Erfitt í íslenskri umferð.

Sparakstur og hagkvæmur akstur, sem einnig gerir umferðina greiðari og öruggari er afar erfiður í framkvæmd hér á landi, því að þannig aka Íslendingar yfirleitt ekki.

Mér finnst það skemmtilegt verkefni að reyna svona akstur, einkum vegna þess hve það getur verið fyndið á fylgjast með hinu almenna aksturslagi, sem er þessu alveg andsnúið.

Síðustu mánuði er ég einn af þeim tugum þúsunda bilstjóra sem koma margsinnis í viku akandi úr austurátt eftir Miklubrautinni í áttina að umferðarljósunum við Grensásveg.

Þegar um er að ræða tugþúsundir ferða flestra, sem eiga erindi þessa leið, mætti ætla að þeir huguðu að því hvernig hægt er að spara bensín, tíma og hemla með því að "lesa" umferðarljósin áður en komið er að þeim.

Tvær brýr liggja yfir Miklubrautina á þessum kafla og ef grænt ljós kviknar við Grensásveg áður en maður er kominn að þeim, lendir maður á rauðu ljósi áður en komið er að gatnamótunum.

Ef maður er kominn vestur fyrir austari brúna kemst maður yfir á grænu með því að halda góðum hraða.

En svo er að sjá sem að enginn pæli í þessu og allra síst í þeim möguleika, að sé maður hvort eð er orðinn of seinn til að ná að gatnamótunum, áður en rauða ljósið kviknar, er hægt að spara sé eldsneyti, tíma og hemla með því að hægja á sér það tímanlega og leyfa bílnum að rúlla í hlutlausum án þess að hemla þannig að grænt ljós kvikni í þeim svifum sem maður kemur að gatnamótunum svo að bíllinn renni ljúflega yfir án þess að hemlum hafi verið beitt.

Ef einhver umferð er, er þetta yfirleitt vonlaust, því að þeir sem eru á eftir manni, eru svo stressaðir og spenntir, að þeir troða sér fram fyrir mann, stundum fleiri ein einn, bara til þess eins að þurfa að reka hemlana niður og stoppa við ljósin, einmitt rétt áður en þau verða græn, og þurfa síðan að rykkja sér aftur af stað upp brekkuna.

Þannig tapast bæði tími, eldsneyti og möguleiki á að spara hemlana.

Eitt sinn var ég á leið suður í Hafnarfjörð og lét bílinn rúlla þannig að umferðarljósunum í Garðabænum að hann fór alltaf áreynslulaust yfir á nýkviknuðu grænu ljósi.

Maður á stórum og dýrum jeppa þoldi þetta ekki, heldur rykkti sér fram úr mér á hinni akreininni í hvert sinn sem hann sá ljós framundan bara til þess eins að þurfa að reka hemlana niður þegar hann kom að ljósunum, nokkrum bíllengdum á undan mér.

Og einmitt þegar hann stóð þar grafkyrr rúllaði ég fram úr honum í þann mund sem græna ljósið kviknaði.

Svona gekk þetta á öllum umferðarljósunum sem framundan voru alla leið suður í Fjörð og alltaf varð gaurinn á stóra jeppanum æstari og æstari yfir því að ég skyldi alltaf fara fram úr honum á hverjum ljósum!   


mbl.is Sparakstur reynir á heilabúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Applaus an Bord." Frétt í Blick, Sviss um flugvirkjan, Davíð Aron Guðnason.

http://www.blick.ch/news/ausland/applaus-an-bord-passagier-flickt-kaputte-boeing-vor-dem-start-id3032632.html

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.8.2014 kl. 11:55

2 identicon

Sumir vilja rúlla eftir vegunum eins og fiskflak á færibandi en öðrum finnst gaman að aka eins og þeir séu að skila tengdamúttu eftir mánaðar heimsókn. Sennilega hefur Ómari þótt gaman í rallinu hér forðum og ekki alltaf hugsað um að spara. Akstur getur verið meira en að komast frá A til B, rétt eins og lífið er ekki bundið við að fæðast og tóra þar til maður deyr. Sé fólk ekki að skapa hættu sé ég ekkert athugavert við það þó það aki öðruvísi en ég. Það allavega pirrar mig ekki svo mikið að ég sjái ástæðu til að æsast upp og skrifa um það.

Davíð (IP-tala skráð) 5.8.2014 kl. 12:17

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Full af heift þar Framsókn ók,
af fýsnum ljótum hlaðin,
hún í frekju hnefann skók,
að heimsku margoft staðin.

Þorsteinn Briem, 5.8.2014 kl. 18:17

4 identicon

Það er ekki alveg það rétta að láta bílinn lulla eða renna í hlutlausum áreynslulaust ef fólk vill spara. Ef maður sér fram á að þurfa að hæga á sér og vill láta bílinn renna áreynslulaust áfram er best að hafa hann í sem hæstum gír, og láta hann einfaldlega vera í gírnum þangað til umferðin fer aftur að hreifast. Og að sjálfsögðu að skipta niður um gír sé þess þörf. En við þetta heldur bíllin sinni ferð og skriðþunginn sér um að halda honum á ferð og vélin eyðir ekki dropa af bensíni (dieselolíu í nýjustu tölvustýrðu dieselbílunum) þar sem fyrrnefndur skriðþungi sér um að halda vélinni í gangi í gegnum drif og gírkerfi bílsins. Að sjálfsögðu bremsar maður eftir þörfum en reynir að hafa það í sem minnstum mæli og þess reynist varla þörf ef maður byrjar nógu snemma að gefa gjöfina upp og láta bílinn renna áfram í hæsta mögulega gír.

Hafþór Atli Hallmundsson (IP-tala skráð) 5.8.2014 kl. 23:57

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sprengihreyfill, eins og t.d. allar bílvélar eru, þarf alltaf eldsneyti til þess að ganga, hún helst ekki í gangi öðruvísi. Skriðþungi einn og sér getur aldrei haldið bílvél gangandi nema til komi líka sprengihæf blanda, loft blandað lítilsháttar eldsneyti, bensíni eða dieselolíu, sem síðan er kveikt í og úr verður "sprenging". Þess vegna er það ekki rétt að vél eyði ekki dropa af bensíni eða dieselolíu undan skriðþunga einum saman.

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2014 kl. 01:39

6 identicon

Þetta þarf að komast á hreint!

Er alveg lokað fyrir eldsneytið, við það að skriðþunginn "dregur" vélina?

Fer eldsneytis rennslið ekki bara niður á lausagang, sama hvað hún snýst?

Èg veit að á stórum bîlum með "mótorbremsu" lokast alveg fyrir eldsneytis flæðið meðan hún er á. 

Guðjón Guðvarðarson (IP-tala skráð) 6.8.2014 kl. 10:20

7 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Hafþór hefur alveg rétt fyrir sér og lýsir þessu ágætlega.

Það mun vera betra að láta bílinn rúlla áfram í (réttum) gír frekar en í hlutlausum því að flest núverandi tölvustýrð eldsneytiskerfi loka fyrir eldsneyti um tíma á meðan skriðþungi er nægur til þess að snúa vélinni. Á meðan mun vélin ekki eyða dropa af eldsneyti eins og Hafþór segir. En eftir því sem ég kemst næst lokast einungis fyrir eldsneytið þar til snúningshraði vélarinnar nálgast lausagang þegar aftur opnast fyrir eldsneytið til að halda henni gangandi.

Ef bíllinn er hins vegar látinn renna í hlutlausum fer vélin í lausagang og enginn skriðþungi snýr henni heldur aðeins sú lágmarksblanda eldsneytis og lofts sem þarf til að hún gangi.

Ég taldi reyndar að vélin drægi alltaf lítils háttar eldsneyti inn á sig til þess að ganga en svo mun ekki vera raunin öllu stundum og stend ég því leiðréttur hvað það varðar.

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2014 kl. 14:48

8 identicon

Langflestar gerðir nýrra bíla af öllum gerðum, sem eru með tölvustýrðri innspítingu,  loka allveg fyrir eldsneyti inn á vélina þegar hún er að halda við.  Menn eiga að halda bílnum í háum gír, en ekki hlutlausum og lofa vélinni að snúast með.  Þannig sparast mest eldsneyti og mengunin er engin.  Það á ekki að láta slíka bíla renna í hlutlausum, því þá er vélin í lausagangi og eyðir því eldsneyti.

Ólafur Kr. Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.8.2014 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband