HVER SEM ER, HVAR SEM ER, HVENÆR SEM ER.

Hver sem er á ferð um Reykjavík getur átt von á því hvar sem er og hvenær sem er að vera barinn til óbóta. Þetta gerist ekki aðeins í miðborginni ef þú ert fótgangandi, - þetta getur líka gerst ef þú ert á ferð í bíl á Vesturlandsvegi. Ég reyndi það nýlega sjálfur að ofbeldið í Reykjavík er komið á það stig að ráðist var bæði á bíl og ökumann á stofnbraut og að ökumaðurinn mátti þakka fyrir að árásarmaðurinn komst ekki inn í bílinn eftir svo hamslausa tilraun til að ganga í skrokk á bílstjóranum að hann braut bæði rúðu og barði bílinn og beyglaði.  

Enda þótt fólk segi við mig að ég eigi að hugsa mig tvisvar um áður en ég fari að heimsækja son minn á Shri Lanka vegna þess að þar sé hættusvæði held ég að fenginni reynslu að ég sé óhultari þar fyrir árás Tamíla heldur en akandi í bíl á fjölförnum vegi áleiðis til Reykjavíkur.

Ef ég færi til Shri Lanka og yrði fyrir árás þar myndi það verða talin bara býsna mikil frétt á Íslandi. En það sætir ekki tíðindum þótt ég sé eitt af átta fórnarlömbum skráðra líkamaárása eitt vorkvöld í Reykjavík, - þetta er nokkuð sem við erum orðin ónæm fyrir, - þangað til við verðum lamin sjálf.

Árásin á Vesturlandsvegi gerðist á björtu sunnudagskvöldi. Ég ók á litlum fornbíl af gerðinni NSU Prinz 1958 hægt og rólega vestur Vesturlandsveg eftir fornbílasýningu í Ræsishúsinu við Krókháls.

Skammt fyrir austan bensínstöð Skeljungs var bíl ekið framúr mér vinstra megin og út um glugga hékk maður sem skók að mér hnefann og hrópaði: "Ómar! Helvítið þitt!"

Bílnum var ekið um það bil hundrað metra fram fyrir mig, en þar var hann stöðvaður á ská, þannig að hann lokaði alveg akreininni í vestur. Út úr bílnum stökk maður, hljóp í átt að Prinzinum og stefndi að vinstra framhorni hans.

Ég varð að hægja mjög á bílnum svo að hann stöðvaðist næstum því en ég þorði ekki að stoppa alveg því að þegar maðurinn kom nær með hnefana á lofti sá ég að andlit hans var afmyndað af heift og hatursbræði og ekki leyndi sér að hann ætlaði að stöðva mig og brjótast inn í bílinn til að ganga frá mér.

Nú kom sér vel að stýrið á Prinzinum er það sneggsta og léttasta sem til er, aðeins einn snúningur borð í borð. Á réttu augnabliki snarbeygði ég til vinstri þannig að maðurinn kom að hægra framhorni bílsins en ekki því vinstra og varð því að brjótast farþegamegin inn í bílinn ef hann ætlaði að komast til mín.

Dyrnar voru læstar þeim megin en hann lét höggin dynja á bílnum og barði stóra beyglu ofan í húddið. Síðan hafði hann engar vöflur heldur lét hnefann vaða í gegnum rúðuna sem brotnaði svo að glerbrotin dreifðust yfir bæði framsætin. Áfram hrópaði hann: "Ómar! Helvítið þitt!!"

Honum tókst ekki með fálmandi hendi að ná réttu taki á hurðarhúninum að innanverðu og mér gafst tækifæri til að aka áfram og var svo heppinn að akreinin vinstra megin við mig var auð þá stundina og mér tókst komast framhjá bílnum sem átti að loka mig af.

Mér varð ljóst hve heppinn ég hafði verið að maðurinn komst ekki bílstjóramegin að bílnum því að þá hefði hann annað hvort rifið hurðina þar upp eða kýlt mig beint í gegnum rúðuna. Hægra megin dró hönd hans ekki yfir til mín.

Á leið vestur úr sá ég hvork bíl né mann og varð mjög feginn. Kannski sneru árásarmennirnir við og létu sig hverfa enda var þetta órúlega bíræfin árás á svona fjölförnum þriggja akreina vegi. Kannski hafði ætlunin verið að þetta yrði slík leifturárás og tæki svo skamma stund að ekki yrði tekið eftir því.

Ég veit það svo sem ekki, - vegfarendur í Reykjavík eru kannski orðnir svo ónæmir fyrir svona atburðum að hægt er að komast upp með flest.

Ég tilkynnti þennan atburð að vísu til lögreglu svona til að hægt væri að hafa þetta atvik á skrá en að öðru leyti taldi ég þetta ekki fréttnæmara en hverja hinna árásanna sem framdar voru þetta kvöld og þessa nótt. Bíll og menn voru á bak og burt.

Nú veit ég sjálfur hvernig svona árásir gerast. Það er ráðist á þig hvenær sem er og hvar sem er fyrirfaralaust, - þetta er skyndiárás sem lýkur jafn skjótt og hún hófst og árásarmennirnir hverfa jafn skjótt og þeir komu. 

Mér skilst að svona árásir séu oftast tilefnislausar og því skiptir ekki máli hvort þú ert Jón, Gunna Sigurður.

Ef þú hins vegar ert séra Jón eða séra Gunna veist þú heldur ekki hvort árásin er tilefnislaus. Hún getur verið tilefnislaus þótt árásarmaðurinn hrópi nafn þitt í sífellu á meðan á barsmíðinni og formælingunum stendur og að þau orð séu kannski þau síðustu sem þú heyrir hérna megin grafar.

Hún getur líka átt sér tilefni þannig að um það gildi: Ég er, - þess vegna verður mér misþyrmt. Því fleira sem þú hefur gert og því fleiri sem vita það, því fleiri hatursmenn og óvildarmenn áttu sem telja sig hafa gilda ástæðu til að refsa þér og hefna sín grimmilega á þér. Svo einfalt er það.

Það eru tíu dagar síðan þessi árás átti sér stað og ég hafði ekki hugsað mér að gera neitt með hana, - þetta er jú sá veruleiki sem við erum hætt að kippa okkur upp við. En við nánari athugun og vegna umræðna á bloggsíðum um ofbeldið í Reykjavík tel ég það hugleysi og sinnuleysi að láta sem ekkert sé.

Sem bloggari finnst mér rétt að leggja eitthvað til málanna, - ég skulda þeim sem voru óheppnari en ég og lágu meðvitundarlausir  og stórslasaðir eftir árásir einnar nætur og hafa ekki getað tekið þátt í umræðunni um ástandið heldur verða að sleikja sár sín afsíðis og lifa við grimman veruleika. 

Þegar ég var lítill drengur var ráðist tilefnislaust á tónskáldið Árna Björnsson á götu og honum misþyrmt svo að hann varð örkumla eftir það. Sérfræðingar segja að þessa tegund af ofbeldi sé aðeins að finna í Reykjavík, - í öðrum borgum sé helst um að ræða gagnkvæmar hefndarárásir glæpahópa.

Hvenær rennur sá dagur upp að það verði hættulausara að vera á ferð í Reykjavík en á átakasvæðum á Shri Lanka?

Hvenær rennur sá dagur upp að við getum öll sungið áhyggjulaus í friðsemd: "Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík?"

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti G. Hjartarson

Ótrúleg saga. Gott að þú komst nú heill af eftir þetta.

Vonandi þarftu líka aldrei að lenda í öðru eins aftur. 

Hjalti G. Hjartarson, 30.5.2007 kl. 13:17

2 identicon

Náðir þú ekki bílnúmerinu? Hárrétt  (svo langt sem það nú nær:)að tilkynna þetta!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 14:55

3 identicon

Þetta er líkast skáldsögu. Hvað ætli lögreglan geri með kæruna þína? Bæti henni í upplýsingaflóruna um "góðkunningja" sína eða vinni úr henni? Nýjustu fréttir eru þær að bæta á við eftirlitsmyndavélum þótt vitað sé að þær hafa ekki sama fælingarmátt og lögreglumenn úti á götu.

Helga (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 15:30

4 Smámynd: Heiðríkur Gustur Skandal

Segi bara líka að það er gott að þú komst heill frá þessu.
Sorglegt samt að til skuli svo litlir einstaklingar að þeim finnist sér ógnað svo mikið að þeir grípa til ofbeldis.
Lenti ekki Magnús hvalavinur í einhverju svipuðu þegar reynt var að keyra á hann þar sem hann var á ferð á hjóli.
Eru menn virkilega svona hræddir við ókunnuga (menn með aðrar skoðanir) að þeir telja bara öruggast að drepa svoleiðis kóna strax.

Ég vona að þetta hafi þí bara verið einhver vesalingurinn sem fór bara yfirum í umferðinni og til þess að losna við bræðina réðist hann á það fyrsta sem varð á vegi hans.  
við getum þá alltaf vonað að þetta sé bara tímabundi hjá honum.


Heiðríkur Gustur Skandal, 30.5.2007 kl. 16:33

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ég og dóttir mín rétt sluppum við árás á miðjum sólríkum sunnudegi þegar við bentum manni sem henti flösku út um bílgluggann góðlátlega á að hann hefði misst flöskuna. Hann trylltist við athugasemdina, rauk út úr bílnum bölvandi og ragnandi, tók upp flöskuna og grýtti henni í áttina að dóttur minni sem átti fótum sínum fjör að launa. Við vorum báðar í áfalli eftir atburðinn.  Ég tilkynnti þetta til lögreglu með bílnúmeri en eftir sátum við með skrekkinn og gaurinn keyrði áfram.  Ég held að þetta sé fólk á sterum eða lyfjum! ..

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 30.5.2007 kl. 17:34

6 Smámynd: Kristján Pétursson

Þetta er mögnuð saga Ómar minn.Þú hefur sýnilega brugðist rétt við í hvívetna.Snöggur að hugsa með þína rally- og flug reynslu og verið yfirvegaður.Ég þekki persónlega til svona árása þegar ég var við fíkniefnarannsóknir og reyndar oftar.Fíkniefnaneyslan er undirrót svona tegund árása,fyrirvara - og tilefnislausar að okkur finnst,en neytendurnir verða að fá fjármuni fyrir sínum efnum strax.Við erum ekki ennþá búin að upplifa toppinn á þesari glæpatíðni,þegar heroin neysla verður orðin landlæg hér þá á vont eftir að stórversna.Þetta er reynsla annara þjóða,varla getum við vænst nokkuð betra.

Kristján Pétursson, 30.5.2007 kl. 18:04

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þetta er ljót saga. Ég er feginn að þú slappst óskaddaður frá þessu. Það hljómar kannski undarlega, en ég vona að þetta hafi verið tilefnislaus árás sturlaðs eiturlyfjaneytanda. Ég vil ekki hugsa til þess að einhver vilji þér persónulega illt fyrir þau störf sem þú hefur unnið. Hvort sem fólk er sammála þér eða ekki hlýtur hver hugsandi maður að sjá að það er gert af ást til lands og þjóðar. Hvort sem fólk er sammála þér eða ekki átt þú fulla virðingu skilið.

Villi Asgeirsson, 30.5.2007 kl. 21:06

8 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Málið er að árásir sem þessar breyta engu nema fyrir fórnarlambið. Ofbeldismaðurinn verður ekki var við neitt nema í hæsta lagi eina skýrslutöku hjá lögreglu. Verði hann ákærður þarf hann ekki að koma fyrir dóm frekar en hann vill. Verði hann dæmdur er dómurinn undantekningalítið skilorðsbundinn og undir hælinn lagt hvort hann fréttir nokurn tíma af honum. Til hvers á lögregla að leita slíka menn uppi? Að áliti dómsvaldsins er einn ræfill að lemja annan ræfil og hverju skiptir hvað ræflarnir hafast að.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 30.5.2007 kl. 22:05

9 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Mig minnir að ég hafi verið þrisvar sinnum verið dæmdur til fangelsisvistar. Einu sinni fyrir að gleyma ökuskírteini annað skipti ekki sett á mig öryggisbelti og þriðja ekið of hratt miðað við leifðan ökuhraða. Í þetta reiknast mér til að farið hafi 3 manndagar hjá lögreglu. Ég greiddi sektirnar og slapp við fangelsisdvöl. Ég segi frá þessu vegna þess að hefði ég beinbrotið mann með hnefahöggi hefði ég sloppið mun betur og sennilega alveg.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 30.5.2007 kl. 22:41

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er nú bara sleginn af  þessari sögu, óhugnanlegt.

En Guðmundur Jónson: Þessi árás þín á Austfirðinga er jafn geðveikisleg og árásin sem Ómar varð fyrir. Gott að þú upplýsir okkur um sálarástand þitt. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.5.2007 kl. 01:11

11 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég segi nú bara Ómar minn, mildi að ekki fór verr! Við þurfum nefnilega á þér að halda í næstu kosningum...

Sigurður Hrellir, 31.5.2007 kl. 01:57

12 identicon

Já, það er aldeilis magnað hvað maður getur lent í.

Á ferð minni til systur minnar, í mat, lenti ég í því að stöðva á rauðu ljósi hjá iðnaðarhverfinu í Kópavogi. Þar beið égsallarólegur, hlustandi á góða tónlist og slappandi af.

Nú vorum við orðnir þrír bílarnir sem biðum á þessu ljósi þegar allt í einu, sé ég einkennilega hreyfingu í vinstri hliðar speglinum. Ég lýt til að skoða betur, og þá stekkur maður á hliðarrúðunna, berjandi og öskrandi, með trúðsgrímu á sér. Trúðurinn hljóp svo aftur upp í bíl sinn, fyrir aftan minn, og við lögðum af stað á grænu ljósi.

Að sjálfsögðu var mér brugðið, en ég hló af þessu stuttu eftir. En þegar maður fer að pæla í þessu. Hversu auðvelt það hefði verið fyrir manninn að rífa upp hurðinna, lemja mig kaldan, og þessvegna hent mér útur bílnum og farið á rúnt á minn kostnað. Hugguleg tilhugsun..

Á maður að þurfa að læsa sig inni í bílnum sínum hvert sem maður fer, jafnvel klukkan 6 á þriðjudags kveldi?

Jóhannes Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 08:29

13 Smámynd: Grímur Kjartansson

Móðir mín er að verða áttræð en er við góða heilsu og býr ein. Þegar talið berst að lokuðum gluggum, hurðagæjugötum, öryggiskerfum  og eftirlitsmyndavélum þá er hennar afstaða skýr hún neitar að lifa við það að láta einhverja aumingja stjórna sínu lífi.

Grímur Kjartansson, 31.5.2007 kl. 08:58

14 identicon

Hér í Bretlandi gerðist það um daginn að kona ein keyrði vini sínu upp í dómshús.  Dæma átti í máli þar sem einstaklingur, af tilefnislausu, hafði ráðist á þennan vin og barið til óbóta.  Glæpamaðurinn slapp með sekt.

Þegar út var komið hafði þessi kona fengið sekt þar sem stjöðumælirinn hafði runnið út á meðan.  Stöðumælasektin var hærri en ofbeldissektin.

 Vestræn menning gjörvöll er á undanhaldi.

Guðjón (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 17:06

15 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Blessaður Ómar.

Guðmundur læknir hér. Gott þú ert heill. Mér finnst þetta ekki vera neitt léttvægt mál. Þú ert fulltrúi viðhorfa og stjórnmálamaður, og árásin sem þú lýsir er ekki tilefnislaus í venjulegum skilningi orðsins, heldur árás á þig sem lýðræðislegan fulltrúa.

Í Svíþjóð  og víðar í Evrópu hefur hatursárásum og öðrum hótunum í garð stjórnmálamanna farið fjölgandi síðustu ár og menn líta ekki á þetta sem venjulegar götubarsmíðar. Gildir einu þó maðurinn hafi verið ölvaður eða dópaður. Lögreglan ætti að gera sérstakt átak til að upplýsa þetta alvarlega mál.

Guðmundur Pálsson, 1.6.2007 kl. 12:37

16 Smámynd: Þorsteinn Erlingsson yngri

Sæll Ómar!
     Ég er ólýsanlega feginn að þú slappst óskaddaður frá þessum hildarleik og átt þú hluttekningu mína alla í að hafa þurft að lenda í þessu.
      Ég er sannfærður um að þessi árás hafi verið tilefnislaus - þrátt fyrir að mann fíflið hafi öskrað nafnið þitt. Þessir fantar hafa, að mínu mati, flestir einfaldlega ekki nægjanlegt vit og rökhugsun í kollinum til að skipuleggja svona nokkuð og því er ég viss um að þetta var bara óheppileg tilviljun.
     Ég hef lent í hvoru tveggja. Annarsvegar tilefnislausri árás hér í Reykjavík og síðar í árás með tilefni, í Amsterdam.
     Í fyrra tilfellinu hrópað árásarmaðurinn, sem var starfsmaður veitingastaðar, tryllingslega nafnið mitt um leið og hann teygði sig yfir breitt barborðið, leiftursnöggt og tók mig hálstaki og barði án afláts málmhlut í gagnauga mitt þangað til að æðar sprungu og blóðið þeyttist yfir mig allan. Þetta hefur verið um tíu leytið að kvöldi.
    Ég talaði við manninn daginn eftir sem ég komst að því hvað hét því hann hafði verið á mynd sem ég tók í sambandi við jákvæða blaðagrein um veitingastað sem hann átti hlut í með nokkrum öðrum, en að öðru leyti var maðurinn mér alls ókunnur. 
    Ég hringdi til hans uppúr hádegi daginn eftir, en hann gat enga skýringu gefið á þessu athæfi sínu og spurði hvort ég gæti ekki hringt seinna því hann vildi fá að sofa áfram.
     Hitt sinnið var ég í Amsterdam einnig í blaðamennsku, þegar ég gekk heim eftir næturvakt með lögreglumönnum borgarinn réðist að mér maður, en N.B. hann var poll rólegur, spurði hvort ég ætti eld og dró um leið upp fjaður hníf og öskraði á mig að afhenda sér peninga - sem ég og gerði. Við svo búið hvarf hann á braut.
     Þarna var um tilefni að ræða og komst ég að því síðar að hann hafði verið látinn vita af ferðum mínum skömmu áður.
      Á þessum tveimur dæmum er hægt að sjá muninn á tilefnislausum árásum í Reykjavík og árás með tilefni og skipulag erlendis.
     Þessi lífsreynsla skilur eftir sig ör á sálinni en sú fyrri sínu meiri en sú síðari - sennileg af því hversu fólskuleg hún var og alls ekki út af neinu tilefni, nema síður væri.
      Ég vona að þú fyrirgefir mér hvað þetta er langt, en mér fannst ég verða að koma þessu að og langar mig jafvel að skrifa nánar um þetta á síðunni minni því sagan endar ekki hér, því miður.
      Ég vil nota tækifærið til að óska þér til hamingju með þann frábæra árangur sem þú hefur náð á vettvangi stjórnmálanna og
hvað þú hefur gefið íslensku þjóðinni mikið í gegnum tíðina á allan hátt með óbilandi eljusemi, dugnaði og jákvæðu hugarfari - á hverju sem hefur gengið.
     Ég þekki nokkur barna þinna vel og ég veit að líf þitt hefur ekki alltaf verið dans á rósum og því er aðdáun mín á þér ekki síðri fyrir vikið.
         Ég var búinn að skrifa færslu (en ekki birta) um hversu mikil og fjölbreytileg áhrif þú hefur haft á mig sem ungann mann og heillað mig og haft áhrif á mig í gegnum lífið. Reifaði ég það í stórum dráttum allt frá barnæsku minni og fram á þetta ár, en svo rakst ég á þessa sögu þína og allt fór í bið.
        Það hefur tekið mig mörg ár að jafna mig á þessum árásum - ef ég geri það nokkurn tíma til fulls.
       Bestu kveðjur og megi þér og þínum farnast eins vel og lífið hefur uppá að bjóða. Þú átt það, að mínu mati, svo sannanlega skilið - og hefur unnið fyrir því hörðum höndum!!!
       

Þorsteinn Erlingsson yngri, 2.6.2007 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband