Fyrirfram þekkt firring og oflæti Trumps.

Það er gegnumgangandi stef í lífi Donalds Trump, að hann bíði aldrei lægri hlut fyrir neinum og að hann sé nánast ósigrandi og óstöðvandi. 

Viðskiptasaga hans er vörðuð málaferlum og gjaldþrotum, en þrátt fyrir tap í fjölda mála fyrir dómstólum og þrátt fyrir gjaldþrotin hefur Trump í hvert einasta skipti neitað að viðurkenna tap eða gjaldþrot og ævinlega haldið því fram að hann hafi sigrað glæsilega. 

Þess vegna á afneitun hans og blaðafulltrúa hans á því sem greinilega sést á ljósmyndum, kvikmyndum og öðrum gögnum ekki að koma neinum á óvart. 

Þetta er getur verið hættulegur eiginleiki og ávani ef málin verða stærri og um er að ræða valdamesta mann heims. 

Samfelld sigurbraut er sefjandi og ekki síst þegar neitað er að viðurkenna ósigra.

Þegar áhættuspilið vinnst nógu oft geta menn ekki ákveðið hvenær eigi að hætta því, heldur halda samfellt áfram á sömu braut. Þetta er þekkt fyrirbæri hjá mörgum sem eru áhættufíknir.

Þegar Bandaríkjamenn sáu fram á að ekki væri hægt að vinna sigur í Vietnamstríðinu í kringum 1970 höfðu þeir ekki fyrr beðið ósigur í nokkurri styrjöld.

Dæmi eru um enn meiri velgengni sem endaði að lokum í beiskum ósigri.  

Þar er um að ræða samfellda velgengni 17 sinnum í röð, og þar af var tekin áhætta 16 sinnum í röð.

Þetta áhættuspil, sem vannst í öll þessi skipti, er ferill þýskra, ítalskra og japanskra valdhafa Öxulveldanna á árunum 1935 til 1942. 

Lítum á röðina. 

1935 ákváðu íbúar Saarhéraðsins að sameinast Þýskalandi. 

1935 réðust Ítalir á Abbesíníu og komust upp með það að leggja landið undir sig þrátt fyrir máttlitlar refsiaðgerða Þjóðabandalagsins. 

1936 fóru Þjóðverjar með her inn í Rínarlönd og brutu með því Versalasamninguna, og sagði Hitler síðar, að þá hefði hann tekið stærstu áhættuna. 

l936 gerðu fasistar uppreisn gegn vinstri stjórn á Spáni og unnu sigur 1939 með dyggri aðstoð Þjóðverja. 

1937 réðust Japanir á Kínverja og stofnuðu til skelfilegs stríðs þar til 1945, hernámu stóran hluta Kína og frömdu hrikaleg fjöldamorð.  

1938 var ráðist inn í Austurríki og landið lagt undir Þýskaland. 

1938 hótuðu Þjóðverjar innrás í Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu og þar með stórstyrjöld í Evrópu, en ráðamenn Breta og Frakka glúpnuðu og sömdu um friðsamlegt hernám Þjóðverja. 

1939 lögðu Þjóðverjar allt Tékkland undir sig og gerðu Slóvakíu að leppríki. 

1939 lögðu Ítalir undir sig Albaníu. 

1939 réðust Þjóðverjar á Pólland og lögðu það undir sig og stofnuðu með því til stórstyrjaldar í Evrópu. 

1940 réðust Þjóðverjar á Danmörku og Noreg og lögðu þau lönd undir sig. 

1940 réðust þeir á Niðurlönd og Frakkland og lögðu þessi lönd undir sig á rúmum mánuði. 

1940 fóru Ítalir með her inn í Egyptaland. 

1940 réðust Ítalir á Grikki. 

1941 réðust Þjóðverjar á Júgóslavíu og Grikkland og lögðu Balkanskagann og Krít undir sig. 

1941 réðust Þjóðverjar á Sovétríkin og komust allt austur að Stalíngrad og í náunda við olíulindirnar við Kaspíahaf haustið 1942. 

1941 réðust Japanir á Pearl Harbor og á Fillippseyjar og nýlendur Breta, Frakka og Hollendinga í Suðaustur-Asíu og Indónesíu og eyjaklasa þar austur af í sigurgöngu sem entist til sumarsins 1942.  

Seinni part árs snerist dæmið loks við og að lokum töpuðu Öxulveldin öllu sem þau höfðu unnið. En það gerðist ekki fyrr en sjö árum eftir að sigurgangan hófst. 

Og síðustu þrjú ár styrjaldarinnar neitað Hitler að horfast í augu við að stríðið væri að tapast. Alltaf áttu einhverjar nýjar framfarir í vopnasmíði að snúa taflinu við, og í blálokin neitaði hann að viðurkenna nokkra ábyrgð á því hvernig fór, heldur skellti allri skuldinni á þýsku þjóðina og fylgismenn sína.

Þrátt fyrir að Donald Trump hafi fengið minnihluta greiddra atkvæða svo að nam næstum þremur milljónum, í forsetakosningunum, talar hann ævinlega um "yfirburða sigur."

Þannig hefur hann ævinlega litið á allan feril sinn og dæmalaus velgengni hans í gegnum forsetaframboðið, sigur yfir valdaöflum í Republikanaflokknum, sigur yfir mótframbjóðendum í forkosningunum og loks sigur yfir Hillary Clinton í krafti gallaðs kjörmannakerfis, leiða þessir fjórir sigrar í röð ekki til annars en að efla grunnþátt í skapgerð og atferli hans.

Og að sjálfsögðu byrjar hann nú með látum á fyrsta degi.  

 

 


mbl.is Segir að Trump eigi að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég spá því að Trump hætti stríðsrekstri og stuðningi við Saudi-Araba í Yemen.
Obama hefur notað dróna til að myrða saklaust fólk í yemen með viðbjóðlegasta fólki mannkynsinns Saudi-Aröbum. Margt illt er til innan islam t.d. Boko Harem en þeir eru börn á móti þessum aröbum og Trumb verur að hætta þessum stuðningi við þessa glæpamenn og morðingja ef hann vill ná virðingu annara þjóða.Hann sækist eftir olíunni í Írak en hann mun gefa skít í Afganistann og senda herinn heim.

valdimar jóhannsson (IP-tala skráð) 23.1.2017 kl. 00:50

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Obama og Trump eru eins og svart og hvítt.

Þorsteinn Briem, 23.1.2017 kl. 02:05

3 Smámynd: Mofi

Hérna er ræða Trumps hjá CIA: https://www.youtube.com/watch?v=GMBqDN7-QLg&t=181s

Glöggir menn munu koma auga á það að... frétt mbl á lítið skylt við raunveruleikan; líklegast copy paste frá einhverjum erlendum áróðursveitum. Eitt af skemmtilegu augnablikunum var þegar Trump gagnrýndi fjölmiðla og uppskar mikil fagnaðarlæti með starfsmanna CIA fyrir það.

Ég tek undir með Valdimari, ég held að það verði miklu minni stríðsrekstur hjá Trump en Obama sem hreinlega átti einn friðsælan dag sem forseti.

Mofi, 23.1.2017 kl. 19:07

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er hárrétt að Trump er oflátungur.

Það er á hinn bóginn kjánalegt að velta sér upp úr því hver fékk flest atkvæði á landsvísu og skammast út í kjörmannakerfið. Áherslur frambjóðenda í kosningabaráttu þeirra mótast auðvitað af því kerfi sem við lýði er. Hefði fjöldi atkvæða á landsvísu verið það sem máli skipti hefðu báðir frambjóðendur vitanlega hagað baráttu sinni öðruvísi. Það er einfeldni að ímynda sér að þá hefði Clinton einfaldlega unnið.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.1.2017 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband