Jónas frá Hriflu hætti 1944.

Margir telja Jónas Jónsson frá Hriflu stjórnmálamann 20. aldarinnar þótt aldrei yrði hann forsætisráðherra. 

Jónas átti mestan þátt allra í því að móta flokkaskipun sem hefur í meginatriðum staðið í rétta heila öld. 

1944 var Jónas enn á góðum aldri, aðeins 59 ára, og hafði verið formaður flokksins í 10 ár, en samt var tími hans liðinn sem forystumanns í íslenskum stjórnmálum og Hermann Jónasson tók við formennsku í flokknum. 

Það vekur athygli, að um leið og Sigmundur Davíð fór í frí frá þingstörfum myndaðist alveg nýr andi samvinnu og og samstarfsvilja í þinginu eftir átök og illindi í þrjú ár.  

Alla þingtíð sína hefur Sigmundur Davíð verið maður átaka og skotgrafahernaðar, jafnt í stjórnarandsöðu sem í stjórn, - hefur ekki kosið frið ef ófriður var í boði. 

Á aldarafmælisári sínu þarf Framsóknarflokkurinn á því að halda að Sigmundur Davíð stígi til hliðar líkt og Hriflu-Jónas gerði á sínum tíma. 

Varaformaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur stundað allt aðra og meira traustvekjandi pólitík en SDG, og því myndu margir telja það gott ef flokkurinn og núverandi formaður hans þekktu sinn vitjunartíma. 


mbl.is Sigmundur vill leiða flokkinn áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsókn afar langt er leidd,
ljót er hennar saga,
Sigmundar nú sæng uppreidd,
siðlaus alla daga.

Þorsteinn Briem, 21.8.2016 kl. 02:15

2 identicon

Segir það ekki okkur að einstaklingur sem kemur inn á þing fyrir fjórflokkinn sem  fer í það að rugga bátnum er óæskilegur? Hver kannast ekki við orða tiltækið í umræðunni um íslenska þingmenn langt aftur í tímann að það sé sami rassinn undir þeim öllum nema Sigmundi Davíð ? 

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 21.8.2016 kl. 08:00

3 identicon

Mér sýnist staða Sigmundar Davíðs mun líkari stöðu Harðar Torfasonar um langt árabil. 

Eftir að Hörður sýndi það fádæma hugrekki að koma út úr skápnum og synda þannig á móti straum almannaálits varð honum ekki vært í landinu. 

Það sem þú kallar skotgrafahernað og ófriðaráráttu hjá Sigmundi sprettur líklega af þeim allt of sjaldgæfu eiginleikum sem hann hefur að þora að synda á móti straumnum. Þar telur margur sig eiga um sárt að binda sem ekki þorði og ekki gat.

Það er líklega alveg einstakt hvernig Íslendingar hafa náð frumkvæði í samningum við erlenda kröfuhafa eftir hrun fjármálakerfisins. 

Grikkir máttu t.a.m. þola að skuldir óreiðumanna voru ríkisvæddar með hörmulegum afleiðingum og eins bendir saga Argentínu síðustu áratuga ekki til þess að sjálfgefið sé að litlar þjóðir sleppi heilar úr klóm hrægammasjóða. 

Þessa vinnu leiddi Sigmundur Davíð pólitískt og væri eitt og sér nægt til að halda nafni hans á lofti. 

Því miður hefur vantað fleiri kjarkmenn eins og Sigmund til að stöðva ýmsar vondar ákvarðanir sem eins og taka sig sjálfar, t.d. eyðileggingu Reykjavíkurflugvallar og að hnoða niður spítala við Hringbraut. 

Miklu nær er að tala um vingulsstjórnmál en skynsemispólitík þegar stöðvað er við hverja þúfu og athugað hver hafi nú migið þar (samræðustjórnmál?) í stað þess að sinna sínu verki, efna sín loforð og klára kjörtímabilið.

Ögmundur Jónasson er reynslubolti úr pólitíkinni og kallaði í gær í útvarpsþætti eftir því að menn stunduðu átakapólitík.

Með brotthvari Sigmundar úr pólitíkinni þá sykkjum við dýpra niður í slepju embættismanna eða burókratapólitíkur þar sem enginn er ábyrgur,enginn veit hver tekur ákvarðanirnar, hvers vegna og lýðræðið sjálft fótum troðið.  

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 21.8.2016 kl. 08:46

4 Smámynd: Már Elíson

Orðatiltækið "Sami rass undir öllum, nema Sigmundi Davíð" er reyndar ekki til í neinum bókum um orðatiltæki, Baldvin, og reyndar alveg fráleitt að svo væri. - Það er reyndar "sami rass" undir ykkur öllum hvort sem er Sjálfstæðisflokks-mönnum, Framsóknar-, Samfylkingar eða fyrrverandi öðrum flokkum (nema kannski Pírötum núna) þegar kemur að því að moka rækilega undir sig og sína í skjóli vinavæðingapólitíkur, og er þá einmitt nefndur Sigmundur Davíð með "sama rass" nema heldur meiri og stærri ef eitthvað er. - Sigmundur er einmitt óæskilegur vegna unggæðingsháttar, óæskilegrar klíkumyndunar og græðgi, sem honum er því miður bara í blóð borin eins og alþjóð veit, en er í leiðinni (og loksins)að koma hinum siðlausa og helsjúka Framsóknarflokki fyrir kattarnef. - Því er hann kannski óæskilegur fyrir rass-undir-mokara Framsóknar en gerir okkur pöpulnum og stjórnmálum almennt mikinn greiða. - Hann þarf hinsvegar ekki að óttast að missa einhvern spón úr sínum aski í framtíðinni, svo vel stór er hinn "sami rass" undir Framsóknarmaddömunni. Vel út á báðar hliðar.

Már Elíson, 21.8.2016 kl. 08:47

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skal ekkert draga af því að líkt og Hriflu-Jónas hefur Sigmundur Davíð átt góða spretti í ýmsum málum og sýnt nauðsynlegt þrek til að synda á móti straumnum þegar þess þurfti við. 

Má þar nefna afar sterka innkomu hans í skipulagsmálum miðborga, þar sem hann naut sín sem sjónvarpsmaður. 

Gott hefði til dæmis orðið ef barátta hans fyrir því að minnka stórhýsið sem nú á að rísa við Hörpu hefði borið árangur, - hann var réttur maður á réttum stað í andófinu gegn Icesaveþvingunum Breta og Hollendinga sem fóru langt úr öllu hófi og fleira mætti tína til. 

Ómar Ragnarsson, 21.8.2016 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband