Dagskrárgerðarmaðurinn Ólafur Ragnar.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var nýkominn úr námi heim til Íslands 1967 fórum við í ferð fyrir Framsóknarflokkinn norður á Strandir til að taka þátt í héraðsmóti, hann sem ræðumaður og ég sem skemmtikraftur.

Þar hélt Ólafur Ragnar þvílíka ræðu að titringurinn í stöðnuðu Framsóknarsamfélagi sem mótast hafði á tímum Hermanns Jónassonar í aldarfjórðung barst til Reykjavíkur.

Ólafur hafði hrifist af snörpum umræðum og efnistökum í fjölmiðlum á Bretlandi og beittum málflutningi stuðningsmanna Verkamannaflokksins.

Þegar séra Emil Björnsson frétta- og dagskrárstjóri Frétta- og fræðsludeildar Sjónvarpsins var við undirbúningsnám hjá BBC áður en hann tók við stöðu sinni hjá Sjónvarpinu, hreifst hann af snarpri og ágengri fréttamennsku og dagskrárgerð í Bretlandi og innleiddi umræðuþætti á borð við "Á öndverðum meiði" í íslenskt sjónvarp.

Meðal þeirra sem hann réði sem verktaka við slíka þætti voru Vilmundur Gylfason og Ólafur Ragnar og olli framganga þeirra oft miklum og sterkum viðbrögðum, svo miklum, að Emil varð stundum fyrir miklum þrýstingi frá ráðamönnum og valdaöflum að reka þessa menn.

Emil stóð þó alltaf fast á sínu og sagði stundum við okkur fréttamennina: "Þið eigið ekki að klappa neinum með kattarrófunni."

Áður en Ólafur lét til sín taka í sjónvarpi hafði hann gert nokkra þætti í útvarpinu, sem fór svo mjög fyrir brjóstið á þáverandi meirihluta Viðreisnarstjórnarinnar í útvarpsráði, að einn þeirra var bannaður, ef ég man rétt.

Frægasti og umtalaðasti sjónvarpsþáttur Ólafs Ragnars var vafalaust svonefndur bankaþáttur þar sem hann beitti afar hvössum vinnubrögðum í myndatöku og ágengum og miskunnarlausum spurningum til þess að sækja hart að bankastjórum landsins, sem hann stillti upp sitjandi saman í röð líkt og á sakamannabekk.

Mér er enn minnisstætt þegar ég þetta sama kvöld þurfti á skemmta á tveimur skemmtunum "fína fólksins" í Reykjavík, í Oddfellowhúsinu og hjá Frímúrurum.

Hef ég sjaldan á ferlinum lent í öðrum eins ólgusjó reiðs fólks sem virtist vera í sjokki vegna efnistaka Ólafs Ragnars.

Þessir sjónvarpsþættir voru grundvöllurinn af því hvernig þeir Ólafur Ragnar og siðan Vilmundur Gylfason brutust til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.  


mbl.is Fjölbreyttur ferill forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband