Klæðnaðurinn og svefnpokinn ráða úrslitum.

Frásagnir fólks af því hvernig því hefur gengið að sofa í tjaldi eða snjóhúsi í vetrarveðri eru misjafnar. 

Ég er einn þeirra sem fell í afar djúpan svefn ef ég á að hvílast vel. Við það hægir á líkamsstarfseminni og maður verður mjög viðkvæmur fyrir kuldanum, hrekkur stundum upp hríðskjálfandi.

Eftir mörg hundruð nætur í svefni útivið í allt að 20 stiga frosti lærist þó ýmislegt.

Besti lærdómurinn fékkst í ferð yfir Grænlandsjökul 1999. Þá var sofið í tjöldum eða bílum í allt að 3000 metra hæð og 25 stiga frosti.

Arngrímur Hermannsson leiðangurstjóri hokinn af reynslu í þessum efnum, tók heldur betur til hendi í útbúnaði mínum, svo að ég varð að endurnýja hann frá grunni.

Undirfatnaðurinn var höfuðatriði, þurr og loftmikil ull. En svefnpokinn var þó mikilvægastur.

Ég man ekki lengur hvar ég keypti hann, en Arngrímur taldi eina gerð vera langbesta og að ég fengi ekki að vera með í ferðinni nema fá mér slíkan poka.

Ég kveinaði yfir því hvað pokinn væri dýr en Addi sagði, að maður keypti aðeins einu sinni svefnpoka fyrir ævina og að annar poki kæmi ekki til greina.  

Þetta dugði vel og var dýrmæt reynsla.

Þegar ég flutti búferlum á milli hverfa árið 2000 týndist Grænlandssvefnpokinn í flutningunum og ég fór því að nota þann gamla áfram.

Gekk á ýmsu í útilegunum sem voru sumar að vetrarlagi og í miklu frosti á hálendinu og uppi á Vatnajökli og ég afar kulsækinn. 

Fyrir rúmu ári flutti ég aftur búferlum, og þá fann ég Grænlandspokann og byrjaði að nota hann.

Og hvílíkur munur! Svo mikill, að ég dauðsá eftir því að hafa ekki farið í rækilega leit að honum eða finna ráð til að kaupa jafngóðan að nýju, þótt hann væri dýr.  

 


mbl.is Fimm tíma að sofna í snjóhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Mikið værir þú góður ef þú segðir hvaða tegund þessi Grænlandspoki er. Vilt þú gjöra svo vel að gere það?

Hörður Þórðarson, 29.3.2015 kl. 19:45

2 identicon

Þetta kemur heim og saman við mína reynslu. Ég á reyndar enn gamlan Ajungilak Nanok poka, sem reyndist mér vel meðan ég þurfti á slíku að halda. En þessir betri dúnpokar eru fjandi dýrir. Ég keypti þennan að mig minnir 1976

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 29.3.2015 kl. 21:26

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sjálfsagt mál að kíkja á það á morgun hvort tegundarheitið er merkt utan á hann. Sendi þér skýrslu í athugasemd. 

Ómar Ragnarsson, 30.3.2015 kl. 00:39

4 Smámynd: Hörður Þórðarson

Kærar þakkir.

Hörður Þórðarson, 30.3.2015 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband