Hvað næst: "Vatnsskúr"?

Ætla hefði mátt að íslenska ætti nógu mörg heiti yfir það fyrirbæri þegar vatn í föstu formi fellur til jarðar, rennur með jörðinni í ýmsum myndum eða liggur á jörðinni.  

Nokkur dæmi:  Snjókoma, ofankoma, hríð, stórhríð, blindhríð, bylur, blindbylur, kafaldsbylur, hraglandi, kafald, mugga, hundslappadrífa, slydda, skafrenningur, mjöll, lausamjöll, harðfenni, fönn, skari, krap o.s.frv.

Samt linnir ekki þeirri áráttu íslensks fjölmiðlafólks að þýða beint enska orðið "snowstorm" og búa til heitin "snjóstormur" og "snjóbylur".

Hvað næst: "Snjórok"? Eða "vatnsskúr" 


mbl.is Íslenskur snjóbylur vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í Þingeyjarsýslu, ekki síst í Norðursýslunni tala menn um norðaustanstórhríð þegar verst lætur.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.1.2015 kl. 22:17

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Snjóbylur - hríð."

(Íslensk orðabók Menningarsjóðs, útg. 1976.)

Í Skíðadal, sem nú er í Dalvíkurbyggð, var hins vegar talað um stórhríð eða blindbyl en ekki snjóbyl, svo og dráttarvél en ekki traktor, eins og algengt er á Suðurlandi.

Þar segja einnig margir "göngum yfir brúnna" og "Íssland", eins og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands.

Segjum ekki traktor, sagði rektorinn.

Og flámæli var útrýmt, eða því sem næst, þar sem það þótti ekki nógu góð íslenska.

Þorsteinn Briem, 16.1.2015 kl. 23:10

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Snjóskúr - él."

(Íslensk orðabók Menningarsjóðs, útg. 1976.)

Þorsteinn Briem, 16.1.2015 kl. 23:35

4 identicon

Fyrir góðum 20 árum átti ég leið norður í Þingeyjasýslu á minni Lödu 1600. Ég þvældist yfir Fljótsheiði í talsverðri snjókomu og komst mína leið í Aðaldalinn.
Heimilisfólkið sem kom til að hitta var steinhissa að sjá mig, - "hvernig komstu alla leið í stórhríð????".
Ég sagði nú bara sem svo að á Suðurlandi væri þetta kallað snjókoma, og ég hefði flýtt mér eins og ég gat áður en að þetta yrði að blindbyl.
Sá versti skafbylur sem ég hef lent í var 1990, og versta hríðin 1999.
Skemmtilegt hve orðfærið er mismunandi milli landshluta ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 07:39

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Hvíta kafald" sagði hún Manga gamla með svartan vanga. 

Ómar Ragnarsson, 17.1.2015 kl. 11:29

6 identicon

Hráar þýðingar úr ensku, eins og snjóstormur, fara líka í mínar fínu. Snjóbylur finnst mér hinsvegar í lagi, til aðgreiningar frá sandbyl, t.d. En skemmtilegra væri auðvitað að nota eitthvert af hinum orðunum sem Ómar telur upp hér að ofan, bara spurning hvað það ætti helst að vera í þessu tilviki. Er snjókoma nógu sterkt? Hríð? Stórhríð?

Eysteinn Pétursson (IP-tala skráð) 17.1.2015 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband