Sér náttúran sjálf um jafnvægið?

Athyglisverðar umræður og deilur hafa verið um íslenska refinn um margra ára skeið, einkum um friðun hans í Hornstrandafriðlandi,sem ýmsir hafa gagnrýnt harðlega.

Hefur gagnrýnin beinst að því að með því að skjóta ekki refinn í friðlandinun sé verið að ógna öllu lífríki á svæðinu, einkum hinu öfluga fuglalífi, sem refurinn muni útrýma, auk þess sem refir frá friðlandinu muni streyma úr þeirri útungarstöð, sem friðlandið sé, og eyða lífi um allt land, eða minnsta kosti alla Vestfirði.

Einni spurningu hefur þó aldrei fengist svarað: Úr því að refurinn hafði, áður en Ísland var numið, haft heil 10 þúsund ár frá lokum ísaldar til þess að eyða fuglalífinu, hvers vegna hafði honum ekki tekist það á svo drjúgum tíma?

Svipuð spurning og á Alþingi árið 1000 þegar spurt var: Hverju reiddust goðin þegar hraunið brann er nú stöndum vér á?

Nú hrynur refastofninn á Hornströndum að því er virðist án þess að nokkra skýringu sé að finna á því, og hrynur meira að segja þegar hann hefur alveg frítt spil af mannanna hálfu til þess að halda áfram að eyða lífi í fuglabjörgunum eins og sagt er að hann hafi fengið að gera óáreittur.

Eitthvað virðist vera að gerast í náttúru svæðisins sem erfitt er að útskýra öðruvísi en með því, að náttúran sjálf sjái um það, eins og hún gerði að mestu í 10 þúsund ár fyrir landnám, að jafnvægi náist í lífríkinu.  

 


mbl.is Refastofninn á Hornströndum hrundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þurfum við eitthvað á refnum að halda?

=Færri refir=Aukið fuglalíf.

Jón Þórhallsson, 16.3.2015 kl. 09:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Refir hér á Íslandi blönduðust öðrum refum á "Litlu ísöldinni" á 16.-19. öld vegna íss sem þá brúaði heimskautssvæðin.

"Ísbrúin gerði refnum kleift að sækja til Íslands frá mismunandi heimskautasvæðum, svo sem frá Norður-Ameríku, Grænlandi og Rússlandi."

"Genasamsetning refanna til forna [hér á Íslandi á 9.-12. öld] var ætíð hin sama en núverandi refastofnar á Íslandi hafa fimm afdráttarlaus genamengi."

Melrakki - refur.


"[Árið] 1306 II. Forniannáll: Braut skip norður við Melrakkasléttu og týndust nær 70 manna."

"Heimskautsrefurinn eða fjallarefurinn er ein af tuttugu tegundum refa í heiminum og býr nyrzt þeirra allra."

"Hann færði sig norður eftir Evrópu með hopandi ísaldarjöklinum og varð hér eftir þegar ísbrýr hans rofnuðu og einnig er líklegt að refir hafi borizt hingað með rekísnum frá Grænlandi á ísaárum.

Þeir eru fylginautar hvítabjarna langt út á hafísinn eins og Hansaleiðangurinn varð var við á árunum 1869-70, þegar refur fannst miðja vegu milli Íslands og Grænlands.
"

Heimskautsrefurinn


Melrakkasetur Íslands í Súðavík

Þorsteinn Briem, 16.3.2015 kl. 10:18

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Háskólafólk þarf þá ekki að vera að eyða tíma, orku og pening skattborgara í að rannsaka og vikta refaskít.

Jón Þórhallsson, 16.3.2015 kl. 10:22

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér á Íslandi hefur refum fjölgað úr tvö þúsund dýrum á áttunda áratug síðustu aldar í 8-10 þúsund, að sögn Esterar Rutar Unnsteinsdóttur, forstöðumanns Melrakkaseturs Íslands í Súðavík.

Unnir
voru um tvö þúsund refir hérlendis árið 1960 en um sex þúsund árið 2009.

Villtur getur refurinn orðið 6-10 ára gamall en hann hefur verið veiddur hér frá Landnámsöld.

"Heimildir frá fyrri öldum benda til að yfirleitt hafi verið mikið um ref í landinu. Vitað er um sveiflur í stærð stofnsins en ekki er þekkt hvort þær eru reglubundnar eða tilviljanakenndar."

Frá árinu 1980 hefur refum fjölgað hér á Íslandi
og skýringar á því eru einkum taldar liggja í tvennu:

"1. Náttúrulegum viðbrögðum stofnsins við auknu veiðiálagi en þau komu fram í aukinni frjósemi dýranna þannig að yrðlingar urðu fleiri í hverju greni, auk þess að gelddýrum fækkaði.

2. Auknu framboði á fæðu
, meðal annars vegna mikillar aukningar á útbreiðslu fýls sem hefur orðið æ mikilvægari þáttur í fæðu refsins."

Hámarksverðlaun fyrir unninn ref eru sjö þúsund krónur en yrðlinga 1.600 krónur fyrir hvert dýr.

Og hámarksverðlaun fyrir unninn mink eru þrjú þúsund krónur fyrir hvert dýr.

26.10.2011:


Refastofninn stækkar ört


Refaveiðar - Umhverfisstofnun

Steini Briem, 22.6.2013

Þorsteinn Briem, 16.3.2015 kl. 10:24

5 identicon

menn eiga kanski ekki að vera að hjálpa refnum að lifa af veturin með því að fóðra hannen. að snoðdyr séu séríslensk fyrirbrigði er ekki rétt þau eru til víða. mér fynst nokkuð fá pör á friðlandinu miðað við þessa löngu friðun

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 16.3.2015 kl. 11:44

6 identicon

Það má kallast gott minni að muna hvernig fuglalíf var um landnám.

Gústi (IP-tala skráð) 16.3.2015 kl. 12:23

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Landgæði hafa verið nokkuð góð ef það er rétt að Geirmundur heljarskinni, göfugættaðisti landnámsmaðurinn, hafi numið land á Hornströndum. 

Ómar Ragnarsson, 16.3.2015 kl. 13:28

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já og hann gaf þræl sínum Atla jörð í Fljótavík, vegna þess að hann bjargaði sjófarendum og hýsti þá.  Bæði þessi nöfn eru ennþá í ættinni minni og við erum orðin nokkuð mörg sem höfum tilkall til Atlastaða í Fljótavík, þangað fer ég á hverju sumri.  Og síðasta sumar var heil fjölskylda við bústaðinn til mikillar ánægju fyri rungviðið.  En ég tók líka eftir því að mófugli hafði fjölgað nokkuð frá því áður var.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.3.2015 kl. 16:30

9 identicon

 Þegar ég var að læra á tölvu fyrir góðum....uhhhmmmm....30 árum, átti ég forrit. Þetta myndi varla kallast "rútína" í dag, svo smátt var þetta nú.
En, - þetta var stærðfræðidæmi byggt á líffræðisveiflu og hét svo merkilega sem "the evolution of foxes and rabbits".
Þarna voru tvær misvísandi parabólur plottaðar hægt með texta undir sem útskýrði hvað var að gerast. Önnur stóð fyrir refina, hin fyrir kanínuna (fóðrið)
Þar sem fjölgunargetan er misjöfn, og annað kvikindið háð ferskara fóðri en hitt, fór það óhjákvæmilega þannig að rebbi nánast þurrkaði út kanínurnar, - svalt svo sjálfur niður og fækkaði niður í ekki neitt, og þá áttu þær andrými greyin til að fjölga sér eins og kanínum einum er lagið.
Þetta er þekkt módel meðal margra dýrategunda.
Sé rebba haldið í lágmarki, hefur sá er lifir nóg æti, og einnig verður fuglalíf óskert að mestu.

Þessi "tilraun" með friðun er bara að sanna parabóluna, - finna upp hjólið með því að keyra á það. Verst að rebbi er kominn út um allt land þar sem lítt var af honum áður, og frekur nokk. Það labbaði einn rólegur í gegnum hrossaréttina hjá mér um daginn. Fuglalíf hefur skerst, greni finnast víða um mýrar suðurlands, og veruleg lambshvörf hafa átt sér stað á vordögum.

Það gleymdist nefnilega refagirðingin, og svú staðreynd að refir í nógu æti og friði fjölga sér mjög hratt.

Þetta er ekkert Disneyland sko....

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.3.2015 kl. 17:17

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er rétt sem Jón Logi er að segja. Rebbi eyðir lífi en að sjálfsögðu útrýmir hann því ekki. Þegar lítið er orðið um æti þá fækkar honum og oft fylgir lítil frjósemi þegar erfiðlega árar. 

Í náttúrunni verða miklar og eðlilegar sveiflur en þær jafnast út, stundum á merkilega stuttum tíma. Mannskepnan vill minnka þessar sveiflur, t.d. með því að halda meindýrum í skefjum. Skordýraplágur, s.s. engisprettur, heyra nánast sögunni til í iðnríkjum vegna þess að þeim er haldið í skefjum með skordýraeitri.

Stundum minnka stofnstærðir villtra dýra án þess að harðæri, (t.d. eins og veðurfar), eða matarleysi vegna offjölgunar komi til. Oft gera sjúkdómar vart við sig þegar þéttleikinn verður of mikill. Getgátur hafa verið um að of mikill þéttleiki rjúpna veki upp einhverja sjúkdóma í stofninum og þá stráfellur hann. (10 ára sveiflan). Þegar rjúpnastofninn er í lágmarki, fækkar fálkum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.3.2015 kl. 05:13

11 identicon

Sammála Gunnar.
Verst að þessi Svandísar-tilraun hefur valdið fjölgun á ref um land allt, þar sem honum var haldið í lágmarki.
Svo er það refur-minkur dæmið. Þeir þrífast að hluta á því sama, en minkurinn virðist vera hræddur við ref, og hér í Hvolsvelli hefur orðið vart við hann í þéttbýli. Það er ekki langt síðan ég sá til hans síðast.
Báðir leggjast á fuglaflóruna, þannig að það er best að fara að hreinsa haglarann....

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 10:31

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Jón Logi: Svandísar-tilraun?

Höskuldur Búi Jónsson, 18.3.2015 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband