Óráð að fækka ósnortnum svæðum með því að virkja þau.

Gullfoss er ekki eini stórfossinn á Suðurlandi. Í efri hluta Þjórsár eru tveir álíka stórir fossar með nokkurra kílómetra millibili og hinn þriðji, heldur lægri, þar fyrir ofan.

Ef gott aðgengi væri að Gljúfurleitafossi og Dynk væri hægt að dreifa þangað ferðamönnum, sem annars eiga ekki völ á neinu nema Gullfossi.

Gallinn er bara sá að enn linnir ekki pressu frá virkjanafíklum að þurrka þessa fossa upp með Norðlingaölduveitu og þegar er búið að taka 40% af vatnsmagni þeirra frá þeim með Kvíslaveitu.

Í Hólmsá er afar fallegur foss, Axlarfoss, og sérstætt hvernig smásfossar koma út úr stuðlabergi við hann eins og sést á meðfylgjandi mynd. IMG_0492

Örfáir þekkja hann og nú er sótt í að virkja ána og að þurrka fossinn upp ásamt fleiri fossum fyrir neðan.  

Á Norðurlandi fær hinn íðilfagri Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti enn að falla niður í stuðlabergsgljúfur sitt og fyrir ofan hann eru fallegir smærri fossar og innan við þá 25 kílómetra langur dalur, sem er að hálfu gróinn og afar veðursæl vin, sem skerst inn í hálendið.

En mikil pressa er á að virkja flljótið, sökkva dalnum og þurrka upp fossana. Það dregur úr fjölbreytni þeirra svæða á Norðurlandi sem hægt er að njóta sem ferðamannastaða og þjappar saman ferðamönnum á þeim stöðum sem enn hafa ekki verið teknir undir virkjanir.

Í neðanverðri Skaftá, rétt fyrir ofan bæinn Skaftárdal, eru nokkrir afar fallegir fossar. Einn heitir Hundafoss en hinir eru ónefndir, svo fáir koma að þeim. Þeir gætu orðið fallegir og vinsælir ferðamannastaðir með litlum tilkostnaði, því að rétt hjá þeim liggja jeppaslóðar, sem hafa hins vegar þann ókost, að fossarnir sjást ekki frá þeim.

Á Stöð 2 var mikil harmagrátsfrétt fyrir nokkrum dögum yfir því að ekki skuli umsvifalaust leyft að virkja ána, sökkva grónum lendum og þurrka þessa fossa upp.

Raunar var ekkert minnst á þessa fossa í fréttinni, hvað þá gróðurlendið, því að verkfræðifyrirtækið, sem gerði mat á umhverfisáhrifum vegna virkjunarinnar, minnist ekki á þessa fossa í mati sínu.

Að mati fyrirtækisins eru þessir fossar ekki til og hafa aldrei verið til ! IMG_1627

Set rétt bráðum mynd af einum þeirra á síðuna. Finn raunar ekki þá bestu í augnablikinu af mun fallegri fossi, en læt þessa nægja í bili.


mbl.is Samkeppni um hálendið sem auðlind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Í tuttugu sumur hefi eg verið starfandi leiðsögumaður með erlenda ferðamenn um nánast allt Ísland. Lengi vel var lítið skilti við hálendisveginn yfir Sprengisand á móts við Þórisvatn þar sem lesa mátti mjög máð nafn á kunnu örnefni: Dynkur. Mig minnir að þar hafi einnig staðið fjarlægðin að þessum merka fossi og ef eg man rétt þá voru það um 10 km. Nú eru nokkur ár liðin síðan eg fór þarna um síðast en ekki kæmi mér á óvart að skiltið hefði verið afmáð eða bókstaflega fokið um koll enda mikil veður að vænta á þessum slóðum.

Það er eins og þessi foss sé gjörsamlega gleymdur. Hann er mjög sérstakur og má sjá mynd af honum t.d. í Árbók Ferðafélagsins 1996, bls. 130. Í myndatexta er sagt að Dynkur sé aflmesti foss Þjórsár og því engin undur og stórmerki að virkjanamenn séu ólmir að ná aflinu.

Mig hefi lengi langað til að sjá þennan foss sem sennilega verður ekki bjargað. Fyrir um 10 árum ritaði eg grein um fossinn Dynk í félagsblað leiðsögumanna og hvatti til að honum yrði forðað frá virkjanaáráttunni miklu. Fékk eg ákúrur fyrir af þáverandi formanni félagsins sem þótti alveg sjálfsagt að virkja sem mest. Jú það mætti nýta vegi Landsvirkjunar fyrir ferðaþjónustu! Við vorum andstæðrar skoðunar enda taldi eg einnig vera unnt að leggja vegi í þágu ferðaþjónustu rétt eins og í þágu dekurrófunnar stóriðjunnar sem virðist trylla og spilla sem mest.

Hvet þig Ómar að leggja þitt af mörkum að unnt verði að koma í veg fyrir að Dynk verði spillt endanlega. Þó hann verði virkjaður, þá ætti að vera unnt að hafa hann aðgengilegan yfir hásumarið og síðsumars meðan jökulár eru í essinu sínu og uppistöðulónin ásættanlega full. 

Kannski væri unnt að samræma tvenn andstæð sjónarmið að einhverju leyti og tímabundið!

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 22.3.2012 kl. 14:55

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dynkur er eða öllu heldur var að mínum dómi flottasti stórfoss Íslands. Hann var Samson hinn sterki meðal þeirra, hárið hans var samansafn um 20 fossa í sama fossstæðinu og hávaðinn gaf honum nafn.

Í frétt í dagblaði fyrir skömmu var sagt frá tíu flottustu fossum heims og vakti það athygli mína að helmingur þeirra var ekki talinn njóta sín nema fullt vatnsmagn væri í þeim og hávaðinn nógur.  

Nú er búið að taka 40% af afli Dynks frá honum með Kvíslaveitu og vegna þess að ég flýg iðulega yfir hann á sumrin sé ég að parta úr sumri  er hann ekki nema svipur hjá sjón, álíka aumingi og Samson var hárlaus og afllaus hafður að háði og spotti í höllinni.

Sjálfur flutti ég svo magnþrungnar dýrðarfréttir af Kvíslaveitu á sínum tíma að Kristján Már Unnarsson hefði ekki getað gert betur, - óður til jarðýtna og véltækni.

Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað var í raun og veru að gerast.

Nú vilja menn ólmir drepa Dynk og hina fossana tvo alveg.

"Hvort eð er"-stefnan verður þar sett í öndvegi, - það er "hvort eð er" búið að fara svo illa með fossana þegar að það er eins gott að stúta þeim endanlega. Kannski að gefa færi á vatn renni um þá í 1-3 vikur og auglýsa það fyrirfram.

Ég táraðist sem barn yfir sögunni af Samsoni sterka. Enn grátlegra er að horfa upp á hvað menn vilja gera við magnaðasta stórfoss Íslands, sem er viljandi haldið svo óþekktum að engin hætta sé á að hann komist á lista með tíu flottustu fossum heims.  

Ómar Ragnarsson, 22.3.2012 kl. 15:25

3 identicon

Stattu þig Ómar! Einnig gott að fá pistla og ummæli frá mönnum eins og Guðjóni Sigþór.  Sjallabjálfarnir + hækjan stálu mörg hundruð milljörðum og fluttu til útlanda fyrir hrunið, m.a. til Luxemborg og Sviss. Nú vilja þessir sömu menn halda áfram að níðast á náttúru landsins. Þeirra “yardstick” er grill og gróði. Aumkunarvert. Þá er með ólíkindum hvað margir innbyggjarar fylgja FLokknum. Hópur nytsamra sakleysingja, sem á þó varla bót fyrir rassinn. Hvað er eiginlega í gangi hjá þjóðinni?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.3.2012 kl. 16:38

4 identicon

Gott er að sjá öfluga fossavini.

Eins og Finnland er land hinna þúsund vatna, er Ísland land hinna þúsund fossa. Og aðgengi að þessum fossum mætti vera túrismans VEGNA, það myndi bæði dreifa álaginu verulega, og svo gefa möguleika á töluverðri aukningu.

Aukning í túrisma er ekki einu sinni komin nærri sínum mörkum, á meðan al-virkjun landsins er furðu langt á veg komin.

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.3.2012 kl. 17:31

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Aftur langar mig til að koma með einn vinkil inn í þessa umræðu: Við Íslendingar höfum virkjað mjög mikið, svo mikið að hvergi í veröldinni er framleitt jafnmikið af raforku á hvert mannsbarn og hér. Einhvern tíma sá eg himinháa tölu, mig minnir 35.000 kwh á hvert mannsbarn!

Og hvað gerum við með öll þessi ósköp? Jú við afhendum erlendum fyrirtækjum um eða jafnvel meira en 80% af raforkunni en nýtum sjálfir um eða tæplega 20%. En svo einkennilega vill til að tekjurnar af orkunni virðist renna að meira og minna leyti frá almenningsveitunum. Þess vegna er aukinn þrýstingur að hækka heildsöluverð til almenningsveitna en rafmagnssölusamningar eru fastir.

„Skilningur“ viss hluta þjóðarinnar fyrir hagsmunum stóriðjunnar virðist vera mjög mikill.

Á sumarþinginu 2007 eftir þingkosningar um vorið var eitt aðalmál á dagskrá þingsins: Nýr samningur við álherrana í Straumsvík þar sem skattafyrirkomulagi var breytt. Fallið var frá framleiðslugjaldi sem Ólafur Björnsson hagfræðiprófessor og þingmaður fékk inn í upphaflegan samning þar eð stóriðjan hefur alltaf í hendi sér með bókhaldsfiffi hvert hagnaðurinn fer. Þessi nýi samningur færði álbræðsunni í Straumsvík hálfan milljarð á ári í formi minni skattgreiðslna til Íslendinga!

Svo eru sumir Sjálfstæðismenn að tala um landráð vegna Icesave!

Við búum virkilega í víðsjárverðri veröld, - einnig á Íslandi!

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 22.3.2012 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband