Mannanöfn; mannréttindamál, jafnréttismál og barnarverndarmál.

Ég minnist þess hvað það gat stundum verið erfitt fyrir mann sem barn að heita sárasjaldgæfu nafni eins og nafnið Ómar var þá. 

Það var svo sjaldgæft, að þegar nafn mitt kom fyrst í símaskránni, var aðeins einn Ómar þar kominn á undan mér. 

Ofan á það að bera svo sjaldgæft nafn, að fólk hváði og börn og fullorðnir fóru í stríðnisham, var ég með alveg fáránlega eldrautt hár og var oft strítt með þessu tvennu, nafninu og hárinu. 

Einkum gat maður verið viðkvæmur fyrir þessu á yngstu árunum þegar börn vilja helst fylgja fjöldanum og vera eins og aðrir.

Þegar fleiri fengu þetta nafn og það fór að venjast, lagaðist þetta þó smám saman. Auk þess skildi ég þegar árin liðu, að þetta hafði verið skásta lausnin sem foreldrar mínir fundu út úr þeim vanda, að um var að ræða fyrsta barnabarn afa og ömmu, og að vegna hins fáránlega rauða hárs, yrði varasamt að skíra mig nafni ömmu minnar, sem hét Ólöf, og gefa mér nafnið Ólafur eins og upphaflega hafði verið ætlunin.

Þá yrði hætta á að ég yrði kallaður Óli rauði til aðgreiningar frá öllum hinum, sem hétu Ólafur.

Það er ósanngjarnt að leggja það á barn að bera asnalegt nafn og sú afsökun, að þegar fólk verði sjálfráða og fullorðið, geti það breytt nafni sínu, nægir ekki eftir öll þau ár, sem hafa liðið án þess að barnið hafi fengið nokkru að ráða um það sjálft.

Það eru sjálfsögð mannréttindi frá fæðingu að geta sætt sig við það nafn, sem manni er skenkt án þess að fá nokkru að ráða um það fyrr en eftir dúk og disk.   

 


mbl.is Telur frumvarpið ekki vera til bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Nafn sem barni er gefið, er gjöf sem enginn hefur rétt til að taka frá nokkrum einstaklingi. Við manneskjurnar erum svo margbrotin samsetning í stóra tilverusamspilinu. Upprunalega gefið nafn okkar allra jarðabúa er persónuleg eign, sem enginn hefur leyfi til að taka frá neinum.

Við erum nafnið okkar, ásamt öðrum sálarinnar persónulegum meðfæddum náðagjöfum af ólíkum hæfileikatoga.

Það er óréttlætanleg vanþekking og þröngsýni, að leyfa fólki ekki að bera sitt upprunalega gefna nafn í friði. Og það vegna einhverra ólíðandi ákvarðana opinberlega rekinnar vanþekkingarnefndar, sem ekki virðist hafa hugmynd um eignarétt einstaklinga á sínu eigin upprunalega nafni!

Svona opinberlega rekna nafnaráns-forræðisvitleysu verður að stoppa.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.3.2015 kl. 22:32

2 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Ég er hræddur um að óréttlætanlega vanþekkingin og þröngsýnin sé með henni Önnu Sigríði Guðmundsdóttur í þessu máli.  Þetta snýst alls ekki um rétt foreldra til að skíra börnin sín fáránlegum nöfnum s.s. Kúkur eða Piss.  Þetta mál snýst um rétt barnanna til að þurfa ekki að þola áralangt einelti af því foreldrarnir settu sína hagsmuni framar en barnsins þegar kom að nafngift þess !!!

Högni Elfar Gylfason, 7.3.2015 kl. 22:48

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ætli þú sért ekki bara enn ein s0nnun þess, Ómar, að gjarna verða þeir mestir menn sem mest er strítt í æsku.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.3.2015 kl. 23:08

4 identicon

Ætlar "Steini Briem" ekki að tjá sig um málið?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 00:10

5 identicon

Þar hittu þau á rétta nafnið.

Þú hefur Ómað til okkar.

Söng, fréttum og myndum.

Svo Þökk sé þeim.

Árni Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 00:10

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Högni Elvar. Hvernig finnst þér réttlætanlegt að fólk sem kemur frá öðrum löndum, þurfi að breyta nöfnum sínum til að þóknast mannanafnanefnd?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.3.2015 kl. 01:01

7 identicon

Það er náttúrlega fullkominn þvættingur að mannanafnanefnd hafi eitthvað með lög um mannanöfn að gera eða ráði hvað í þeim stendur.  Alþingi setur lög og breytir þeim.  Það sem mannanafnanefnd gerir er að framfylgja ákvæðum laganna.  Og síðan er það sömuleiðis bull að fólk sem kemur frá öðrum löndum þurfi að breyta nöfnum sínum til að þóknast mannanafnanefnd. Um þá fullyrðingu má segja tvennt:  A Mannanafnanefnd ákveður ekki hvað í lögum stendur.  Og B  Í lögum um mannanöfn nr. 45 frá 1996 segir í 11. grein: 11. gr. Nú fær maður sem heitir erlendu nafni íslenskt ríkisfang með lögum og má hann þá halda fullu nafni sínu óbreyttu.  

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 01:16

8 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Börn og fullorðnir verða fyrir einelti af margvíslegum ástæðum. Nafngiftir eru ekki í neinum meirihluta ástæðana fyrir því.

Það er því algjör misskilningur að Mannanafnanefnd ein og sér komi í veg fyrir einelti vegna nafngifta, og því alveg fáránleg ástæða fyrir því að halda í þetta fáránlega batterí.

Ef einelti er einlægt áhyggjuefni fólks og þung forsenda fyrir skoðunum um að halda Mannanafnanefnd starfandi, þá þarf sama fólk að hefja alvarlega endurskoðun.
"Ástæður" eineltis eru margvíslegar, en eru aðeins einkenni. Hvað með að ráðast á rót vandans? Eins og.. eineltið sjálft? Við lögum ekki vandamál eins og einelti með því að kippa burt "ástæðum". Með því að segja, "Ó, hann er lagður í einelti, vegna þess að hárið hans er rautt", eða "Hann heitir svo skrítnu nafni", er verið að gefa í skyn að eineltið sé einhvernveginn fórnarlambinu að kenna, en ekki gerendum. 

Einelti kemur frá gerendum, ekki fórnarlambinu.

Þess má geta að undirrituð var lögð í einelti sem barn, og voru margvíslegar "ástæður" þar á. Meðal annars nafnið. Og nei, það var ekki seinna eiginnafnið, heldur hið fyrra.

Það er ekki til eitt einasta ramm-íslenska nafn, sem ekki er hægt að snúa út í uppnefni. Sonur minn, Axel, er t.a.m. uppnefndur "axlabönd". Hann tekur því nærri sér. 
Ég veit ekki betur til en að nöfn okkar beggja sé samþykkt, með "seal of approval" frá Mannanafnanefnd.
Er stríðnin annarsvegar, og eineltið hinsvegar, sem sonur minn verður fyrir þá mér að kenna, vegna þess að ég var ekki þeim gáfum gædd er hann fæddist og var nefndur að geta séð framtíðina fyrir og valið betra nafn? Eða má ég kenna Mannanafnanefnd um þetta?

Vinsamlegast hættið að gera háalvarlegt vandamál á við einelti sem einhverja forsendu fyrir rekstur á batteríi á við Mannanafnanefnd. 

Ef einelti er áhyggjuefni, þá ber að vinna í því. Mannanafnanefnd er bara alls ekki góður upphafs eða endapunktur í þeirri barátttu. Hvorki í þessari vídd né annarri.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 8.3.2015 kl. 02:09

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dæmi um leyfileg íslensk nöfn, samkvæmt Mannanafnanefnd:

Saxi Melrakki Snæringsson, Jeremías Engill Myrkvason, Aríel Þiðrandi Stormsson, Ljúfur Knörr Gjúkason og Þyrnir Fenrisson.

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 03:48

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nokkrar íslenskar dömur heita Þrá.

Þetta nafn er frá árinu 1936 og íslenskara nafn er nú varla til.

Ung íslensk dama heitir Venus Sara og önnur Viktoría Venus.

En arabíska nafnið Ómar var fyrst tekið upp hér á Íslandi árið 1913.

Lög um mannanöfn nr. 45/1996

Mannanafnaskrá

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 04:10

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ingibjörg Axelma er með rétt útskýrðu rökin í þessari umræðu. Þetta snýst hvorki um foreldrarétt né einelti.

þetta snýst um eignarétt einstaklinga á sínu eiginnafni.

Ég hef því miður heyrt um að börn sem koma frá öðrum löndum fái ekki að vera rétt skráð með sínu eiginnafni i þjóðskrá Íslands, þó þau séu íslenskir ríkisborgarar. Þess vegna er ég að skipta mér af þessari Mannanafnanefndarumræðu.

Það er gagnslaust að hafa lög og reglur á Íslandi, ef opinberlega reknu nefndakerfin skattborguðu og rándýru komast hindrunarlaust upp með að brjóta þau lög og reglur sem eru í gildi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.3.2015 kl. 04:23

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hún heitir Venus Þrá Hanna,
og hana ætti barasta að banna,
hún er of sexí,
henni vil rex í,
og hennar öll innstu lög kanna.

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 05:30

13 identicon

"Ég hef því miður heyrt um..."  er ekki góð heimild, sérstaklega ef þessar upplýsingar stangast á við texta laganna og staðreyndir.  Ég þekki persónulega, og ræði við oft í viku hverri, börn sem eru íslenskir ríkisborgarar og bera erlend nöfn.  Og ekki bara eitt eða tvö börn, og fullorðna líka, heldur marga tugi.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 10:54

14 identicon

Tek undir með Ingibjörgu Axelmu.  Við getum alveg eins tekið upp fatalínunefndina þar sem fólki er kennt að klæða sig.  Ekki viljum við að konur klæði sig eins og fífl og láti nauðga sér í kjölfarið - eða hvað?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 11:55

15 identicon

Íslenskt samfélag var við lýði í ca. 1000 ár án mannanafnanefndar og komst bærilega af (ef frá er talið fáeinar náttúruhamfarir og harðindaár).

Hilmar (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 13:00

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hlutskipti erlends fólks, sem flyst til landsins, er gerólíkt hlutskipti íslensks barns, sem fær nafn á fyrsta ári. 

Útlendingurinn kemur til landsins sáttur við sitt nafn og á því rétt á því að fá að halda því áfram. Og bara nöfn tónlistarmannanna, sem urðu burðarásar íslensks tónlistarlífs um miðja síðustu öld, tala sínu máli. 

Fritz Weishappel, Jose M. Riba, Jan Moravek, Viktor Urbancic, Frans Mixa, Carl Billich, Aage Lorange, Sigurður Demetz, Tage Möller  o.s.fv. 

Ómar Ragnarsson, 8.3.2015 kl. 20:27

17 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þorvaldur nr. 13.

Ég er sammála því að það er ekki góð heimild, "að hafa heyrt" eitthvað. Jafnvel þó ég sjálf þykist vita fyrir víst +hvað er satt í þessu sem ég hef skrifað um hér.

Þá er næsta verkefni hjá mér, að safna saman sönnunargögnum um það sem er því miður staðreynd á Íslandi, um rétt barna/unglinga/fullorðinna til að halda sínu eiginnafni án undantekniga, í opinbera skráningarkerfinu. Ef mér endist áfram mín hallærislega heilsa og sæmilega nothæft vit, þá safna ég saman þessum sönnunum, sem að sjálfsögðu er réttlát og eðlileg krafa.

Undarlegt finnst mér þó, að fólk viti ekki almennt um þessi svikavinnubrögð og ó-samtengingu innan kerfis Þjóðskrár og t.d. menntaskólanna.

Ég ætla að kanna málið betur, því ekki kannar víst nokkur opinber nafnanefnd á skattgreiddum launum, hvort lög um eiginnöfn séu í einhverjum tilfellum brotin á Íslandi.

Verst ef mér verður neitað um þá beiðni, að fá upplýsingar, af upplýsingarskyldugu opinberlega reknu kerfinu?

Þá verð ég líklega að hringja í landsstjórahjónin: Björgu Thorarensen lagaprófessor Háskóla Íslands, og Markús Sigurbjörnsson forseta Hæstaréttar Íslands, til að fá leiðbeiningar um notkun á leiðbeiningarkerfinu opinberlega rekna og svikula?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.3.2015 kl. 02:22

18 identicon

Menn vaða hér í villu og svíma um hlutverk mannanafnanefndar.  Hlutverk hennar er að halda skrá um þau nöfn sem leyfilegt er að gefa börnum sem ekki hafa nöfn fyrir, s.s. ómálga börn, og taka ákvörðun um hverjum nöfnum kann að verða bætt á þá skrá.  Skal hún í því augnamiði taka mið af reglum sem lögfestar eru í lögum nr. 45 frá 1996.  Nefnd þessi fer í hvívetna eftir þessum reglum af samviskusemi.  Hún tekur EKKI ákvörðun um hver nöfn eru færð á þjóðskrá hafi menn þegar fengið þau við flutning til landsins.  Bara alls ekki!  

Séu einhverjir ekki færðir í þjóðskrá undir sínu rétta nafni er því ekki við mannanafnanefnd að sakast.  Og meðan mannanafnanefnd hefur hafnað nöfnum eins og Satanía og Finngálkn tel ég það svo sterkan rökstuðning með tilverurétti hennar að framar þurfi ekki vitnanna við.  Vilji hins vegar einhverjir foreldrar klína slíkum snöfnum eða einhverjum ámóta á blásaklaus börnin, bara af því þau hljóma tilkomumikil, má geta þess að heimild er fyrir því í lögum að breyta nafni sínu.  Geta slíkir foreldrar þá bara breytt sínu eigin nafni ef himinn og jörð hrapa verði þeim ekki upp komið.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 9.3.2015 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband