Óhjákvæmilegir "fylgifiskar" virkjana?

Það átti við um allar vatnsaflsvirkjanir á síðustu öld, að lítt eða ekki var fjallað um neikvæð umhverfisáhrif þeirra. 

Það var eðlilegt í ljósi þess að fram til 1970 var um það að ræða hvort Íslendingar vildu eiga aðgang að eigin raforku til heimila sinna og fyrirtækja eða ekki. 

Hvergi nokkurs staðar minnist ég þess til dæmis að hafa séð orð um það í fjðlmiðli að með tveimur fyrstu Sogsvirkjununum var eyðilögð önnur af tveimur rómuðustu laxveiðiám landsins, og að laxinn í Soginu hefði af mörgum verið talinn sá allra flottasti á landinu. Stífla í Fljótum

Össur Skarðhéðinsson líffræðingur sagði eitt sinn að gerð Steingrímsstöðvar efst í Soginu hefði verið slíkt umhverfisslys gagnvart silungnum í Þingvallavatni, að vel væri athugandi að leggja þá virkjun niður. 

Jakob Björnsson nefndi það, að Skeiðsfossvirkjun í Fljótum kæmist á lista þeirra tíu virkjana í heiminum, sem hefðu flæmt flest fólk frá heimilum sínum, miðað við orkuna sem var nýtt. 

Sökkt var sjö bæjum þar sem bjuggu 50 manns þegar sú virkjun var gerð, en á þeim tíma var ekki um annan möguleika að ræða til að sjá Siglufirði fyrir íslenskri raforku. Enn í dag er ekki orðið of seint að hleypa úr því lóni og laða fram hið gamla umhverfi, sem var ekki, eins og haldið er fram, án stöðuvatns, heldur með tveimur fallegum stórum tjörnum í ánni, sem liðaðist fagurlega um dalbotninn með grænar grundir á allar hliðar og með hin fögru fjöll Tröllaskagans sem umgjörð. 

Myndin hér að ofan er máluð eftir ljósmynd af þessu svæði, Stíflu í Fljótum, áður en því var sökkt. Eftir að dreifikerfi raforku kom til sögunnar, er ekki lengur um að ræða að hafa rafmagn eða ekki rafmagn. Vel mætti athuga, hvort starfrækja mætti virkjunina áfram á sumrin, án þess að sökkva þessu fallega svæði. 

Ég skoðaði svæðið gaumgæfilega vorið 2004 þegar mikill hluti lónsins var á þurru, og enn mótar nægilega vel fyrir landslaginu, svo sem lækjafarvegum, til þess að hægt sé að endurheimta það. 

Með tilkomu Búrfellsvirkjunar urðu síðan tímamót því að þá tók við ný nálgun, að virkja allt sem virkjanlegt væri fyrir erlend stórfyrirtæki sem flyttu gróðann úr landi eftir kúnstarinnar reglum. 

Hámark þess er ákvæði í sölusamningi Alcoa á Reyðarfirði, sem setur þann samning ofar íslensku stjórnarskránni að því leyti, að ákvæðið bannar Alþingi í 40 ár að hrófla við lögum um þak á skuldsetningu fyrirtækja. 

Umrætt ákvæði gerir Alcoa kleyft með fléttu í anda Ólafs Ólafssonar að sleppa við að borga tekjuskatt af Fjarðaráli.  Þessi ívilnun hefur þegar numið mörgum tugum milljarða króna. 

Þrátt fyrir að í grunninn séu virkjanir bergvatnsáa hreinar og umhverfisvænar, er engin á svo hrein, að ekki myndist set í miðlunarlónum hennar, til dæmis í vorleysingum, þegar árnar verða gruggugar. 

Á endanum eyðileggjast miðlunarlónin nema að skolað sé út úr þeim og það er ástæðan fyrir því sem nú virðist hafa gerst í Andakílsá. 

Þessi skolun er þó hátíð miðað við reglubundna útskolun úr miðlunarlóninu efst í Jökulsá í Fljótsdal að ekki sé nú talað um hrikalegasta drulludæmi veraldar, sem felst í því að tíu milljón tonn hið minnsta setjast að í Hálslóni á hverju ári með óheyrilegustu neikvæðu óafturkræfu umhverfisáhrifum, sem möguleg eru hér á landi. 

Á endanum sitja kynslóðir framtíðarinnar uppi með ónýta virkjun og aurfylltan dal, sem var 180 metra djúpur og 25 kílómetra landur. 

Eru nýjar sandeyrar í Andakílsá næsta smáar í þeim samanburði. 

Þeir, sem sumum hefur þótt henta að kalla "umhverfisfasista", sem "væru á móti rafmagni" og "á móti atvinnuuppbyggingu", hafa aldrei lagst á móti þvi að íslensk vatnsorka væri nýtt fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, heldur aðeins reynt að hamla gegn svo skefjalausri og takmarkalausri stóriðjutrú, að við eigum að stefna að því framleiða 20 sinnum meiri raforku en við þurfum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki og fórna fyrir það öllum þeim einstæðu náttúruverðmætum sem landið býr yfir. 

Í gær var upplýst að hvergi í veröldinni væri jafn mikil og vaxandi atvinnuþátttaka og hér á landi. Og við hvað er hún? Jú, mest vegna ferðaþjónustu, við það sem náttúruverndarfólk var hæðst að fyrir að voga sér að nefna, sem sé "eitthvað annað" en stóriðju. 

 


mbl.is Óttast umhverfisslys í Andakílsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband