Takmörk fyrir því að "gefa séns" ?

Sofandahátturinn, tilliitsleysið og eigingirnin hjá okkur Íslendingum í umferðinni er þekkt fyrirbrigði. 

Allir tapa á þessu en samt breytist lítið.

Eitt afbrigði eigingirninnar er að hvert og eitt okkar, sem venjulega sýnir ekki snefil af hugsun eða tilitssemi, geti tekið upp á því að eigin vali að að söðla alveg um einstaka sinnum og gera það sem heitir á okkar máli "að gefa séns" og þykir að sjálfsögðu afar göfugt og gott.   

En því miður má nefna dæmi má nefna um að þetta hafi þveröfug áhrif miðað við að sem hinn örláti bílstjóri ætlast til og auki enn meira á glundroðann í umferðinni. 

Á einbreiðum brúm á Íslandi gildir sú regla að sá eigi að hafa forgang sem fyrr kemur að brúnni. Þetta er svipuð regla og gildir víða í Bandaríkjunum um forgang á gatnamótum.

Sama regla gildir þar sem tvær akreinar verða að einni.

Oft gerist það hins vegar að einhver bílstjóri tekur upp hjá sér að verða örlátur og "gefa séns", stöðva "tannhjólið" eða "rennilásinn" í umferðinni, þar sem aðrein mætir akrein, og valda með því vandræðum og öryggisleysi.

Einnig að "gefa séns" á brú þannig að reglan "fyrstur kemur fyrstur fær" er brotinn og ringulreið skapast.

Eitt sinn ók ég á eftir stórum sendibíl eftir Álfheimum, þar sem græn eyja var á milli tveggja tvöfaldra akbrauta, hvorri í sina áttina.

Allt í einu hægir sendibíllinn á sér og stöðvast inni við grænu eyjuna, líkt og hann hafi orðið bensínlaus eða bilað.

Ég beygði þá til hægri og ók áfram meðfram honum. Birtist þá ekki allt í einu við hægra framhorn sendibílsins kona með barnavagn og gangandi barn á undan vagninum.

Á örskotsbragði sveigði ég til hægri og ók áfram, enda of seint að hemla.

Skömmu síðar fékk ég símtal frá öskureiðum manni, sem skammaði mig fyrir að hafa valdið lífshættulegu ástandi á götunni með því að stöðva ekki bíl minn fyrir aftan hans bíl á meðan hann var að "gefa vesalings konunni séns". 

Þetta var sendibílstjórinn góði.  

Ég benti honum á að konan hefði verið í aðeins 20 metra fjarlægð frá merktri gangbraut, sem lægi yfir götuna, en ákveðið að stytta sér leið með því að aka barnavagni yfir tvær tvöfaldar akbrautir og græna graseyju og hafa gangandi barn með sér.

Sendibíll hans hefði skyggt á konuna og börnin og mér verið ómögulegt að vita það að sendibílsstjórinn fyrir framan mig hefði tekið að sér allsherjar umferðarstjórn til að styðja konuna í lögbroti sínu.

Með framferði sínu hefði það einmitt verið konan með dyggri aðstoð hans sem hefði valdið hættu á götunni.  

En sendibílstjórinn sat fastur við sinn keip: 

"En við eigum alltaf að sýna tillitssemi og gefa séns í umferðinni þegar við getum og hjálpast öll við það í stað þess að þjösnast áfram og valda stórhættu eins og þú gerir" svaraði hann. 

Og með þeim orðum endaði samtal okkar.  

   


mbl.is Gæsir ollu fjögurra bíla árekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki má heldur gleyma því sem vel er gert í umferðinni hér á Íslandi.

Langflestir ökumenn stansa hér við gangbrautir, enda þótt þar séu engin umferðarljós.

Þannig birtist fegurð mannlífsins í ýmsum myndum.

Alla vega í vesturbæ Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 19.9.2014 kl. 17:49

2 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Eitt er það sem fer alveg í mínar fínustu ,það er þegar menn stoppa á grænu gangbrautarljósi,eflaust í góðri meinungu en það er stórhættuleg iðja og ekki er það fordæmi fyrir börnin að láta þau ganga yfir gangbraut á móti rauðu ljósi,þar að auki skapar það hættu á aftanákeyrslu og hættu þá að skaða þann sem fer þá á móti rauðu ljósi.

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 19.9.2014 kl. 18:13

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Tillitssemi í umferðinni er nauðsynleg. Ofurkurteisi í umferðinni getur verið hættuleg lífi og limum. Umferðarmenningu landans er ábótavant svo vægt sé til orða tekið. Ég hef oft orðið vitni að því að "tillitssamir" vegfarendur stöðva bifreið á tvíbreiðri götu svo gangandi vegfarendur komist yfir götuna (þar sem ekki er gangbraut),t.d. við hringtorg. Það er tímaspursmál hvenær slys verða vegna þannig "góðmennsku".

Guðmundur St Ragnarsson, 19.9.2014 kl. 20:29

4 identicon

Ég er gjörsamlega ósammála. Ábyrgðin er öll hjá bílnum/bílunum sem eru fyrir aftan, enda á alltaf að vera hæfilegt bil (en þó ekki 4-5 bíllengdir) að bílnum fyrir framan (fer eftir aðstæðum: hraða og færð), svo að hægt sé að stöðva bílinn með skömmum fyrirvara. Það er engin afsökun að segja að bíllinn fyrir framan hafi stanzað alveg óvænt. En auðvitað er viðbragðstíminn of langur ef keyrt er 10 cm fyrir aftan næsta bíl og þegar verið er að tala í síma eða texta sms undir akstri, eins og sumir ökuþrjótar eru sífellt að gera.

En ég sammála því að íslenzkir ökumenn stöðva greiðlega fyrir vegfarendum, t.d. við gangbrautir eða gatnamót. Tillitssemi í umferðinni er lykilatriðið. Það sem er ábótavant er að sumir svína of oft fyrir aðra og sumir gefa aldrei stefnuljós. Ég kenni lélegum ökukennurum um þetta.

Auk þess eru öll tveggja-akreina hringtorg á höfuðborgarsvæðinu slysagildrur vegna asnalegra íslenzkra reglna um akstur í hringtorgum, sem ég mun bráðum skrifa færslu um.

Pétur D. (IP-tala skráð) 20.9.2014 kl. 15:22

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hringtorg á Íslandi lúta ekki sömu akstursreglum og í öðrum löndum.

Réttur á innri hring umfram ytri er aðeins til á Íslandi.


Útlendingar á ferð hérlendis, sem aka um tveggja akreina hringtorg, þekkja yfirleitt ekki íslensku regluna."

Vegagerðin - Hringtorg á Íslandi, bls. 5

Þorsteinn Briem, 20.9.2014 kl. 16:20

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Um hringtorg er lítið skrifað í umferðarlögum en um þau hafa skapast hefðir og venjur."

Lögreglan á Facebook


Veit ekki til þess að íslensk umferðarlög kveði sérstaklega á um akstur í hringtorgum.

Umferðarlög nr. 50/1987

Þorsteinn Briem, 20.9.2014 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband