Konur á barneignaaldri = líf eða dauði byggðarlags.

Sú aðferð er kolröng að horfa eingöngu á mannfjöldatölur frá einstökum byggðarlögum eða landshlutum til þess að meta stöðu þeirra.

Um líf eða dauða byggðarsvæða gildir nefnilega nákvæmlega það sama og gilt hefur frá upphafi mannkynssögunnar: Tala kvenna á barneignaaldri er eina talan eða stærðin sem skiptir máli.

Það er íslenska konan sem allt stendur og fellur með. Tæknilega séð væri nóg að aðeins einn karlmaður væri í byggðarlaginu og þarf ekki að útskýra það nánar.

Mikið væri nú gaman ef Hagstofa Íslands birti tvenns konar mannfjöldatölur á landinu: Annars vegar heildartöluna og hins vegar tölu kvenna á barneignaaldri í byggðarlögunum, hverju fyrir sig.

Fyndi síðan út meðaltalið af hlutfallinu á milli þessara tveggja talna á landinu öllu og tilgreindi síðan hve hátt hlutfallið væri í hverri byggð.

Þá sæist hið raunverulega ástand og lífslíkur byggðarinnar. 

Segjum að meðaltalið væri 25% af heildarmannfjöldanum, þ. e. að helmingur kvenna á landinu væri á barneignaaldri, en að síðan kæmi í ljós að á Vestfjörðum væri talan aðeins 8% af mannfjöldanum þar.

Núna búa 2,2% landsmanna á Vestfjörðum. Ef ofangreindar tölur, 25 og 8 prósent væru raunveruleikinn, kæmi í ljós að aðeins 0,7% allra kvenna á landinu, sem eru á barneignaaldri, byggju á Vestfjörðum!

Þegar ráðist er gegn þjónustu við konur og börn, heilbrigðisþjónustu, fæðingarþjónustu og leikskólaþjónustu eins og gerst hefur víða landsbyggðinni og nú síðast á Ísafirði, er vegið að rótum samfélagsins á miklu grófari hátt en þótt einhver verksmiðja rísi eða rísi ekki.

Það er vegið að lífinu sjálfu og viðhaldi þess. 

1989 heimsótti ég minnsta kaupfélag landsins á Ströndum og gerði um það frétt.

1999, tíu árum síðar, hringdi ég að gamni í kaupfélagsstjórann, Sigrúnu Magnúsdóttur, og spurði frétta, hvort fólki hefði fækkað í byggðinni.

"Nei", svaraði hún, "við erum hérna ennþá öll."

"Það er gott að heyra," sagði ég.

"Nei, það er slæmt að heyra," svaraði hún.

"Ha? Slæmt að heyra? Af hverju?"

"Við erum öll orðin tíu árum eldri," svaraði hún.  

 

 

 

 


mbl.is „Afturhvarf mörg ár aftur í tímann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað mikið, aðallega vegna aukinnar þjónustu og háskólastarfsemi á því svæði og það á einnig við um Akureyri.

Íbúum í þeim sveitarfélögum sem nú mynda Fjarðabyggð, framleiðslusveitarfélagi, fækkaði hins vegar um 11,2%, eða 582, á árunum 1998-2013, þrátt fyrir álverið í Reyðarfirði.

Og í framleiðslubyggðarlaginu Vestmannaeyjum fækkaði íbúum á þessu tímabili um 8,8%, eða 407, og þeim sem búa á því svæði sem nú er í Dalvíkurbyggð fækkaði um 10,5%, eða 218, í byggðarlögum sem nú mynda Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 15,3%, eða 675, og þeim sem búa á svæðinu sem nú er í sveitarfélaginu Norðurþingi, til að mynda Húsavík, fækkaði um 14,6%, eða 489.

Íbúum á svæðinu frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar fjölgaði hins vegar á þessu tímabili um 25%, eða 41.073, og í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði íbúum um 16,5%, eða 2.544, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Þeim sem búa í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði því meira á tímabilinu 1998-2013 en íbúum í þeim byggðarlögum sem nefnd eru hér að ofan fækkaði, samtals 2.371.

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 05:03

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar eru auk CCP og mikillar ferðaþjónustu til að mynda stór og fjölbreytt framleiðslu- og útflutningsfyrirtæki, í ullarvörum, fiskvinnslu, lýsi, veiðarfæragerð, stoðtækjum, hátækni í matvælaframleiðslu, lyfjum og áli, Ístex (áður Álafoss) í Mosfellsbæ, Grandi hf., Lýsi hf., Hampiðjan og Össur hf. í Reykjavík, Marel í Garðabæ, Actavis og álverið í Hafnarfirði.

Og verið er að reisa hátæknisetur lyfjafyrirtækisins Alvogen skammt frá húsi Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem um 200 manns munu starfa, flestir háskólamenntaðir.

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 05:05

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 05:07

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslendingar hafa nú þegar fengið alls kyns styrki frá Evrópusambandinu, til að mynda Inga Dóra Sigfúsdóttir, sem var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar forsætisráðherra.

21.2.2015:

Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor við Háskólann í Reykjavík fær 300 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 05:08

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslensk sveitarfélög í Evrópusambandinu:

Rúmlega þriðjungi af fjárlögum Evrópusambandsins, um 347 milljörðum evra, var varið til byggðamála á árunum 2007-2013.

Byggðaþróunarsjóður.

Sjóðnum er ætlað að jafna stöðu einstakra svæða. Áhersla er til dæmis lögð á nýsköpun í þekkingariðnaði og rannsóknum, umhverfismál og samgöngur en sérstök áhersla er lögð á dreifbyggð svæði og erfið.

Samstöðusjóður.

Sjóðnum er ætlað að styrkja ríki sem verða fyrir verulegu tjóni af völdum náttúruhamfara, til dæmis veðurs.

Aðlögunarsjóður.

Sjóðnum er ætlað að styrkja væntanleg aðildarríki og veita þeim aðstoð við að undirbúa og uppfylla ýmis nauðsynleg skilyrði fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

Félagsmálasjóður.

Sjóðnum er ætlað að jafna félags- og fjárhagslega stöðu íbúa í álfunni. Áhersla er lögð á ýmiss konar menntun og að styrkja stöðu hópa sem eiga undir högg að sækja, til dæmis innflytjenda, fatlaðra, ungs og gamals fólks á vinnumarkaði.

Landbúnaðarsjóður.

Sjóðurinn skiptist í tvennt, annars vegar er um að ræða styrki til bænda og hins vegar styrki til dreifðra byggða.

Styrkir til sjávarbyggða.

Evrópusambandið veitir styrki til sjávarbyggða úr sjóði sem heitir European Fisheries Fund og stuðningurinn byggir á fjórum stoðum:

Aðlögun flotans.

Fiskeldi, vistvænar veiðar, vöruþróun og markaðssetning.

Veiðistjórnun og öryggismál.

Stuðningur við byggðir sem eru að verulegu leyti háðar fiskveiðum og til að stuðla þar að fjölbreyttari atvinnuvegum.


Íslensk sveitarfélög í Evrópusambandinu

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 05:10

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útlendingar, til að mynda Kínverjar, geta nú þegar átt helminginn af öllum aflakvóta íslenskra fiskiskipa en útlendingar hafa mjög lítið fjárfest í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

23.11.2010:


"Friðrik J. Arngrímsson, [nú fyrrverandi] framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að lögin hafi alltaf verið skýr varðandi erlent eignarhald í sjávarútvegi.

"Erlendir aðilar mega eiga allt að 49,99% óbeint, þó ekki ráðandi hlut, og svona hafa lögin verið lengi," segir Friðrik."

"Nefnd um erlenda fjárfestingu hefur að undanförnu fjallað um málefni sjávarútvegsfyrirtækisins Storms Seafood sem er að hluta til í eigu kínversks fyrirtækis, Nautilius Fisheries.

Eignarhlutur Kínverjanna er
um 44%, beint og óbeint.

Og niðurstaða nefndarinnar er að það sé löglegt."

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 06:53

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hagstofa Íslands - Fjöldi íbúa, hlutfall kvenna á aldrinum 20-40 ára og hlutfall allra kvenkyns íbúa 1. janúar 2014:

Ísafjarðarbær 3.639, 13%, 50%,

Dalvíkurbyggð 1.867, 12%, 49%,

Akureyri 18.103, 14%, 50%,

Norðurþing 2.822, 12%, 50%,

Fjarðabyggð 4.675, 13%, 46%,

Vestmannaeyjar 4.264, 13%, 48%,

Reykjavík 121.230, 16%, 50%.

Reykjavík og Akureyri eru með hæsta hlutfall kvenna á aldrinum 20-40 ára, 16% og 14%, en Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar eru með lægsta hlutfall allra kvenkyns íbúa, 46% og 48%.

Þorsteinn Briem, 8.3.2015 kl. 09:53

8 Smámynd: Jón Logi Þorsteinsson

Tja Ómar:

"Það er íslenska konan sem allt stendur og fellur með"

Þarf hún endilega að vera íslensk?

Jón Logi Þorsteinsson, 8.3.2015 kl. 13:53

9 identicon

Sjö (7) af átta athugasemdum hér að ofan eftir huldumanninn Ómar Ragnarsson :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 14:50

10 identicon

Góður Jón Logi!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 15:29

11 identicon

Ja, sko Haukur, - mín er t.a.m. Þýsk og við eigum 4 börn. Mér sýnist þetta alveg virka. Og hún er meiri Íslendingur en margir "hreinræktaðir". Hún var að koma af hestbaki, og það er hún sem gerir slátrið. Á máli hennar heyrist varla hreimur, og hún stóð vörð um Skógafoss.......

Jón Logi (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 18:11

12 identicon

Die deutsche Frau ist edler Wein,

liebt sie, so blüht die Erde.

Die deutsche Frau ist Sonnenschein

am heimatlichen Herde.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.3.2015 kl. 18:35

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í mínum huga eru íslensku fjallkonurnar þrjár: Sigríður í Brattholti, Vigdís Finnbogadóttir og þýska vísindakonan Emmy Todtmann. 

Ómar Ragnarsson, 8.3.2015 kl. 20:54

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er í takt við margt annað, sem stundað er á netinu, að síendurtaka ásakanir í minn garð um það að ég sem "huldumaður" falsi athugasemdir á bloggsíðu minni. 

Ómar Ragnarsson, 8.3.2015 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband