ÓHJÁKVÆMILEG ÞRÓUN?

Var að koma fljúgandi frá Ísafirði í frábæru veðri og fór lágt yfir Breiðafjarðareyjar. Yst í firðinum er stök smáeyja eða öllu heldur hólmi, Oddbjarnarsker, þaðan sem gerðir voru út 70 bátar fyrir rúmri öld og höfðust þá um 200 manns við í hólma þessum í hvaða vetrarveðri sem var. Svipaðir útgerðarstaðir voru þá allt í kringum landið svo sem Verdalir, Fjallaskagi, Staðareyrar, Bjarnarey o.s.frv. Maður undrast þau kjör sem menn létu yfir sig ganga til að hafa í sig og á fyrir aðeins öld.

Síðan gerðist nokkuð sem menn telja hafa verið óhjákvæmilega þróun, að þessir útgerðarstaðir sem byggðu á nálægð við fiskimiðin, lögðust af, bátarnir og fiskiskipin stækkuðu og útgerðín fluttist inn til þorpa og kaupstaða sem risu allt í kringum landið og voru ekki eins afskekktir og gömlu útgerðarstaðirnir og buðu upp á hafnarmannvirki.  

Hafnarmannvirkin urðu forsenda útgerðar. Það var til dæmis skortur á þeim sem varð öðru fremur til þess að Hornstrandir fóru í eyði um miðja 20. öld, en þar hvarf fólk reyndar frá umtalsverðum eignum án þess að fá nokkrar bætur fyrir.

Nú, þegar öld er liðin frá því að hætt var að róa frá Oddbjarnarskeri, er svipuð þróun í gangi, og fer ekki fram hjá neinum sem kemur í heimsókn til Ísafjarðar, Flateyrar og Bolungarvíkur, þótt erindið sé fermingarveisla í Bolungarvík. Á þessum slóðum er fólk felmtri slegið yfir því sem er að gerast.

Þótt flestir eigi um sárt að binda vegna rekstrarstöðvunar Kambs á Flateyri voru það jafnvel enn verri fréttir á sínum tíma þegar Marel flutti hátæknistörf frá Ísafirði, einmitt þau störf sem landsbyggðin þarf í raun mest á að halda til að halda uppi nógu fjölbreyttu samfélagi. 

Og nú yppta sumir öxlum og segja að í gangi sé hliðstæð þróun og fyrir öld, útgerðin hljóti óhjákvæmlega að flytjast utan af landsbyggðinni til miðlægari staða þar sem þéttbýli, fjármagn og aðstaða öll gera útgerðina hagkvæmari en á hinum afskekktari stöðum.

En þegar betur er litið á málið sést að hér er ekki um hliðstæður að ræða gagnvart því fólki sem verður fyrir barðinu á þessum breytingum. Þeir sem hættu að sækja sjó frá Verdölum, Fjallaskaga ogt hliðstæðum stöðum hurfu á braut frá mjög frumstæðum og ódýrum mannvirkjum.

En þeir sem nú verða að flýja deyjandi sjávarþorp verða að skilja eftir megnið af afrakstri ævistarfs síns sem fólgið er í dýrum húseignum. Margir komast ekki í burtu þótt þeir vildu vegna þess hve eignirnar eru orðnar verðlitlar og finnst þeir vera í átthagafjötrum.

Nú hefur kvótakerfið verið til í 23 ár og allan þennan tíma hefur lítið verið gert til að losa um þessi ólög. Enn og aftur virðist ætla að verða töf á því í stað þess að látið sé til skarar skríða og tekin upp markviss viðleitni við að vinda ofan af þessu vandræða kerfi, til dæmis með því að beita tvenns konar aðferðum.

Annars vegar nýsjálensku aðferðinni sem felst í því að ríkið eigi forkaupsrétt á kvóta og þjóðin  eignist þannig smám saman aftur það sem hún gaf frá sér á sínum tíma eða að minnsta kosti hluta af því.

Þennan kvóta geti þjóðin notað til að auka byggðakvóta og einnig til þess að leigja hann á svipaðan hátt og þegar vatnsorka er leigð til langs tíma.

Þegar litið er til baka sést að hefði verið gripið fyrr til aðgerða til að draga úr skaðlegum áhrifum kvótakerfisins væri staðan betri í dag. Það ætti að hvetja til þess að það verðí ekki áfram látið dragast úr hömlu að sýna það í verki að þjóðinni sé ekki sama hvernig meðferðin á sameign hennar leikur heil byggðarlög grátt.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er auðvitað sorgleg þróun en sjávarútvegurinn er í samkeppni við annan matvælaiðnað. Ef fiskur er of dýr þá borðar fólk eitthvað annað. Hversu langt á að ganga í því að ríkisstyrkja byggðaþróun? Er t.d. eitthvað vit í því að hafa mjólkurbú á afskektum stöðum? Í dag er sjávarútvegurinn að skila hagnaði á Íslandi sem ég held að sé einsdæmi í Evrópu. Ekki viljum við koma upp styrkjakerfi í sjávarútvegi eins og í landbúnaði, er það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.5.2007 kl. 11:58

2 identicon

Kvótakerfið er ekki til verndar fiskistofnum miklu frekar til að vernda banka og aðrar lánastofnanir.

nonni (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 12:05

3 identicon

Hvar sem maður kemur í heiminum er byggðaþróun sú sama og hér. Fólkið flytur frá afskekktum smábæjum. Þó kvótakerfið sé skelfilegt dugar ekki að laga það. Rótin að fólksflutningunum er önnur og flóknari.

Eigum við ekki að hætta þessari vonlausu baráttu á móti menningarstraumnum og reyna að finna ráð til að gera gott úr honum ?

Magnús W (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 13:31

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Menningarstaumnum!  Sagði maðurinn ekki áreiðanlega: menningarstaumnum????

Það er þá engin menning á útkjálkum þessa lands. Er kannski kominn tími til að hætta að senda þessa krakka í skóla og fara að mennta þá í staðinn?

Það má lesa um menningu í góðum bókum.

Ætli fólk að leita uppi menningu á Íslandi þarf að skjótast upp fyrir Elliðaár og helst nokkuð langt áður en farið er að skima eftir menningu.

Þeir tala mest um menningu, hagvöxt og góð lífskjör sem engu af þessu hafa kynnst af eigin raun.

Ég held að Magnús W. hefði gott af að dveljast hjá henni Rögnu á Laugabóli svona 3-4 ár áður en hann fer að tjá sig að ráði um menninguna í þessu landi.

Árni Gunnarsson, 28.5.2007 kl. 17:02

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Góð grein hjá þér Ómar. Þegar flogið er yfir tilveruna sér maður oft heildarmyndina en týnir sér ekki í smáatriðunum. Menn geta haft mismunandi skoðanir á hvort og hvar fólk sé búsatt á Íslandi. Sú skoðun ein og sér réttlætir ekki að farið sé fram með þessum hætti og heilt þorp lagt niður á einni nóttu. Það hefur í för með sér persónulegar hörmungar. Skoðanir okkar Íslendinga á náungakærleikanum eiga að vera þessum skoðunum yfirsterkari. Þær skoðanir birtust skýrt við björgun fólks í snjóflóðunum fyrir vestan á sínum tíma. Það virðist ekki vera sama upp á teningnum núna. Það deyr kannski ekki neinn strax. Svo eru líka peningar í spilinu núna og þeir blinda menn auðveldlega. Sem sagt gott mál að leggja pleisið í eyði ef enginn ferst og ekki verra fá smá fé í aðra hönd. Er grundvallarmunur þegar snjóflóð leggur líf manns í rúst eða kvótaflakk. Ég held að framkvæmd þessara hluta sé of mikið í stíl við náttúruhamfarir. Er ekki hægt að gera þetta með einhverri skynsemi gott fólk.

Gunnar Skúli Ármannsson, 28.5.2007 kl. 21:42

6 Smámynd: Bjarni G. P. Hjarðar

Hvert er vandamálið?  Að fólk hafi frjálst val um hvar það vill búsetja sig og sjá börnin sín vaxa úr grasi, dafna og skila af sér barnabörnum?

St. Kilda var byggð  allt of lengi, fólkið var síðan flutt á brott þaðan og séð farborða á meginlandinu (Skotlandi).  Nú er St. Kilda á heimsminjaskrá.  Því kemur til greina að friðlýsa Vestfirði og leyfa fólkinu þar að VELJA.

Bjarni G. P. Hjarðar, 29.5.2007 kl. 00:01

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú spyrð hvert sé vandamálið Bjarni. Vandamálið er afar stórt og magþætt að minni hyggju.

Einn hluti þessa vandamáls er fólginn í þinni ótrúlega grunnfærnu spurningu, hafi ég skilið þig rétt.

Ég hygg að fólkið á Vestfjörðum vilji hafa frjálst val um allt þetta sem þú nefnir. Mikið vantar upp á að það hafi þetta val. Vilji það flytjast á brott þarf það að skilja eignir sínar eftir, þ.e. fasteignir eða í besta falli selja fyrir eitthvert brot af verðgildi.

Það flokka ég ekki undir frjálst val að neyðast til þess að yfirgefa átthagana snauður vegna þess að hafa verið sviptur réttinum til lífsbjargar. Það var nefnilega ráðist á þetta fólk og það svipt arfbornum rétti til lífsbjargar við þau skilyrði sem búseta á þessum slóðum hafði byggst á um aldir. Ekkert annað hafði breyst.

Hvað hafði þetta fólk til saka unnið.?

Að gefa sér þau rök að einhverjir vilji kyrrsetja þetta fólk er fáránlegt og ekki svara vert. Allir eiga að sjálfsögðu að vera afskiptalausir vilji þeir flytja sig búferlum. Málið snýst um búsetuskilyrði. Hvort friða eigi Vestfirði á að vera önnur umræða og ótengd þessari.

En að sjálfsögðu hefur sú spurning vaknað hvort friða eigi fólk fyrir stjórnvöldum.

Dæmið af St. Kilda er að minni hyggju óskylt þessu. Þar  var um að ræða fámennt og einangrað byggðarlag ósjálfbjarga um aðdrætti og samfélagsþjónustu. Innbyrðis skyldleiki var kominn í eða yfir hættumörk og þar að auki voru nánast engin skilyrði til lífsbjargar af eigin rammleik.

Úti fyrir Vestfjörðum eru gjöfulustu fiskimið landsins. Gegn um langa sögu hafa þeir Vestfirðingar sem kusu sér önnur störf til viðurværis en fiskveiðar og fiskvinnu bara flutt sig um set og þangað sem hugur þeirra stefndi. Ekkert er eðlilegra. En hinir sem kjósa sér sjómennskuna að starfi í heimabyggð eiga stjórnarskrárvarinn rétt til þess og honum hefur verið rænt.

Það er vandamálið og það vandamál á rætur í heimsku og óbilgirni, jöfnu báðum.  

Árni Gunnarsson, 29.5.2007 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband