"ÞAÐ MÆLTI MÍN MÓÐIR...HÖGGVA MANN OG ANNAN."

Enginn Íslendingur hefur lýst betur hinu sérstaka hugarfari sem býr að baki flestum árásum á fólk á förnum vegi í Reykjavík en Egill Skallagrímsson: "Það mælti mín móðir / að mér skyldi kaupa / fley og fagrar árar / fara á brott með víkingum / standa uppi í stafni / stýra dýrum knerri / halda svo til hafnar / og höggva mann og annan". Eins og ég greindi frá í í bloggi í gær segja sérfræðingar að íslensku árásirnar séu ólíkar árásum í erlendum borgum að því leyti að þær eru oftast tilefnislausar, að því er virðist til þess eins að "höggva mann og annan."

Árásarmennirnir koma eins og elding af himnum hvar sem er í flasið á hverjum sem er, fara hamförum á örskotsstund og hverfa jafnskjótt og þeir komu.

Jafnvel þótt menn kenni aukinni eiturlyfjaneyslu um segir máltækið: Öl er innri maður. Við það að komast í vímuástand leita oft fram duldar kenndir og afleiðingar aðstæðna í æsku, oft mjög óæskilegar.

Engin löggæsla, hversu víðtæk sem hún er, getur komið í veg fyrir árásirnar þegar það liggur fyrir sem ég sagði frá í gær: "Hver sem er, hvar sem er, hvenær sem er."

Íslendingar eru ekkert öðruvísi, betri né verri að upplagi en annarra þjóða fólk. 

Erlendis eru svona átök mest á milli glæpahópa eða þá sem hluti af ránum.

Sú tilefnislausa árásarfíkn, sem hrjáir svo marga Íslendinga, hlýtur að liggja í þjóðarkarakter sem á sér jafnvel rætur aftur til Sögualdar, en er þó vafalítið mest um að kenna uppeldinu eða kannski frekar í uppeldisleysinu, agaleysinu, taumleysinu, firringunni og óþolinu sem einkennir okkar tíma.

Þetta brýst fram í þeirri fíkn valda sem Egill lýsir svo vel og birtist í peningum, dýrum hlutum, hnefum, bareflum og vopnum, - öllu því sem færir ofstopamanninum ótakmarkað andlegt og líkamlegt vald yfir öðrum.

Þetta felst í þeim lífsstíl nútímans sem á sér engin takmörk í valdafíkn á öllum sviðum, - allt til þess valds sem menn taka sér til að hafa líf og limi annarra í hendi sér.  

Í dag væri þetta orðað svona:

 "Það mælti mín móðir

að mér skyldi kaupa

dóp og dýra jeppa

í djamm með flottum töffurum

standa fremst og stjórna

sterku gleðigengi

bruna svo til borgar

og berja mann og annan.

Hugsanlega þarf langan tíma til að breyta þessu með því að leita upprunans, í uppeldi og innrætingu í siðrænum efnum sem svo mjög virðist vera ábótavant í samtíma okkar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Heyr...heyr!

Púkinn, 31.5.2007 kl. 12:54

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Satt allt /Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 31.5.2007 kl. 13:08

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Sumarið 1992 réðst á mig annálaður ofbeldisberserkur Benjamín Þór Þorgrímsson. Áverkarnir sem ég hlaut voru kjálkabrot og fjórar tennur brotnar ásamt mari og bólgu í andliti. Ég kærði til lögreglu og var annar maðurinn sem kærði hann þetta kvöld fyrir sömu sakir. Benjamín var ákærður. Dómaranum þótti sannað að Benjamín hefði barið mig........en eitthvað annað hefði valdið kjálkabrotinu hann væri ekki nógu höggfastur til að brjóta kjálka. Niðurstaðan var sýkna.

Þaðan sem ég lá meðvindundarlaus gekk Benjamín upp í rútu og fékk klapp á bakið frá rútubílstjóranum fyrir hetjuskapinn. Rútubílstjórinn, sem var að vísu færeyskur tók hetjudáðina upp á myndband sem auðvitað skilaði sér ekki í málinu.

Ofbeldi borgar sig.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 31.5.2007 kl. 14:22

4 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Guði sé lof að þú slappst heill frá þessu Ómar! En því miður eins og þú segir, hafa ekki allir verið jafnheppnir. Við lestur frétta úr litlu borginni okkar, dettur mér oft í hug: "Því meira sem ég kynnist mannfólkinu, því vænna þykir mér um hundinn minn." 

Hvað er eiginlega að í samfélaginu? Fyrring, lífsgæðakapphlaup, græðgi, valdabarátta, öfund, alltof mikill hraði á öllum sviðum, endalaus hávaði ???  Ég held að ef fleiri færu út í kyrrð og fegurð landsins og hlustuðu á náttúruna þá fyndi það sinn innri frið og þyrfti ekki að reyna að berja friðinn úr öðrum.  

Ragnhildur Jónsdóttir, 31.5.2007 kl. 15:02

5 identicon

Tilvitnunin í Egil Skalla er góð... En ekki man ég það úr Eglu að hann hafi vegið menn eða barið á þeim án nokkurar ástæðu...eða var var það?

Hrúturinn (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 16:56

6 identicon

Sæll Ómar og takk fyrir þetta innlegg.

Ef ég má bæta við, það er rétt að aukin löggæsla gerir ekkert kraftaverk, en það er ömurlegt til þess að hugsa að þeir ofbeldisseggir sem þó nást sleppa út daginn eftir og halda bara áfram iðju sinni. Það þarf að breyta lögum og hugarfari. Þeir sem ráðast með ofbeldi og líkamsmeiðingum að annarri manneskju eiga að fara beint í betrunarvist og það í langan tíma. Slíkir "menn", drukknir eða ódrukknir eru hættulegir samfélaginu og okkur öllum. Í dag er ráðist á heldriborgara, á morgun ungling, á hinn daginn maka, og svona heldur sagan endalausa áfram. Það er loks þegar einhver er drepinn sem dómsvaldið vaknar úr dvala, en þá er nú full seint í rassin gripið.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 23:11

7 identicon

Þetta er skelfilegt, er maður hvergi óhultur :/ ég vona að þú hafir náð mynd af þessari aumu sál svo hægt sé að koma henni undir læknishendur.

Sævar (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 07:23

8 identicon

Mikið þykir mér fyrir því að þú hafir lent í þessum hremmingum Ómar. Hvernig í ósköpunum er hægt að vera svona heiftugur í þinn garð. Þú sem ert nánast eins og fjölskyldumeðlimur minnar kynslóðar.

Sigurður Einarsson (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 11:12

9 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

amfetamínneysla er að breyta miðbæ Reykjavíkur í einn af ömurlegustu blettum evrópu. Fyrir um 22 árum síðan var stödd hér ensk hljómsveit á mínum vegum. Söngkonan vildi fá fylgd heim um tólfleitið. Við hlógum að henni og bentum á að Reykjavík væri ekki þannig borg að það væri ástæða til að fylgja henni. Þessa sömu nótt var kunningi minn drepinn fyrir 1500 krónur í veskinu sínu. Í dag þrátt fyrir að fólk sé ekki drepið eru tilhæfulausar árásir orðnar að parti af næturlífinu og virðist bara vera eðlilegur fórnarkostnaður.

Það þarf að vera forgangsatriði að koma siðfræði aftur inn í kollinn á ungum íslendingum og það að  höggva mann og annan hafi afleiðingar. Verulega slæmar afleiðingar! En til þess þarf að stokka upp dómskerfið og rannsóknir mála. Jafnvel aðlaga það að dómskerfum siðmenntaðra þjóða!

Ævar Rafn Kjartansson, 3.6.2007 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband