Áður hafa verið hljóðlátar vélar á vellinum.

Mikið var af því látið í dag þegar byltingarvélin Bombardier Q400 vélin nýja lenti, hve hljóðlát hún væri. Hávaði í flugvélum hefur lengi verið helsti ókostur þeirra og þess vegna eru þetta ekki aðeins tímamót hvað snertir stóraukinn flughraða og afköst, heldur einnig hve hljóðlát nýja vélin er bæði inni og úti.

Svo mikið atriði er hávaðinn, að á þeim árum sem færeyska vélin BAE 146 lenti og fór í loftið reglulega á vellinum varð hennar enginn var.

Ef tekið hefði verið viðtal á förnum vegi og fólk spurt hver væri stærsta flugvélin, sem notaði Reykjavíkurflugvöll allt upp í nokkrum sinnum í viku, hefði varla nokkur munað eftir færeysku vélinni, sem var hvorki meira né minna en fjögurra hreyfla þota sem tók allt að 88 farþega. 

Frumgerð vélarinnar, De Havilland Dash 8, kom til greina þegar Fokker F50 vélarnar voru keyptar fyrir aldarfjórðungi.

Helstu rökin fyrir að kaupa Fokkerinn voru að það væri stórlega endurbætt þrautreynd vél, framleidd hjá verksmiðjum sem nytu mikils trausts og væri því öruggustu seljendurnir.

Þetta reyndist rangt. Fokkerinn var hannaður um miðja síðustu öld og engin leið var að sníða af honum helstu gallana, þótt nýir hreyflar, sömu gerðar og aðrar vélar höfðu, kæmu til sögu.

Sem dæmi um ellimörk Fokkersins, þótt þrautreyndur væri, var að ATR 72 skrúfuþotan, sem var þá var orðinn helsti keppinautur F50 ásamt Dash 8, var álíka þung og Fokkerinn fullhlaðin, gat flutt 72 farþega eða rúmlega 20 fleiri en Fokker F50.

Og Fokker verksmiðjurnar reyndust ekki öruggari seljandi en það að þær urðu gjaldþrota nokkrum árum síðar.

Framþróunin í flugi á stuttum flugleiðum mun auka gildi Reykjavíkurflugvallar að mikum mun og einnig samkeppnishæfni skrúfuþotna við þotur á mun lengri flugleiðum en áður.


mbl.is Markar tímamót í innanlandsflugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"... mun auka gildi Reykjavíkurflugvallar að miklum mun ..."

Þú "gleymir" hér að minnast á það "smáatriði" að Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður eftir nokkur ár, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 25.2.2016 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband