Strax í dag. Vilji allt sem þarf. Pokasjóður.

Einu sinni voru engir plastpokar og samt voru engin vandræði við búðaborðin. Mörg ráð gegn ógn plastmengunar eru tiltæk fyrir okkur öll strax í fyrramálið. 

Við blasir að "á skal að ósi stemma" eins og sagt var forðum, það er, að stöðva útbreiðslu plastsins við upptök þess, í framleiðslunni sjálfri. 

En plastið er svo ótrúlega lúmsk framleiðsluvara. Sést best ef maður svipast um og sér hvernig bílar eru nánast klæddir plasti og búnir til úr plasti að stórum hluta. 

Framboð plastsins blasir hins vegar við í verslunum. 

Og hver og einn ætti að íhuga, hvort það þurfi nokkuð að kaupa þá plastpoka, sem við kaupum sífelld. 

Fyrir nokkrum árum datt mér í hug að gera plastpoka fjölnota, og tók að gamni mínu mynd af einum plastpokanum, sem entist sem aðalburðartækið í nokkur ár og bar þess sannarlega merki eins og sjá á mynd af honum, sem ég ætla að setja hér inn. Plastpoki 2

En auðvitað þarf miklu meira en til ef á að ná á viðunandi árangri á þessu sviði og nokkrum dögum fyrir andlát sitt, gaf Edda Heiðrún Backmann, sú mikla hugsjónakona, mér umhverfismildan og sterkan poka sem fyrir ótrúlega tilviljun passaði svo vel á stýrið á vespuhjólinu mínu, að hann hefur fylgt mér síðan, meira segja alla hringina þrjá um Ísland, sem farnir hafa verið á þessu hjóli.  

Með því að afleggja alveg plastpoka og hafa í staðinn meðferðis fjölnota poka úr endurnýjanlegum eða vistvænum efnum, er hægt að byrja í ranni hvers manns strax í dag. 

Huga þarf vel vali á efni í stað plastsins. Þannig þola skógar jarðarinnar ekki einhliða ásókn í timbur. Plastpoki 1

Á sínum tíma var svonefndur Pokasjóður stofnaður til þess að draga úr plastpokanotkun og láta innkomið fé ganga til umhverfismála. 

Síðan var því breytt þannig að féð gengur til líknarmála og er það út af fyrir sig hið besta mál. 

En þegar hraðvaxandi ógn plastmengunarinnar er skoðuð vaknar spurningin um hvort hugsunina á bak við Pokasjóð megi endurvekja og láta eitthvert gjald renna beint til þess að stemma stigu við plastæðinu, sem ríkir á fjölmörgum sviðum. Poki Eddu Heiðrúnar

Það ætti til dæmis ekki að vera leyfilegt að láta það viðgangast að kaupa plastpoka í verslunum, nema gegn borgun hás gjalds eða að viðskiptavinir komi sjálfir með sína poka.  


mbl.is „Hafið á það inni að við tökum slaginn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar - þegar farið er í bókasafn, þá er ekki hægt að setja bækurnar bara í taupoka og fara með þær út í rigningu, það verður að verja þær. Þess vegna selja bókasöfn plastpoka, en þá má auðvitað endurnýta. Sama gildir t.d. um fatakaup, það er óskemmtilegt að flíkin sé gegnvot þegar heim er komið, en það má hafa poka með sér. Það eru nefnilega ekki allir sem fara með vörur beint út í bíl, sum okkar þurfa að fara með þær gangandi eða í strætó. Hér áður fór fólk með stórar lokaðar töskur í þessum erindum, það yrði að taka það upp aftur ef plastið yrði bannað, en þær voru nú sjaldnast alveg regnheldar.

Ingibjörg (IP-tala skráð) 14.1.2018 kl. 19:06

2 identicon

Hver er þessi "ógn plastmengunar"? Nú er plast ekki eitrað. Þú gætir þér að skaðlausu etið plast á hverjum degi og tvisvar á sunnudögum. Plast er mest sjónræn mengun en ekki ógn.

Hvers vegna er verið að gera úlfalda úr mýflugu? Hvers vegna er verið að búa til ímyndaða ógn þar sem ekki er nein alvöru hætta og ekkert raunverulegt vandamál?

Þetta minnir svolítið á það þegar bjarga átti regnskógunum með því að spara og endurvinna pappír. En pappír er nær engöngu unnin úr viði ræktuðum til pappírsgerðar í Kanada og Finnlandi. Þar eru engir regnskógar. Og enginn pappír er framleiddur úr þeim trjám sem vaxa í regnskógum.

Getur verið að þær milljónir dollara sem "baráttuhópar" safna séu hin raunverulega ástæða "ógnarinnar"? Athygli vekur að það fyrsta sem blogghöfundi dettur í hug eru auknar álögur, skattlagning, á almenning. "Ógnin" er svo mikil að hann telur það réttlætanlegt. Því má aftur spyrja: Hver er þessi "ógn plastmengunar"? 

Gústi (IP-tala skráð) 16.1.2018 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband