DRAUMUR JÓNASAR OG STJÓRNARSÁTTMÁLINN.

Jónas Hallgrímsson, fjárvana og heilsulítill náttúrufræðingur fæddur í afskekktasta og fátækasta landi Evrópu átti þann draum stærstan að ljúka við rannsókn á náttúru lands síns. Hann lifði ekki að sjá þann draum rætast. 162 árum síðar gekk annar stærsti flokkur Íslands  til kosninga með stefnuskrána Fagra Ísland þar sem settur var fram draumur um metnaðarfulla og ítarlega rannsókn á náttúruverðmætum landsins.

Þessi gamli draumur fátæka náttúrufræðingsins hefði átt að geta ræst hjá þjóð hans, sem nú var orðin ein af þeim ríkustu í heimi, jafnvel þótt vitað væri að verkið gæti tekið 5-10 ár.

Þetta hefði átt að vera auðsótt mál því að Samfylkingin þurfti að ganga til stjórnarsamstarfs við flokk sem auglýsti í kosningabæklingi að hann hefði alla tíð verið og væri enn forystuafl í náttúruvernd á Íslandi.

Í stjórnarsáttmála þessara flokka sést vel hvílík öfugmæli voru höfð í frammi í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins, sem alla tíð hefur í raun aðeins með semingi fallist á að rannsaka aðeins sáralítinn hluta íslenska náttúru út frá virkjanasjónarmiðum.

Er skemmst frá því að segja að aðeins hluta af kosningastefnu Samfylkingar má greina í kafla stjórnarsáttmálans um umhverfismál, þ. e. að ljúka við næsta áfanga rammaáætlunar um virkjun vatnsafls og jarðvarma árið 2009 sem hvort eð var stóð allltaf til að klára.

Ekki er orð að finna í sáttmálanum um þá ítarlegu rannsókn sem Samfylkingin lagði til á náttúru Íslands og verðmætum hennar út frá henni sjálfri og öðrum sjónarmiðum en þeim sem snerta virkjanahagsmuni.

Hefðu alhliða niðurstöður slíkrar rannsóknar og altækrar úttektar á íslenskri nátturu og verðmætum hennar legið fyrir þegar áformað var á sínum tima að virkja jökulsárnar á NA-landi hefðu menn getað séð fyrir sér stórkostlega möguleika á því að nýta svæðið til ferðamennsku og áttað sig á einstæðu gildi þess sem ekki var hægt að meta til fjár.

Hvað skyldi listaskáldið góða þurfa að liggja mörg ár eða áratugi í gröf sinni á Þingvöllum þar til draumur hans verður að þeim veruleika sem er sæmandi einni af ríkustu þjóð heims?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Mér finnst eins og það séu allir að gleyma glæpnum gagnvart Þjórsá. Núna liggur fyrir að "Fagra 'Island" var bara huggulegheitaplagg miðjumoðsvellings sem langaði til að taka við af Framsókn. Það þarf að stöðva þennan glæp sem Landsvirkjun er búin að fela bak við öll sín önnur plön. Þessar virkjanir eru greinilega skiptimynt hjá Samfylkingunni og það þarf að stöðva það að þessi svokallaði jafnaðarflokkur verði umhverfisslysahækja auðvaldsins. Ég hefði aldrei trúað því að ráðherrastólar hefðu svona mikil áhrif á stefnuskrár flokka. Ef mitt atkvæði hefði farið til vellingsins væri ég að naga handarbök. Mín og allra í kringum mig.

Ævar Rafn Kjartansson, 26.5.2007 kl. 02:27

2 Smámynd: Tryggvi Þórhallsson

Er ekki allt í lagi með ykkur. Það væri vissara að búa til tímavél og senda ykkur "öfganáttúruverndarsinnana" aftur um svona 2000 ár svo að þið getið komist að því hve mikils náttúran er virði þegar ekki má slíta gras af jörðinni til þess að gera lífið ögn bærilegra.

Tryggvi Þórhallsson, 26.5.2007 kl. 18:45

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Tryggvi minn....

öll þessi þreyttu rök um hvort við eigum bara að týna fjallagrös, hvernig við lifum af væntanlegt atvinnuleysi og allt hitt gasprið í þröngframsóknarhugum ykkar (brj)álæðissinna er orðið þreytt. Ég skil eldra fólk sem heldur að allt í einu hellist atvinnuleysið yfir enda búið að upplifa það. En þessi málaflutningur er aumkunarverður á sama tíma og við þurfum að flytja inn tugþúsundir fólks til að standa undir atvinnulífinu hér.  Orka, vatn og ósnert náttúra hækka hraðar í verði en öll hlutabréf heimsins ef því er að skipta.

Hugsaðu út fyrir kassann sem þú hefur staðsett þig í og uppgötvaðu að lífið er ekki  stefnuskrá stjórnmálaflokks.

Ævar Rafn Kjartansson, 3.6.2007 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband