bara í orði heldur og á borði.  

4. Á þessum fundi voru veittar dýrmætar upplýsingar um eðli þess máls og umhverfismál almennt.

5. Nær allir þeir sem komu þarna fram voru heimamenn, - grasrót blómlegasta svæðis landsins er byrjuð að spretta upp! Í undirbúningi fundarins kom til dæmis í ljós að það var engin þurrð á sunnlenskum tónlistarmönnum til að koma þarna fram.

6. Hann varpaði ljósi á það að jafnvel þótt virkjanir í Neðri-Þjórsá hafi ekki verið ofarlega á forgangsröðunarlista náttúruverndarfólks vegna skorts samtakanna á fjármagni og mannskap eru fleiri og fleiri byrjaðir á sjá  samhengi stóriðju- og virkjanamálanna og komast að þeirri niðurstöðu að nú verður ekki lengur hopað heldur sagt á öllum vígstöðvum: hingað og ekki lengra!

Náttúruverndarsamtök Suðurlands og hin nýsprottnu samtök Sól á Suðurlandi hófu í dag á loft gunnfána þeirrar baráttu sem þar er framundan á eftirminnilegan hátt. Þökk fyrir það, hugrakka heiðursfólk!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar

Voru menn á móti virkjun til álvers eða virkjun almennt?

Verð að fá eitt á hreint með stefnu þína, ertu á móti öllum virkjunarframkvæmdum?

Ein áleitin spurning sem þú verður að svara mér er eftirfarandi.  Á haustmánuðum komu hér aðilar til að kanna möguleikann á því að setja upp stærðarinnar verksmiðju með mjög orkufrekum iðnaði. Verkefnið átti jafnvel að taka til sín meiri orku en Norðurál.  Vandinn var að verksmiðjan átti að framleiða sólarsellur, sem einmitt er vöntun á á heimsmarkaði þó svo að rafmagn frá þeim sé hvergi nærri samkeppnishæft. En þarna átti einfaldlega að nota endurnýjanlega orku til að framleiða efni í annan endurnýjanlegan orkugjafa þ.e. Tvöfaldur umhverfislegur ávinningur.

Spurningin er þessi: hvor yrði þá umhverfisverndarsinninn sá sem væri á móti virkjun fyrir slíka starfsemi með tilheyrandi raski eða sá sem væri hlynntur slíkri virkjun?

Sigurður (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 21:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allar hugmyndirnar sem þú nefndir, Norðurál, stækkun álvers í Straumsvík, krefjast Hellisheiðarvirkjunar og virkjunar í Neðri-Þjórsá. Með virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum  eru kreist 600 megavött út úr fyrrnefndu svæðí sem afkastar aðeins 300 megavöttum ef orkuvinnslan á að vera sjálfbær.

Eftir 40 ár verður svæðið ónýtt til orkuframleiðslu í einhverja áratugi og þá verður að virkja 600 megavött annars staðar ef það verður þá ekki þegar búið að virkja allt sundur og saman í þeirri stjórnlausu virkjanafíkn sem nú ræður ferðinni.

Það eru aðeins 40 ár síðan virkjað var við Búrfell. Myndu menn telja það hafa verið góða pólitík að gera það á sínum tíma ef sú virkjun væri nú orðin ónýt?

Virkjun sem tæmir orkuna á skemmri tíma en gerist í kolanámu tel ég ekki endurnýjanlega orku. Þar að auki kann að verða komin til sögunnar eftir 6-15 ár djúpborunartækni sem veldur ca fimmtalt minni umhverfisröskun en jarðvarmavirkjanir valda nú.

Svar mitt er því einfalt: Engar virkjanir af þessu tagi, - sama til hvers á að nota þær.

Ómar Ragnarsson, 11.2.2007 kl. 21:35

3 identicon

ómar ég er svo sammála þér!! .... heyr heyr

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 21:44

4 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ómar minn, rétt er það að fara á að gera tilraunir til djúpborunar og þá hugsanlega að ná 50 - 100% meiri orku ú holunni.
En......... það þarf enginn að láta sig dreyma um það að þið "umhverfisfíklarnir" samþykkið þær framkvæmdir frekar en þær sem nú eru í gangi.
Í  innleggi 2 hérna segirðu nefnilega að þú sért á móti virkjunum af þessu tagi, - sama til hvers á að nota þær.
Þetta er mergurinn málsins.

Stefán Stefánsson, 11.2.2007 kl. 23:36

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stefán minn, þú ert ekki með rétta tölu. Menn telja möguleika á 500 - 1000 % meiri orku úr hverri holu ef borað er niður á 5 km dýpi. Þegar ég segi "virkjanir af þessu tagi" á ég við virkjanir með því lagi sem nú er verið að framkvæma á Hellisheiði. Þarf ég að endurtaka þetta?

Næstu 6-15 ár á að mínu mati að nota til að framkvæma þær rannsóknir sem hafa algerlega verið vanræktar á íslenskri náttúru. Ef djúpborunartæknin heppnast skapast alveg nýjar aðstæður eftir þessi 6 - 15 ár og þá er alveg örugglega hægt að finna skástu virkjunarsvæðin. Ég hef aldrei lokað á það að þá sé hægt að sættast á lausn.

En í dag skortir allar forsendur til að sjá hverju þessar tvenns konar rannsóknir skila og því endurtek ég mína skoðun: "Virkjanir á óendurnýjanlegri orku eins og nú eru fyrirhugaðar á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu með hugsanlega úreltri tækni finnst mér ekki koma ekki til greina nú, - sama til hvers á að nota þær.

Ómar Ragnarsson, 11.2.2007 kl. 23:47

6 identicon

Sæll Ómar

Ertu nú ekki aðeins að fara framúr þér, Allt í einu orðinn mesti Jarðhitasérfræðingur landsins, getur bara metið sísvona sjálfbæra afkastagetu Hellisheiðar upp á Megawatt.  Þetta er alveg ný staðreynd að hvorki jarðhitinn og vatnsaflið sé endurnýjanlegt. Mér finnst þetta persónulega farið út í algjörar öfgar og málefnaleg umræða fokinn út í veður og vind.

Þú svaraðir aldrei fyrstu umræðunni alveg. Hvor er umhverfisverndarsinni? sá sem vildi virkja fyrir sólarselluverksmiðju eða hinn sem ekki vill virkja.

Í guðana bænum hættið þið að einfalda hlutina svona ofaní fólk. Tók alveg steininn úr núna þegar þú afgreiddir jarðhitaverkefni á Hellisheiði og Hengli á einu einföldu bretti.

Jahérna

Sigurður (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 09:33

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það eru alvarlegri efni sem eru meira aðkallandi en þetta örvæntingarmjálm eins og eignarhald fárra útvaldra yfir auðlindum landsins og eignum. Ef því væri sinnt kæmi aðhaldi í umhverfismálum í bónus. 

Talandi um mengun og sóðaskap. Hefur einhver ykkar kíkt á gúlagið á Grundartanga?  Maður hefði búist við að slíkt liðist aðeins í sovét fyrir 30 árum.

Mér finnst öll þessi umræða beina sjónum frá miklu mikilvægari brotalömum í samfélaginu og málsvarar hennar ekkert annað en hræsnarar uppfullir sérgæsku og sjálfsupphafningu, sem ekkert leggja persónulega til málanna í lífstíl sínum.  "Snap out of it!"

Jón Steinar Ragnarsson, 12.2.2007 kl. 10:06

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Upplýsingarnar um takmarkanir á afkastagetu Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðisins veitti Sveinbjörn Björnsson, einn virtasti vísindamaður landsins og formaður Rammanefndar um virkjun vatnsafls og jarðvarma, í útvarpsviðtali fyrir jól og staðfesti þetta síðan í samtali við mig.

Upplýsingarnar um hugsanlega afkastagetu djúpborana komu fram í sjónvarpsviðtali sem ég átti við helsta sérfræðinginn á því sviði fyrir fimm árum og hafa verið ítrekaðar síðan.

Ég hef aldrei sagt að vatnsafl sé ekki endurnýjanleg orka. Heill kafli í myndinni "Á meðan land byggist" fjallaði einmitt um að tærar ár eins og Sogið og norsku árnar sem bjóða sannanlega upp á hreina og endurnýjanlega orku. Sama á við um virkjanir á Vestfjörðum. Ef hleypt er úr lónum slíkra virkjana endurheimtist oftast á mismunandi löngum tíma landslagið og lífríkið sem drekkt var.

Kárahnjúkavirkjun og hliðstæðar virkjanir jökulfljóta eru hins vegar hið gagnstæða vegna þess að lónstæðin, - í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar heill dalur, - fyllast af auri sem að lokum gera að verkum að virkjanirnar eyðileggjast líka vegna þess að miðlunargeta lónstæðisins er uppurin.

Sultartangalón mun til dæmis fyllast upp á nokkrum áratugum og miðlun þess verða ónýt nema að stíflugarðurinn verði hækkaður og breikkaður. En það er ekki hægt endalaust. Svipað yrði uppi á teningnum í fyrirhugaðri Villinganesvirkjun í Skagafirði.

Ómar Ragnarsson, 12.2.2007 kl. 11:11

9 identicon

Ef stæði til að jarðýtur sléttuðu landið við Þjórsá og því breitt í tún, kornakra eða þar plantað  trjám, hefði þá verið fundað í Árnesi? 

Með Kveðju Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan 

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 13:25

10 identicon

Ómar værir þú til í að svara síðustu spurningunni "hvor er umhverfisverndarsinninn?

Ef rétt er haldið á spöðum þá má tappa af svæði með svipuðum hraða og endurnýjunin er. Þetta er hinsvegar flókið mál og ástæðan fyrir því hvers vegna jarðvarmavirkjanir eru byggðar í þrepum. 

Sigurður (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 14:25

11 identicon

Sæll Tryggvi

Það má vel vera að einhverjum hefði ekki litist á þannig landnýtingu einhversstaðar við Þjórsá og viljað funda um málið.  Það eru fleiri en Landsvirkjun sem hafa farið illa með land og oft án leyfis okkar.

Ómar minntist á hér á síðunni að bændur hefðu í 40 ár neyðst til að semja um bætur fyrir eignarnám á landi undir virkjanir í skjóli óréttlátra lagagreina um "brýna nauðsyn og almannheill"  Þetta höfum við liðið Landsvirkjun okkar að gera þegar stjórn hennar og stjórnvöld hafa talið sig þurfa á löndum bænda að halda.

Ætli hafi gleymst að setja lög um að vernda bæri land þegar nauðsyn og almannaheill krefðu?  Væri ekki rétt og sanngjarnt að við settum okkur slík lög líka.

  

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 14:46

12 Smámynd: Stefán Stefánsson

Sæll Ómar minn og fyrirgefðu.
Ég ruglaðist aðeins í prósentureikningnum, en það er alveg rétt að menn vonast við að fá 5 - 10 sinnum aflmeiri holur en algengast er í dag ef allt gengur upp og erum við þá að tala um allt að 50 megawatta holur og er þetta mjög spennandi og til stendur að byrja í Kröflu á næsta ári .
Orkan í borholunum minnkar með tímanum og þá eru boraðar holur til viðhalds. En ég held hins vegar að þetta Hellisheiðardæmi hjá þér standist ekki fullkomlega og að það komi ekki allar staðreindir fram hjá þér um orkugetuna.............. semsagt hálfur sannleikur eins og svo oft í ykkar málflutningi.

Varðandi fundinn í Árnesi fynnst mér það nokkuð undarlegt að hann var í raun og veru lokaður öðrum en þeim sem eru á móti að virkja í Þjórsá........ eða allavega var það skýrt tekið fram að enginn sem væri hlynntur virkjun mætti tala. Það er líklega vegna þess að virkjanaandstæðingar vilja ekki of miklar útskýringar og upplýsingar frá þeim sem ætla að virkja vegna þess að þá gætu einhverjir skipt um skoðun þegar þeir heyra staðreindirnar allar.

Á sínum tíma sögðu andstæðingarnir að ef hætt yrði við Norðlingaveitu í Þjórsárverum fengi LV að virkja í Neðri Þjórsá. En þegar til kemur stenst ekkert sem andstæðingarnir segja..... þeir færa bara mörkin þegar gefið er eftir á einum stað.
Það er alveg  borðliggjandi að  byggja þessar þrjár virkjanir, það fer sáralítið land undir vatn vegna þess að lónin eru nánast bara í farveginum.

Stefán Stefánsson, 12.2.2007 kl. 20:17

13 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hvaða áhrif skyldi það hafa á lífríki sjávar að skrúfa fyrir aurflutning og rennslissveiflur fljótanna ?

Pétur Þorleifsson , 12.2.2007 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband