Nokkur atriði sem má nefna.

Eftir að hafa hjólað á rafreiðhjóli milli Akureyrar og Reykjavíkur og frá Reykjavík austur á Hvolsvöll liggur ljóst fyrir í mínum huga hvar hættulegast er að er að vera á ferð á hjóli.

Sömuleiðis eftir að hafa farið um alla hluta landsins á vélhjóli.  

Það er ekki endilega á fjölakreinaköflunum á þessum leiðum, sem best þola 90 kílómetra hámarkshraðann, þar sem varasamast er að vera á ferð, heldur á köflum eins og í Svínahrauni þar sem skiptast á kaflar þar sem ein akrein er í hvora átt og þær mjóar og sami 90 kílómetra hraðinn er í gildi.

Ástand vegaxlanna er ömurlegt um allt land. Sums staðar eru kaflar á vegöxlunum, sem eru nothæfir, en hvar sem er má búast við því að þær séu ýmist þaktar möl eða jafnvel drasli, með djúpum skorningum og holum eða hreinlega hverfi skyndilega án nokkurrar aðvörunar. Þetta kemur sér verst þar sem ein mjó akrein er í hvora átt, ekki á fjölakreinaköflunum þar sem svigrúm er miklu meira fyrir bílana þegar umferðin er ekki þeim mun meiri.  

Meira að segja á höfuðborgarsvæðinu eru svona aðstæður, til dæmis á Reykjanesbraut á leiðinni í norður frá Hafnarfirði. 

Ég var síðast í dag á ferð á léttu vespuvélhjóli á þjóðvegahraða fram og til baka milli Selfoss og Reykjavíkur og þótt vitað sé að hraðinn drepi vélhjólamenn frekar en jafnhraðskreiða bílstjóra, er skásta öryggið oft fólgið fyrir mann á vélhjóli að vera á minnst 90 kílómetra hraða frekar en að fara eitthvað hægar og kalla á framúrakstur bíla.

En á vélhjólunum eru það ekki fjölakreinaköflarnir sem eru varasamastir vegna hjólsins, heldur 2 plús einn kaflarnir í sitthvora átt í Svinahrauni þar sem aka þarf á einni akrein með vírariðsógnina á aðra hönd og ónothæfrar vegaxlar á hina, auk sumra annarra kafla þar sem aðeins er ein akrein í hvora átt.

Á fyrrnefndu köflunum í Svínahrauni koma bílarnir oft aftan að manni, jafnvel þótt maður sé á 90, og sumir þeirra eru langt yfir löglegu hraða þegar þeir æða alveg upp að manni aftan frá og beita þrýstingi, gera sig líklega til þess að troða sér framhjá manni og þvinga mann út á vafasama eða jafnvel ónothæfa vegöxl.

Oftast eru þeir, sem eru á stærstu og breiðustu bílunum, í þessum ham, sem gerir framúrakstur erfiðari og vandasamari en ella. 

Hinn kosturinn sem þessir freku bílstjórar ota að manni, er að vélhjólamaðurinn brjóti reglur um hámarkshraða, helst jafn gróflega og þessi taugatrekktu eða hraðafíknu bílstjórar sjálfir gera.

Það er áberandi hve mörgum bílum er ekið langt yfir hámarkshraða á "fjölakreina" leiðinni um Miklubraut, Ártúnsbrekku og Vesturlandsveg. 

En sérkennilegt er ef gera á þessi lögbrot að ástæðu fyrir því að setja einhverjar sérreglur um notkun hjóla þar miðað við mjórri vegi með eina akrein í hvora átt, eða eru 2 plús 1, sem eru með sama hámarkshraða eða jafnvel hærri hámarkshraða.

Þess má geta, að það hefur verið lærdómsríkt að fara að nýju út á götur og vegi á hjólum, því að á unglingsárum mínum hjólaði ég í langar ferðir, allt upp í Norðurárdal í Borgarfirði og austur fyrir fjall, og margt hefur breyst síðan þá, þegar þjóðleiðirnar voru mjóir malarvegir.  

 

 

 


mbl.is Furða sig á skýrslu RNSA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ómar minn ég hjólaði á þjóðvegunum þegar ég var unglingur svo tóku skellinöðrur við og síðan mótorhjólin og lærði um þessar hættur á meðan þú varst að skemmta/syngja út um allt land.

Veistu síðan þá hef ég ekið á bílum í 60 plús ár og séð hvernig það er að vera á reiðhjólum í umferðinni bæði í borg og út á landi. Ég hef örugglega lært margfalt meira en þú á þessari ferð norður en ég veit að þú vissir allt það sem þú lærðir áður en þú fórst þessa túra. Ekki satt svo kannski varst þú að þessu til að komast með þetta í blöðin og líklega til þess að vekja athygli á þessu. Í raun á að banna öll reiðhjól á þjóðvegum   

Valdimar Samúelsson, 18.3.2017 kl. 11:27

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Gallinn við vegin í Svínahrauni er sá að þar ákváðu menn á síðustu stundu að segja 2+1 veg á vegkafla sem var upphaflega ætlaður fyrir 1+1 veg og til að koma því fyrir var vegaöxlunum fórnað og aðstaðan allt og þröng fyrir svona veg. Þetta hefur leitt til þess að það er komið óorð á 2+1 vegi hér á landi sem er byggt á misskiningi vegna þess að fyrsti vegurinn var ekki rétt hannaður 2+1 vegur.

En ég er sammála þér í því að oft eru fjölakreina vegirnir öruggari en þröngir vegir með eina akrein í hvora átt vegna þess að svigrúm ökumanna er meira til að víkja frá hjólreiðamönnum þegar þeir fara framúr þeím. Á þröngum þjóðvegum stafar hjólreiðamönnum oft mikil hætta af ökumönnum með aftanívagna sem eru breiðari en bíllinn og því átta þeir sig og ekki á því hversu nálægt hjólreiðamanninum aftanívagninn fer. Þetta er eitthvað sem Umferðastofa mætti taka til skoðunar.

Sigurður M Grétarsson, 18.3.2017 kl. 11:56

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar ég var 10-14 ára strákur í sveit fyrir norðan hjóluðum við unglingarnir í sveitinni á hinum mjóa malarvegi sem kallaðist Norðurleiðin og ekki er vitað um eitt einasta óhapp hjólreiðamanna þarna. 

Ef einhvern tíma hefði átt að banna hjólreiðar á þjóðvegum var það á þessum árum. 

Með hjólaferðum mínum síðustu ár hef ég verið að vekja athygli á tvennu: "Orkuskipti - koma svo!" Og:  "Orkunýtni - koma svo!" 

Ómar Ragnarsson, 18.3.2017 kl. 13:15

4 identicon

Nú getur þú bætt við: "Orkuskipti - koma svo!", "Orkunýtni - koma svo!" og "Hjólreiðar - jarða svo!"

Hjólreiðar eru hættulegar og verða banvænar í hraðri umferð. Að meðaltali þarf að spelka og plástra þrjá hjólreiðamenn á dag á Landspítalanum. Hjólreiðamenn telja sig almennt ekki þurfa að fara að umferðarlögum. Og því miður fá þeir oft sömu virðingu og tillitssemi frá ökumönnum bíla og þeir sjálfir sýna umferðarreglunum.

Við verðum að reikna með því að á sumum vegum sjái bílstjórar ekki hjólreiðamenn og munu ekki ná að hægja á eða stöðva til að afstýra slysum. Sættum okkur við dauða og örkuml hjólreiðamanna eða bönnum þeim að leggja sig í þessa hættu.

Einhver spurði hvar draga ætti línuna. Á að heimila fólki með barnavagna að tölta Miklubrautina og Ártúnsbrekkuna? Sum farartæki eiga ekki heima í almennri umferð.

Vagn (IP-tala skráð) 18.3.2017 kl. 17:15

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það eru til svartir sauðir meðal allra hópa og líka hjólreiðamanna. Það eru líka ökukenn sem ekki virða umferðareglur og það er í raun mun verra því afaleiðingarnar fyrir aðra en þá sjálfa geta orðið mun verri en þó hjólreiðamenn brjóti umferðareglur þó það vissulega réttlæti ekki brot hjólreiðamanna á umferðareglum.

Hjólreiðar eru ekki hættulegar. Það er fjórum sinnum hærri tíðni banaslysa miðað við tíma iðkunar í knattspurnu en hjólreiðum, fimm sinnum hærri í frjálsum íþróttum og sjö sinnum hærri í sundi samkvæmt breskri rannsókn. Slysatíðni á hvern kílómeter í þéttbýli er lægri hjá hjólreiðamönnum en ökumönnum yngri en 50 ára. Það er því þvæla að hjólreiðar séu hættuelgar.

Maður með barnavagn er ekki ökutæki eins og hjólreiðamaður og því ekki neinu saman að jafna. En reyndar er heimilt að ganga á götum svo það er ekki bannað.

Ef hjólreiðamönnum stafar ógn af bílum þá þarf að gera eitthvað til að gera bílana hættuminni eða búa til aðra lausn fyrir hjólreiðamenn. Reyndar er það svo að á fæstum vegum eiga ökumenn í vændræðum með að sjá hjólreiðamenn ef þeir hafa athyglina í lagi.

Það er ekkert sem réttlætir að ökumenn fái einhver einkaafnot af vegum meðan ekki eru til aðrar jafn góðar lausnir fyrir aðra ferðamáta. Meðan svo er ekki verða ökumenn að sætta sig við að þeir þurfi að deila götunum með öðrum ferðamátum.

Sigurður M Grétarsson, 18.3.2017 kl. 18:16

6 identicon

1000 slys á ári í Reykjavík sem þurfa læknisaðstoð segja okkur að hjólreiðar séu hættulegar. Sama hvort finna megi eitthvað hættulegra. Og ekki er hægt að miða við staði þar sem reglur eru strangari og þeim framfylgt.

Barnavagn, fótstiginn leikfangabíll og reiðhjól af öllum stærðum eru ökutæki sem ekki eiga heima í allri umferð.

Og bifreiðanotendur eru þeir einu sem eru skattlagðir sérstaklega og greiða fyrir notkun, viðhald og byggingu umferðarmannvirkja. Það eitt er næg réttlæting fyrir forgangi.

Vagn (IP-tala skráð) 18.3.2017 kl. 19:31

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir sem aldrei aka bifreiðum á götum og vegum greiða einnig fyrir gerð þeirra og viðhald með sköttum sínum, til að mynda virðisaukaskatti, tekjuskatti og útsvari, enda eru þar miklir vöruflutningar.

Ekki mæðir nú mikið á vegum og götum vegna hjólreiða og því fleiri sem hjóla því minna viðhald þurfa götur og vegir.

Allir nota gangstéttir og mikill og dýr innflutningur á bensíni sparast með notkun reiðhjóla í stað bensínbíla. Og engin mengun er vegna hjólreiða.

Þar að auki eru göngu- og hjólreiðastígar margfalt ódýrari og þurfa miklu minna viðhald en vegir og götur, Barna-Vagn.

Þorsteinn Briem, 18.3.2017 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband