Tuga milljarða tjón vegna tískufyrirbrigðis.

Á rúmum áratug fyrir miðja síðustu öld ruddi sér til rúms það tískufyrirbrigði í húsagerð að hafa stóra hornglugga á húsum. Þetta sést einna best í Norðurmýrarhverfinu í Reykjavík en einnig vel á Oddeyri á Akureyri og ótal íbúðarhúsum í sveitum og bæjum.

Þessi tíska tók ekkert mið af veðurfarslegum aðstæðum hér á landi enda fóru þessir gluggar snemma að leka og skapa bæði vandræði og tjón.

Varla hafði þessi tíska valdið sínum vandræðum þegar önnur ennþá verri tók við, en það voru flötu þökin.

Allt í einu var það orðið púkó að hafa góðan bratta á þökum sem hrintu sem best af sér snjó, slyddu og regni.

Við hjónin lentum hastarlega í þessu þegar við keyptum raðhús, þar sem leka hafði verið leynt fyrir manninum, sem seldi mér húsið, en hafði aðeins búið í því í eitt ár, en þann vetur viðraði þannig að snjóalög ollu ekki leka.

Húsið var hannað þannig, að austast var bílskúr með flötu þaki, síðan tók við eystri partur íbúahússins sjálfs, stofuálman, sem var með bröttu þaki, sem hallaði til austurs á móti aðal snjókomuáttinni.

Fyrir vestan var síðan svefnálman með flötu þaki. Þennan vetur voru austan hríðarveður algeng, og þá skóf snjó yfir þakið á stofuálmunni og myndaði djúpan skafl, stundum mannhæðar háan, á þaki svefnálmunnar.

Þar myndaðist klaki í þakrennum og fyrr en varði fossaði vatn inn í öll herbergin inn um samskeyti á milli flatra þakplatnanna.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að allt færi á flot í álmunni var að moka öllum snjó jafnóðum ofan af henni. Margar nætur og kvöld fóru í þetta þennan fyrsta vetur okkar í húsinu.

Ég gerði um þetta pistil í Kastljósinu sem kom mér í djúpa ónáð hjá arkitektum landsins, en með mér í þeim skammarkróki var Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku, sem skrifaði dásamlega meinhæðinn pistil þar sem hann sagði meðal annars að Bakkabræður hefðu reynt að gera gluggalaus hús en þeim hefði aldrei dottið í hug að gera hús með flötum þökum.

Eina leiðin til að stöðva lekann á húsi mínu var að rífa þakið og leggja í staðinn á það tjörupappa, því að bæði var dýrara að gera alveg nýtt og bratt þak enda arkitektinn þar að auki með lögvarinn höfundarrétt á vitleysunni.

Þetta kostaði mig um sjö milljónir króna á núvirði.  

Þökin á álmum Borgarspítalans eru frá þessum árum og tjónið af öðrum slíkum hleypur á milljörðum, jafnvel tugum milljarða. 

  


mbl.is Rækta berklabakteríur í leku húsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Versta sem fréttamenn geta gert sjálfum sér er að elta tizkuna. Ef aðeins má segja það sem er vinsælt er alveg eins víst að tréð fellur í næsta vindi. Rótin fær ekki næringu.

Í sjónvarpi kvöldsins fór Michael Palin með áhorfendur um austurhluta Brasilíu. Lifandi frásagnarlist hans í myndum kom inn að hjarta Brasilíu. Gullið, tóbakið, sykurinn, ávextirnir og blökkumannamenning varð ljóslifandi lýsing, líka á högum fólksins í þessu magnaða landi. Hér var ekkert um fínna manna tal, heldur var kjötið tekið beint af beinunum.

Sigurður Antonsson, 4.2.2013 kl. 21:35

2 identicon

Sæll Ómar.

Takk fyrir þennan fróðleik. Sjálfsagt er hluti vandans einnig fólginn í því að íslenskir arkitektar hafa numið sín fræði erlendis þar sem aðstæður eru ekki sambærilegar.

Engilbert Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband