Sýnist vera rétt hugsun.

Ef marka má þær útlitsmyndir, sem sjást í tengdri frétt á mbl.is sýnist mér Arni Arnórsson og menn hans vera á réttri leið hvað varðar það að ná niður þyngd bílanna, sem þeir ætla að framleiða og jafnframt að lækka þyngdarpunkt þeirra jafnframt því sem eldsneytiseyðsla bílanna verður minni.

Stóru Econoline jöklajepparnir hafa þann ókost að vera mjög hábyggðir og afturþungir, en það heftur tvöfalt óhagræði í för með sér.

1. Með háum þyngdarpunkti missir bíllinn torfærueigileika í hallandi landi vegna þess að þunginn færist um of yfir á hjólin þeim megin á bílnum sem eru neðar og grafa sig frekar niður jafnframt því sem efri hljólin missa grip.

2. Jöklarnir eru oftast mjög ósléttir vegna þess að snjóinn skefur í skafla, og því hærra sem fólkið situr í jeppunum, því meira hossast það og veltur um í bílunum.

Fróðlegt verður að vita hvort þessir nýju íslensku jeppar verða með sjálfberandi byggingu eða hvort þeir verða á grind og hvernig hönnuðirnir hafa leyst það viðfangsefni að létta bílana.

Ég hef í meira en 60 ár dundað mér við að teikna bíla og síðan ég fór að fara á jöklajeppum á fjöll hef ég einkum verið að teikna litla jöklajeppa, sem ég hef hugsað mér að væru með sjálfberandi byggingu, með mikla veghæð en þó mun lægri en núverandi jeppar.

Þegar ég nældi mér í tveggja manna Toyotajeppa fyrir slikk til að draga bátinn Örkina fyrir átta árum var takmarkið að hafa þennan bíl eins lítinn og ódýran og hægt væri en þó færan um það að fara um jökla.

Bíllinn "Örkin" hefur ýmsa af ofangreindum eiginleikum. Þetta er afar léttur jeppi, 1620 kíló og miklu léttari að aftan en framan.

Vegna tæknilegra örðugleika, sem hafa komið fram í dag, get ég ekki birt myndir hér á síðunni, en vísa til myndar af jeppanum og Örkinni á facebook-síðu minni.   

Það kemur sér einkar vel í akstri upp brekkur að bíllinn er léttur að aftan þegar þungi bílsins færist aftar í honum í brattanum.

Ég gætti þess að láta aðeins klippa brettin til að koma stærri dekkjum undir hann en hækka hann ekkert á grind.

Það færir hann nær þeim markmiðum númer 1 og 2, sem minnst var á áðan. Ef fé hefði verið fyrir hendi hefði ég fært afturhjólin aðeins aftar.  

Vegna léttleikans nægir að hafa 35 tommu dekk á bílnum. Á þeim hefur hann jafngott flot á snjónum og jöklajeppi á 38 tommu dekkjum, sem er 2,4 tonn eins og nýir jeppar eru margir núna eftir að þeim hefur verið breytt.  

Settar voru læsingar bæði að framan og aftan til að auka gripgetuna.    


mbl.is Bílaframleiðsla hefst á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góðan daginn Ómar, já þetta er mjög athygglisvert að það sé að koma alvöru Íslenskur jeppi á markað fylgist með honum þessum spenntur þar sem hálendisferðir hafa verið í uppáhaldi hjá mér í ára tugi. Sem dæmi þá fór ég sem farþegi tvisvar að Fimmvörðuhálsi á jeppa bæði frá fjallabaki norðanfrá og upp að sunnan.

Sigurður Haraldsson, 15.4.2014 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband