Ekki "lugar" Mogginn, er það?

"Ferðamenn ryksuga fötin úr hillunum" segir í tengdri fyrirsögn á mbl.is

Nafnorðið ryksuga er búið til úr nafnorðinu ryk og sögninni að sjúga. 

Ryksuga sýgur ryk. 

Hún sugar ekki ryk og hún ryksugar ekki heldur, heldur ryksýgur hún. 

Ferðamenn ryksjúga fötin úr hillunum en ryksuga þau ekki. 

Fluga, sem er blóðsuga, sýgur blóð. 

Flugan sugar ekki blóð og hún blóðsugar ekki heldur, heldur blóðsýgur hún.

Lýgi er nafnorð yfir verknaðinn að ljúga.

Þegar maður lýgur, lýgur hann en lugar ekki.

Fluga er nafnorð, myndað af sögninni að fljúga. 

Maður flýgur en flugar ekki. 

Löngum hefur verið haft á orði að "ekki lýgur Mogginn."

Samt má sjá í fyrirsögn að mbl.is að "lugað" er um það, hvernig sögnin að sjúga er notuð samkvæmt þeim málfræðilegum reglum sem um hana gilda.

En ekki "lugar" Mogginn, er það?  

 


mbl.is Ferðamenn ryksuga fötin úr hillunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

En Ómar, hefur þú aldrei ryksugað? "Best er að ryksuga, eða sópa, áður en skúrað er. Annars verður skúringarvatnið strax drulluskítugt. Bara það eitt að ryksuga léttar heilmikið á andrúmsloftinu innandyra." www.attavitinn.is

Emil Hannes Valgeirsson, 18.6.2015 kl. 18:18

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, ég hef bar ryksogið með ryksugunni. 

Ómar Ragnarsson, 18.6.2015 kl. 18:39

3 identicon

Ég sé það í anda, ryksugan að sjúga ryk og Ómar á fjórum fótum með nefið í teppinu að hjálpa henni. Svo hlakkar mig til þegar Ómar situr til Hveravalla og tvo hringi um Kerlingafjöll meðan flugvélin flýgur. Ómar stundar ekki ryksog, hann stjórnar vél sem gerir það. Ómar fýgur ekki, hann stjórnar vél sem gerir það. En í daglegu tali, þegar maður vill vera skiljanlegur án þess að vera smámunalega nákvæmur, þá kallast þessar athafnir að ryksuga og að fljúga. Smámunalegu nákvæmnina köllum við stofnanamál, og karla sem vita ekki hvað er að ryksuga köllum við annaðhvort sóða eða karlrembur.

Espolin (IP-tala skráð) 19.6.2015 kl. 01:55

4 identicon

Afar finnst mér ólíklegt að Ómar segi:

Húsið ryksaug Helga mín,

og hjálpaði mér að strjúka lín.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 19.6.2015 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband