Tíu hjóla trukkurinn á Steinum flaug hér um árið.

Þegar ég var tæplega fjögurra ára brá svo við að byrjað var að lesa veðurfregnir í útvarpinu eftir fimm ára hlé, vegna banns Breta við því að Þjóðverjar fengju með þessu mikilvægar hernaðarlegar upplýsingar.

Ég man þetta óljóst en þó einkum það þegar þulurinn sagði: "Rok undir Eyjafjöllum."

Ég spurði afa Ebba hvað þetta þýddi og hann útskýrði fyrir mér að vindurinn þar gæti orðið svo óskaplega mikill að hann yrði miklu meiri en hjá okkur í Reykjavík.

Undir Eyjafjöllum gætu bæði fólk og bílar fokið. Ég fylltist óttablandinni virðingu fyrir Eyfellingum við að hlusta á lýsingu afa.  

Hálfri öld síðar kom svo að því að ég fengi að sjá áþreifanleg ummerki um það hve afspyrnuhvasst getur orðið undir Eyjafjöllum þegar ég fór að bænum Steinum og tók myndir fyrir sjónvarpsfréttir af tíu hjóla trukk, sem hafði tekist á loft í óveðri, þar sem hann stóð skammt frá bænum, flogið í einum áfanga nokkur hundruð metra og hlammað sér niður á túnið án þess að koma nokkurs staðar við á leiðinni.

Útilokað var að neitt annað en Kári hefði flutt bílinn, því að hann kom niður á deigu túni, þar sem engin för sáust.

Máttur skýstrokka og hvirfilbylja getur verið óhugnanlegur.

Árið 1961 vorum við Tómas Grétar Ólason á leið frá Reykjavík upp á Hvalfjarðarströnd til að skemmta þar.

Mjög hvasst var á suðaustan og þegar við vorum komnir nokkur hundruð metra norður fyrir Tíðaskarð, skall á slíkur skýstrokkur, að Grétar stöðvaði bílinn, sem var átta manna bíll af gerðinni International, varla minna en tvö tonn.

Grétar réði ekki við bílinn, sem fór að hoppa á veginum eins og hann væri að losna frá jörðu, og snúast þegar skýstrokkurinn fór yfir hann.

Allt í einu kom hár hvellur þegar húddið á bílum losnaði, hófst beint upp og hringsnerist þegar það skrúfaðist hátt, hátt upp.

Við horfðum sem dáleiddir á þetta út og upp um framrúðuna og varð ekki sum sel þegar húddið kom jafn hratt niður rétt fyrir framan bílinn.

Það var furðulegt að horfa beint niður í vélarhúsið og sjá hvernig festingarnar fyrir húddið höfðu klippst í sundur.

Hinn lóðrétti lyfti- eða sogkraftur var ótrúlegur.     

 

 

 

 


mbl.is Skýringar fundnar á flugi bílanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband