Svipaðar áherslur fyrir 60 árum í BNA.

Á árunum  1954 til 1958 ollu breyttar áherslur í útliti bíla gagngerri umbyltingu í bandarískum bílaiðnaði.

Fram að því hafði Chrysler verið næst stærsti bílaframleiðandinn þar í landi og lagt áherslu á vöruvöndun, traustan vélbúnað og drifbúnað og gott rými í háum og frekar kubbslegum bílum.

Gegn þessu réðust Ford-verksmiðjurnar með dirfskufullri verðlækkun og aukinni áherslu á hressandi útlit og skemmtilegri aksturseiginleika og afl.

1955 árgerðirnar hjá GM og Ford voru boðnar í djörfum tvílitum með margs konar ívafi og miklu meira lagt upp úr frísklegu útliti og lægri og rennilegum bílum en áður hafði þekkst, auk þess sem í boði voru spánýjar aflmiklar átta strokka vélar fyrir alla stærðarflokka sem ollu byltingu í aksturgetu bílanna.

Chryslerbílarnir virkuðu gamaldags og úreltir og framleiðslan árið 1954 hrundi þar á bæ.  

Mikið verðstríð GM og Ford rústaði að miklu leyti tilveru smærri framleiðanda, svo sem Nash, Kaiser, Hudson, Packard og Studebaker, sem allar fóru á hausinn þótt þær reyndu að sameinast til að eiga einhverja möguleika gegn hinum stóru um hríð.

1957 og 56 var þannig komið að útlit og skemmtilegir eiginleikar og glannalegir litir og línur voru aðalatriðið hjá öllum framleiðendum og bílarnir höfðu lækkað svo mikið að í mörgum þeirra skorti mjög á þægilega setstellingu í hinum mjög svo lágu aftursætum. 

Mesta breytingin var hjá Chrysler sem hafði gersamlega umpólað útilit bíla sinna til þess að endurheimta stöðu sína, sem þó varð aldrei hin sama og fyrr.

Nýtilkomin litagleði, tvílitir og sportlegt útlit á ýmsum nýjum bílum núna minnir á síðari hluta sjötta áratugarsins í Bandaríkjunum, þegar rokkið og unga fólkið skópu byltingu í lífsstíl og tónlist þar.

Mercedes Benz A var í hitteðfyrra breytt úr háum og kubbslegum brúkshesti i langan og rennilegan bíl með sportlegum eiginleikum og útliti á kostnað útsýnis og innanrýmis og þæginda í aftursæti.  

Opel Adam og Toyta Aygo eru enn betra dæmi með djörfum litasamsetningum, þröngu rými í aftursæti og tiltölulega litlu farangursrými. Aðaláherslan er lögð á þægindi og ánægju í framsætum og það að bílarnir séu sem allra skemmtilegastir í útliti og akstri. 

Salan á Benz A snarjókst með breyttum áherslum í þessa átt og þetta er greinilega eitthvað sem gengur í stóran og jafnvel stækkandi markhóp. 

Að sumu leyti minnir þetta líka á Mustang-bylgjuna 1964 sem skóp alveg nýja tegund vinsælla bíla í Bandaríkjunum.

Ástæðan er einföld: Fólk eyðir svo löngum tíma í bílum að margir gefa mest fyrir það að skemmta sér sem best í þeim og hamla gegn gráum hversdagsleikanum. Að meðaltali er aðeins rúmlega einn maður um borð í hverjum bíl og viðburður er ef fleiri fullorðnir en tveir eru um borð.

Þess vegna láta svo margir sér nægja að aftursætin séu nógu stór fyrir börn eða fullorðna farþega á stuttum innanbæjarleiðum.  

 

P. S.  Ég var að skoða "nýja kynslóð" Toyta Aygo áðan og í ljós kom að ef meðalmaður situr í framsætinu er nóg pláss fyrir meðalmann í aftursætinu, bæði fyrir höfuð, hné og stuðning við læri.

Það er meira en sagt verður um Opel Adam og Mercedes-Benz A, en Benzinn er líkast til meira en tvöfalt dýrari en Aygo og samt mun erfiðara að komast inn um afturdyrnar á honum en á þeim litla.  

 

 


mbl.is Nýr Aygo kynntur hjá Toyota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er vafalítið rétt greining hjá Ómari, -í aðalatriðum.  Þó voru á þessu undantekningar.  Ég átti Dodge Custom Royal árgerð 1956, og kunningi minn átti Chrysler Imperial 1955.  Báðir þessir bílar voru langir, breiðir og rennilegir.  og ekki skorti hestöflin í Hemi vélunum!

Mig minnir að Dodge 1957 hafi verið enn stærri en 1956 módelið mitt.

En Ford '55 og ´56 voru ef til vill fallegustu bílarnir á þessum tíma.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 11:04

2 Smámynd: Einar Steinsson

Þetta er sami bíll og Citroën C1 og Peugeot 107/108 og er smíðaður í Tékklandi og þar sem Tékkar hafa löngu sannað að þeir eru listasmiðir ættu gæðin að vera í lagi.

Flottur smábíll og mér finnst hann fallegastur af þessum þríburum.

Einar Steinsson, 1.10.2014 kl. 17:31

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nýr yfirhönnuður bíla Chryslers, Virgil Exner, var byrjaður að hafa áhrif á útlit bílanna hjá verksmiðjunum á árinu 1955 og síðan lengdust, lækkuðu og breikkuðu bílarnir enn meira árið 1957 yfir alla línuna á einu bretti.

Sú árgerð er enn í minnum höfð sem einhver magnaðasta bílahönnun allra tíma og 1957 tókst að koma Plymouth í sitt þriðja sæti á sölulistunum, en hann hafði fallið niður í 5. sætið 1954 vegna óspennandi útlits og skorts á V-8 vél.

Ómar Ragnarsson, 1.10.2014 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband