Fréttir fara sínu fram.

Ofangreint orðtak, eða það að fréttir gerist oft þegar þeim sýnist, gæti átt við deiluna löngu og leiðinlegu um uppsetningu brunavarna í bílageymslu í Hamraborg í Kópavogi.

Þetta fyrirbæri hefur mótast í huga mér á áratuga löngum ferli sem fréttamaður, sem ég tel mig vera enn þótt ég sé ekki lengur í föstu starfi.

Fréttamiðill, ritstjórn, fréttastofa eða einstakir frétta- og blaðamenn, verða að hafa það í huga að það eru mikil takmörk fyrir því að hægt sé að "stjórna atburðarás" og ráða því hvenær fréttnæmir atburðir gerast.

Af þessum sökum hef ég alla tíð verið að burðast með lágmarks viðbragðsbúnað dag og nótt, mörgum til undrunar og oft til vandræða vegna umfangs búnaðar.

Sé það rétt mat slökkviliðsmanna að einhver staður sé  brunagildra getur enginn stjórnað því hvenær mögulegur eldsvoði verður. Hann getur alveg eins orðið í dag eða á morgun eins og eftir nokkkur ár eða áratugi.

Stundum heppnast mönnum að "stjórna atburðarás" og stjórna því hvenær einstakar fréttir og aburðarás gerist. Einnig að leggja pottþétt mat á hvenær mestar líkur séu á því að eitthvað gerist.

Brunagildran í Kópavogi er dæmi um hið gagnstæða. Þess vegna hlýtur að gilda um hana, að því fyrr sem menn eyða hættunni, því betra.

Með öðrum orðum, að hættan á slysi vaxi því lengur sem það dregst að eyða slysahættunni.   


mbl.is Deilan um brunagildruna óleyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hættan á slysi vex ekki því lengur sem það dregst að eyða slysahættunni nema slys sé óumflýjanlegt. Hættan á slysi er í sjálfu sér ekki örugg staðfesting á því að slys verði. Við óbreytt ástand aukast líkurnar á slysi eftir því sem tíminn líður aðeins ef öruggt er að slys verði. Hættan á því að vasi detti úr hillu vex ekki dag frá degi nema öruggt sé að hann muni detta úr hillunni.

Espolin (IP-tala skráð) 10.1.2015 kl. 15:27

2 Smámynd: Sigurjón

Sælir.

Ég er sammála Espólín. Hvernig færðu það út að hættan á slysi vaxi með tímanum? Það er vandasamt verk og flókið að reikna út líkur á slysum, en að þær líkur vaxi með tímanum, án þess að forsendur breytist, hef ég aldrei heyrt og skil ekki hvernig má vera.

-S

Sigurjón, 10.1.2015 kl. 21:52

3 Smámynd: Már Elíson

Hvaða blábjána datt í hug að setja bensínstöð undir hundruðum íbúða ? - Var það ekki tekið út af einhverju eftirlitinu ?  -  Ég veit ekki með önnur lönd eða heimsálfur, en ef svona væri sett á teikniborð annarsstaðar í heiminum af arkitektum þá yrði það slegið út af borðinu eins og skot. 

Ég hef búið í Hamraborg og það er nákvæmlega enginn hætta eða brunahætta í þessari bílageymslu sem er köld og opin í alla enda með fullt af útgönguleiðum, nema hættam af þessari bensínstöð sem kraumar undir rúmum íbúanna. - Það var oft talað með ótta í rödd á húsfundum um þessa ógn sem að þessari bensínstöð stendur.

Fyrst er að fjarlægja þá sofandi dauðagildru.

Þessia svokallaða deila hlýtur að snúast um eitthvað allt annað og örugglega há-pólitískt eins og allt í dag.

Már Elíson, 10.1.2015 kl. 22:53

4 identicon

Hversu algengt er að bensínstöðvar brenni? Hverjar eru líkurnar á að kvikni akkúrat í þessari bensínstöð? Hættur leynast víða og sumt vekur meiri ótta en ástæða er til. Flug yfir Reykjavík er nokkuð sem skapar hættu sem sumir vilja losna við en aðrir hundsa. Flug öldunga er einnig nokkuð sem skapar hættu sem sumir vilja losna við en aðrir hundsa. Það þarf að ganga nokkuð langt til að tryggja að hvergi sé hætta og slys verði ómöguleg.

En þar sem ekki er farið að ströngustu reglum verðum við að treysta því að viðeigandi yfirvöld veiti ekki undanþágur sé raunveruleg hætta á ferð en grípi strax til aðgerða. Undanþágur þýða að ekki er nein bráð hætta sem bregðast þarf strax við. Hvort einhverjir kjósi að fyllast hræðslu, missa þvag og hlaupa um eins og hauslausar hænur er ekki mælikvarði á hættuna. En Ómari er auðvitað velkomið að sitja með sinn lágmarks viðbragðsbúnað dag og nótt næstu vikur, mánuði eða áratugi við Hamraborg, hann er allavega ekki að skapa hættu með flugi á meðan.

Hábeinn (IP-tala skráð) 10.1.2015 kl. 23:45

5 Smámynd: Már Elíson

Þú ert nú meiri viðbjóðurinn, hver sem þú ert - Það er enginn öldungur í akstri eða flugi án skírteinis og hæfismats aftir ákveðinn aldur, en þú ert t.d. ein hættan sem steðjar að - nafnlaus og spúandi aðdróttunum og óþverra yfir alla.

Það er sem betur fer ekki algengt að bensínstöðvar brenni, en þú (samt þú gætir það) setur ekki logandi kerti undir rúmið þitt áður en þú ferð að sofa...eða er það ?

Már Elíson, 10.1.2015 kl. 23:58

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Magnús Norðdal, 83ja ára gamall, sýnir listflug sem hann einn Íslendinga getur framkvæmt. Hann, eins og allir aðrir. sem hafa réttindi til að stjórna flugvél, þarf árlega að uppfylla ýmis skilyrði.

Ég, eins og aðrir með svipuð flugréttindi, fer ég í stranga og dýra fluglæknisskoðun tvisvar á ári til að viðhalda ákveðinni tegund af atvinnuflugmannsréttindum, sem ég hef, tek tilskilin hæfnispróf á ákveðnum fresti, flýg ákveðinn lágmarks flugstundafjölda á ári, (raunar tíu sinnum meira) og þarf að fara í fimm flugtök og fimm lendingar í myrkri á hverjum þremur mánuðum til að viðhalda réttindum til nætursjónflugs.

Ég er með blóðþrýsting 80-110 og púls í kringum 60, hef aldrei reykt né notað áfengi eða fíkniefni, með enga óeðlilega blóðfitu né annað sem bendir til þess að ég sé eldri en tvítugur.

Auðvitað geta allir dottið óvænt dauðir niður eða fengið aðsvif, en berðu þetta samt saman berðu þetta nú samt saman við kröfurnar um stjórnendur tugþúsunda bíla á vegum og götum og segðu mér hvenær ég hefði átt að hætt að fljúga vegna aldurs. 

Ómar Ragnarsson, 11.1.2015 kl. 02:42

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Um áhættu gildir heil fræðigrein um "calculated risk" eða útreiknaða áhættu, sem er til dæmis vel þekkt hjá tryggingarfélögum. 

Svonefnt lögmál Murphys er eitt af því sem þar gildir og fjallar einmitt um það að forsendan fyrir mistökum eða að eitthvað fari úrskeiðis sé sú, að hægt sé að gera viðkomandi mistök eða mögulegt sé að eitthvað fari úrskeiðis. 

Niðurstaðan er sú að geti eitthvað farið úrskeiðis muni það gerast fyrr eða síðar. Og því lengri tími og því meiri fjöldi tilfella sem um er að ræða, því meiri líkur. 

Þegar ég fór til Svíþjóðar til að keppa í heimsmeistarakeppni í ralli 1981, náði ég mér í upplýsingar um slysatíðni í ralli í Evrópu. Þar eru röllinn náttúrulega mörg hundruð sinnum fleiri en hér og þátttakendurnir að sama skapi fleiri. 

Þeir reiknuðu þetta út fyrir mér að gefinni lýsingu á fjölda bíla hér miðað við hundrað ár og útkoman varð eitt dauðsfall á öld. Og nota bene, á öld. 

Líkurnar á dauðaslysi á áratug voru auðvitað einn á móti tíu. 

Þegar ég kom heim til Íslands og sagði strákunum frá þessu og þeim létti að þetta skyldi þó ekki vera meiri áhætta. En þeir urðu hugsi þegar ég sagði þeim, að það væri í fyrsta lagi alls ekki víst að nokkurt dauðaslys yrði næstu 100 ár, þau gæti alveg eins orðið eitt eða tvö eftir að öld væru liðin. 

Og, - að þetta eina dauðaslys að meðaltali á öld, gæti alveg eins orðið í næstu keppni eins og eftir öld. 

Ómar Ragnarsson, 11.1.2015 kl. 02:57

8 identicon

Hér er að finna nokkrar fréttir og umræður um bílakjallarann í Hamraborg og þessa bensínstöð sem er staðsett undir íbúðarblokkunum.  https://www.facebook.com/kopavogurtv

Sigurður Sveinsson (IP-tala skráð) 11.1.2015 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband