"Aldrei aftur 1918!" kostaði milljónir mannslífa.

Munurinn á uppgjöf Þjóðverja 1918 og 1945 var sá, að 11. nóvember 1918 réðu Þjóðverjar enn yfir öllu landi sínu og voru með sterka stöðu í Austur-Evrópu eftir sigurinn yfir Rússum og friðarsamninga við þá. 

Þeir gátu einbeitt sér að vesturvígstöðvunum 1918 og hófu skæða sókn þá um vorið sem hefði gefið þeim sigur ef herlið Bandaríkjamanna hefði ekki verið komið til aðstoðar Frökkum og Bretum. 

185 herdeildir Breta og Bandaríkjamanna voru þá á vígstöðvunum í viðbót við her Frakka eða meira en tvær milljónir erlendra hermanna.

Þótt þýski herinn væri alls staðar á undanhaldi um haustið og staða hans vonlaus voru það atburðir heima fyrir, uppreisn gegn keisaranum, og uppreisn sjóliða í Kiel, sem tóku alla athyglina, og lýðræðisöflin sem tóku við hrundu þrotabúi keisaradæmisins, fengu á sig þann stimpil að hafa "svikið þjóðina og herinn" þegar hinir miskunnarlausu uppgjafarskilmálar Versalasamninganna voru gerðir árið 1919. 

Lok stríðsins 1l. nóvember þegar heraflinn gafst upp voru nefnilega nefnd "vopnahlé" og það skóp tækifæri fyrir Adolf Hitler til þess að komast til valda undir kjörorðinu "aldrei aftur 1918" sem hefði átt að beinast gegn hernum en var beint gegn þeim, sem urðu að taka afleiðingunum af ósigri hersins.

Hitler aðhylltist hugarfar japönsku Samúræanna og herforingja fornaldar, svo sem hinn rómverska Antoníusar, sem létu fallast á sverð sitt eða fremja kviðristu fremur en að lifa við þá skömm og niðurlægingu sem algerum ósigri fylgdi.

Þegar Hitler gerði Von Paulus að marskálki rétt fyrir uppgjöf 6. hersins í Stalíngrad var það gert til þess að knýja Von Paulus til þess að taka líf sitt, því að fram að því hafði enginn þýskur marskálkur lifað af ósigur.

Von Paulus óhlýðnaðist skipuninni og í bræðiskasti hrópaði Hitler að þarna hefði Von Paulus gert það sem Foringjanum myndi aldrei til hugar koma.

Hitler stóð við þetta þegar hann skaut sig í stríðslok, en öllu verra var, að hann krafðist þess sama af öllum þýskum hershöfðingjum og hermönnum og jafnvel þjóðinni sjálfri og hélt stríðinu áfram í níu mánuði eftir að herir Vesturveldanna brunuðu í átt til Parísar og Þýskalands og öllum mátti ljóst vera að stríðið var gjörtapað.

Það auðveldaði Hitler að framfylgja hinu grimmilega kjörorði sínu að leiðtogar Bandamanna voru einhuga í því að krefjast skilyrðislausrar uppgjafar Japana og Þjóðverja.

Þetta kostaði margar milljónir mannslífa og óheyrilega eyðileggingu sem hefði annar ekki orðið, ef stríðið hefði til dæmis endað í september-október 1944 þegar herir Vesturveldanna voru komnir yfir vesturlandamæri Þýskalands og Rauði herinn inn í Austur-Prússland.

Samúræa hugarfarið réði miklu um gang styrjaldarinnar, líka upphafi stríðs milli Bandaríkjamanna og Japana. Úrslitakostir Bandaríkjanna haustið 1941 á hendur Japönum í krafti miskunnarlauss viðskiptabanns voru þess eðlis, að japönsku herforingjarnir töldu sig aðeins eiga tvo kosti:

Annar kosturinn var sá að ganga að skilmálunum, sem fólust meðal annars í því að draga her Japana frá Kína fjögurra ára herför og landvinningum þar, en ella urðu Japanir olíulausir innan þriggja mánaða vegna viðskiptabanns Kananna. Samkomulag um þessa skilmála voru í augum hershöfðingjanna þess eðlis, að þeir myndu fremja kviðristu.

Hinn kosturinn var að ráðast á Bandaríkin, sem þeir og gerðu 7. desember 1941. 

Aldrei verður óyggjandi úr því skorið hvort rétt var að varpa kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki, hvort mannfall hefði orðið meira eða minna ef það hefði ekki verið gert. 

"Hefðbundnar" loftárásir á japanskar borgir drápu raunar miklu fleiri og ollu miklu meiri eyðileggingu en kjarnorkuárásirnar og eyðilegging Tokyo og helstu borga Japans var aðalástæðan fyrir því að Hirohito keisari tók af skarið. 

Notkun kjarnorkusprengnanna var hins vegar taktisk til lengri tíma litið. Hún sýndi að Kanar voru reiðubúnir að beita þessu ógnarvopni og gaf þeim sterkari aðstöði gagnvart Sovétríkjunum í komandi togstreitu sigurvegaranna. 

Uppgjöfin var ekki alveg skilyrðislaus þótt hún ætti upphaflega að verða það, og kann töfin hjá Bandaríkjamönnum við að beygja sig fyrir þeirri nauðsyn að hagga ekki við keisaranum að hafa kostað ansi mörg mannslíf. 

  

 

  


mbl.is Svona var Berlín í júlí 1945
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband