Endurtekin rökin fyrir kjarnorkuárásunum.

Í heimildarmynd um kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki á Stöð 2 í gærkvöldi voru rökin fyrir árásunum endurtekin án nokkurra mótraka. 

Staðhæft var að með árásunum hefði verið bjargað milljónum mannslífa, sem annars hefði verið fórnað í innrás í Japan og áframhaldandi bardögum annars staðar. 

Einnig var sagt að B-29 vélarnar hefðu komist óáreittar að skotmörkum sínum af því að japanskar orrustuflugvélar hefðu ekki komist upp í jafnmikla hæð og bandarísku flugvélarnar flugu í. 

Þetta er ekki rétt. Japönsku orrustuflugvélarnar komust upp í allt að 6000 feta meiri hæð en B-29. 

Hvers vegna voru þær þá ekki sendar á móti bandarísku vélunum?

Svarið er einfalt: Japanir voru búnir að missa lendur sínar og aðgang að auðlindum utan Japans, sem þeir höfðu unnið í byrjun stríðsins, og bjuggu við slíkan eldsneytisskort, að þeir gátu ekki notað leifarnar af flugflota sínum og skipaflota. 

Landið lá hjálparvana og varnarlaust fyrir fótum bandaríska hersins sem gat sprengt japönsku þjóðina aftur á steinöld án nokkurrar mótstöðu og klárað þann helming japanskra borga, sem eftir var að leggja í rúst. 

Það er rétt að japönsku hermálayfirvöldin hefðu heilaþvegið japönsku þjóðina svo algerlega, til slíks átrúnaðar á keisarann, að hann orðaði það svo í uppgjafarávarpi sínu að þjóðin yrði að sætta sig við það sem væri óhugsandi og umbera það sem væri óbærilegt.

Japanski herinn gafst ekki upp að eigin frumkvæði heldur var það keisarinn sjálfur sem tók af skarið. Hafi það verið að undirlagi hersins, sem það var gert, gerði Samurai hefðin það óhugsandi að hershöfðingjarnir hefðu átt neitt frumkvæði.

En á móti kom, að vegna átrúnaðarins á keisarann urðu hershöfðingjarnir að hlýða skipun hans. 

Að sögn keisarans sjálfs var það mannfallið í brennandi borgum landsins, þar á meðal höfuðborgin Tokyo þar sem 100 þúsund voru drepnir í einni árás, sem réðu úrslitum um það að hann fyrirskipaði uppgjöf.

Þegar í vörn fyrir kjarnorkuárásirnar er sífellt vitnað í bann hersins við uppgjöf er gengið fram hjá einu persónunni sem gat aflétt þessu banni og gerði það að lokum, en það var keisarinn.

Bandaríkjamenn gátu lokið stríðinu án kjarnorkuárása með því að draga úr hernaðarátökum og einbeita sér að hafnbanni og árásum, sem Japanir gátu ekki varist.

Það blasti við að hægt var að svelta þjóðina til uppgjafar og að keisarinn myndi ekki geta varið það fyrir sjálfum sér að láta mannfallið heima fyrir og eyðingu borganna viðgangast lengur.

Japanir höfðu hafið samningaumleitanir áður en kjarnorkuvopnin voru notuð og kjarnorkuárásirnar og innrás Rússa voru fyrst og fremst gerðar til að styrkja stöðu þessara risavelda í fyrirsjáanlegri togstreitu þeirra og keppni um völd að stríði loknu. 

 

 


mbl.is Japanir tvístígandi gagnvart kjarnorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband