Fokkerinn og flugvöllurinn eru tengd órofa böndum.

Fyrir um hálfri öld urðu tímamót í flugi á Íslandi með tilkomu Fokker F-27 skrúfuþotnanna sem Flugfélag Íslands tók í notkun og bættist sú framför við tilkomu Akureyrarflugvallar ellefu árum fyrr.

Svo mikið fjölgaði flugfarþegum að eftir á sáu menn, að hefðu þeir vitað af því hve mikil hún yrði, hefði verið hægt að kaupa vélarnar fyrr.

Fyrir tilkomu Fokkersins tók rúma klukkustund að fljúga á milli Reykjavíkur og Akureyrar á DC-3 sem var ekki með jafnþrýstiklefa og varð því oft að fljúga henni inni í ólgandi skýjaþykkni í stað þess að komast upp fyrir það eins og langoftast er raunin á Fokkernum.

Rétt er að geta þess í leiðinni að á þessu ári eru rétt 70 ár síðan stríðinu í Evrópu lauk og Íslendingar gátu byrjað að nota Reykjavíkurflugvöll og flughöfnina í Skerjafirði fyrir innanlandsflug án þeirra takmarkana sem hernaðarnot af vellinum og eignarhald Breta á honum og mannvirkjum hans höfðu haft í för með sér.

Á næsta ári verða því rétt 70 ár síðan Bretar afhentu Íslendingum völlinn með öllum mannvirkjum og er leitun að öðrum eins hvalreka sem rekið hefur á fjörur Íslendinga. 

Nú hillir undir nýja byltingu í innanlandfluginu og flugi til Grænlands og Færeyja og hugsanlega Skotlands og Noregs þegar Dash Q400 skrúfuþotur koma til sögunnar. 

Það væri því nöturlegt ef á sama tíma á að fara að koma innanlandsfluginu út úr Reykjavík eins og virðist vera ötullega unnið að, því miður.

Flugvöllurinn og framfarir í flugi eru tengd órofa böndum, sem ekki mega rofna.  

 


mbl.is Sjáðu Fokkerinn fljúga yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Á næsta ári verða rétt 50 ár síðan Bretar afhentu Íslendingum völlinn...". Hef átt heima alla ævi í námunda við flugvöllinn og kannast ekki við að hann hafi verið afhentur 1966, hlýtur að vera prentvilla fyrir 70 ár, það er hann hafi verið afhentur Íslendingum 1946. Jakobr 

Jakob R. Möller (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 14:00

2 identicon

Rétt Ómar. Skili ekki þennan hamagang gegn flugvellinum. Eitt af því fáa sem gerir Reykjavík þess virði að heimsækja hana.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 14:48

3 identicon

Er Akureyrarflugvöllur ekki nema 50 ára? Ég fór fyrst í flugvél 1962 þá 4 ára frá Egilsstöðum á Hornafjörð. Þá var Egilsstaðaflugvöllur áreiðanlega ekki alveg nýr. Að Egilsstaðir hafi fengið flugvöll löngu á undan Akureyri? Skrítið. Lentu ferðalangar Eyjafjarðar þá á Melgerðismelum til 1965?

Stefán Steinsson (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 16:51

4 identicon

Tiltölulega einfalt er að gúggla flestar vantandi upplýsingar.  Og á heimasíðu ísavía kemur fram að Akureyrarflugvöllur hafi verið tekinn í brúk 1954. Eitthvað skýst semsagt ef því er haldið fram að Blikfaxaræðan og flugvöllurinn Akureyringanna hafi komið í sömu andrá.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 17:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið þessar fljótfærnisvillur, góðir hálsar, og ég leiðrétti þetta nú þegar.

En það breytir því ekki að flugvélar og flugvellir eru tvær hliðar á sama peningnum.  

Ómar Ragnarsson, 9.5.2015 kl. 18:09

6 identicon

Getur þú lesið þýsku Ómar?

Airbus A400M. Der Katastrophenflieger.

http://www.spiegel.de/wissenschaft/technik/airbus-a400m-absturz-tiefpunkt-eines-fehlerbehafteten-projekts-a-1033011.html

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.5.2015 kl. 19:34

7 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Ómar,

Ég hef sennilega farið fyrst í Fokker F-27 þegar foreldrar mínir fóru með mig til Reykjavíkur 1966.  Fyrsta flugmódelið sem ég eignaðist og setti saman var Fokker þríþekja úr fyrri heimsstyrjöld (eins og þessi: http://4.bp.blogspot.com/-9Pw2kaJgUDQ/Thli5Qse4JI/AAAAAAAAAgo/zT_oZrbDnDw/s1600/Fokker+Triplane.jpg nema mín var hvít) og mér hefur alltaf þótt vænt um Fokker síðan!  

Arnór Baldvinsson, 9.5.2015 kl. 20:00

8 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Ég skil Ómar fullkomlega, að vilja halda flugvellinum í Vatnsmýri út í það óendanlega, en samt tekur allt enda. Jafnvel gjafirnar. Hvað gáfu bretar? Malbik. Áttu bretarnir landið? Hvern andsk. gáfu bretar. Fólk tönglast á gjöf breta til íslensku þjóðarinar, eins og þeir hafi átt landið, sem flugvöllurinn er byggður á, er það málið? Hefðu bretarnir átt að taka með sér braggana og malbikið? Hvað er þá málið? Þetta innanlandsflug á að hundskast til Keflavíkur, og það strax(í alvöru merkingu). Væmni íslendinga til breytinga eru sannast sagna hlægilegar, að minnsta kosti tilefni til þess að brosa út í annað:). Eðlilega eru flest einkaflugfólk,eigendur einkflugvéla, staðsett á Stór-RVK svæðinu og vilja bara hafa það eins og það er, er vant því, en sumt verður að breytast.  

Jónas Ómar Snorrason, 10.5.2015 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband