Hve lengi á "GAGA", ("MAD"), að storka lögmáli Murphys?

Lögmál Murphys segir að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, muni það gerast fyrr eða síðar.

Þetta gildir um smátt sem stórt. Dæmi:  Ef hægt er að skrúfa skrúfu vitlaust, verður það gert fyrr eða síðar.

Dæmi af þessum toga, "smáatriði" á borð við eina skrúfu eða einn bolta, hafa kostað hundruð manna lífið í flugslysum.  

Tíminn vinnur gegn þeim sem ekki vilja taka mark á þessu og þetta liggur alveg ljóst fyrir. 

Og þó.  Ekki hjá öllum. 

Ekki hjá þeim leiðtogum völdugustu ríkja heims sem hafa í meira en hálfa öld haldið allri heimsbyggðinni og lífinu á jörðinni í spennu vegna þess, að þeir hafa taka augljóslega ekki mark á lögmáli Murphys þegar um er að ræða að hefja kjarnorkustríð fyrir slysni. 

1983 var það einn Rússi, sem upp á eigin spýtur kom í veg fyrir að Sovétríkin svöruðu kjarnorkuárás frá Bandaríkjunum, sem kom fram á tölvum í tengslum við ratsjár Rússa og reyndist stafa af bilun. 

Nú gerist það að einn maður ýtir á vitlausan hnapp og íbúar Hawai, ein og hálf milljón að tölu, fá skipun um að fara samstundis í skjól vegna yfirvofandi eldflaugaárásar.  Væntanlega vegna þess að Kim Jong-un sé búinn að "ýta á hnappinn sinn."

Viðbragðstíminn vegna raunverulegrar stórárásar af þessu tagi er svo stuttur, talinn í mínútum, að stórhætta er á því að þeir, sem fá hina röngu aðvörun, telji sig tilneydda að svara í sömu mynt. 

"Ýtti óvart á hnapp" er skýringin núna. Og þjóðhöfðingi íbúa Hawai-eyja hefur nýlega stært sig af því að hans "hnappur" sé sá langsstærsti í heimi, miklu stærri en hnappur Kim Jong-un, sem myndi verða notaður til að ráðast á Bandaríkin.

Og í Moskvu situr maður með álíka stóran hnapp og nú er hafinn metingur vegna þess að hnappurinn í Washington þurfi að vera áberandi stærri en hnappurinn í Moskvu. 

Þessir tveir hnappar bera ægishjálm yfir alla aðra. Áætlað er að "fælingin" vegna tilveru þeirra byggist á því að hvor þjóðin um sig geti gereytt hinni fimm sinnum! 

En nú ku það ekki vera nóg, bráðnauðsynlegt er talið vestra að sú þjóð geti eytt hinni minnst sex sinnum!   

Þetta er náttúrulega bilun, sú langstærsta í sögu mannkynsins. 

Hve lengi halda menn, að hægt sé að komast upp með það að storka lögmáli Murphys?

Af hverju er ekki fyrir löngu búið að vinda ofan af þessu brjálæði? 

GAGA, - Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra?

MAD, - Mutual Assured Destruction?


mbl.is Sendu út eldflaugaviðvörun fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hann ýtti ekki á hnappinn, þótt svo hann væri stærri en hjá Kim Jong Un.

Einkennilegt hvernig djöflast er í honum Trump sem svarar honum Kim fullum hálsi sem er raunveruleg ógn, maður sem nánast óáreyttur hefur fengið að þróa kjarnorkuflaugar á sama tíma verið með hótanir.

Fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna og leiðtogar Evrópusambandsins, Kína, Rússar og Japanir hafa sofið á sínu græna eyra og leyft þessum brjálæðingi vaða áfram og svo þegar Trump vill gera eitthvað til að stoppa hann þá er hann álitinn geðveikur! 

Já það þarf að vinda ofan af þessu brjálæði og stoppa Kim Jong Un áður en það verður um seinan.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.1.2018 kl. 09:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einkennilegt er að ekki megi minnast á mennina, sem eru með lang stærstu kjarnorkuhnappana og fyrirrennara þeirra sem komu MAD / GAGA af stað. 

Núna eru níu menn í heiminum, æðstu menn Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands, Frakklands, Ísraels, Pakistans, Indlands, Kína og Norður-Kóreu, sem hver um sig getur hafið gereyðingu lífs á jörðinni með því að ýta á hnapp. 

Tvívegis hefur bilun í aðvörunarkerfi orðið til þess að hefja atburðarás, sem hefði getað orðið óviðráðanleg. 

Og það má ekki anda á þetta alheimskerfi án þess að menn fari ofan í gömlu Kalda stríðs skotgrafirnar. 

Þess má geta að Trump er maðurinn, sem fyrstur minntist á geðveiki manns, sem andaði á hann, Steve Bannon, sem skóp hugmyndafræði Trumps og þekkir hann betur en flestir aðrir. 

Ómar Ragnarsson, 14.1.2018 kl. 09:48

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Lausn Ómars er líklega sú að Trump afleggi sinn hnapp einhliða oig hætti að röfla í Kim Jong Un aða Sovétmönnum. Þá verða engin mistök á Hawaí. Þvílík snilld.

Halldór Jónsson, 15.1.2018 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband