UPPLÝSING OG LÝÐRÆÐI.

Upplýsing er forsenda lýðræðis. Vanti upplýsingar verða teknar rangar ákvarðanir. "Garbage in - garbage out." Mál húsanna við Laugaveg er klassadæmi. Fyrst eftir 15 ára umfjöllun um húsin í borgarkerfinu tekur húsafriðunarnefnd málið fyrir. Ég var síðast á Laugavegi í gærkvöldi og heyrði ungt fólk hallmæla þessum "húsdruslum" og vilja þær burtu, þetta væri svo ljótt. "Hafið þið séð í Morgunblaðinu hvernig þau yrðu ef þau yrðu endurbyggð í upprunalegri mynd?" spurði ég. "Nei", svöruðu þau, - "hafa þau ekki alltaf verið svona?"

"Hafið þið skoðað Bernhöftstorfuna?"spurði ég. "Nei", svöruðu þau, vissu ekki hvað Bernhöftstorfan var. "Vitið þið að húsið á horninu er eftirlíking af eimreið sem dregur húsaröðina á eftir sér?" Nei, þau vissu það ekki.

Ég hef verið þarna nokkrum sinnum og rætt við fjölda fólks en engan hitt sem vissi mikið meira en þetta unga fólk, hvorki unga né gamla. Síðan er skoðanakönnun í Fréttablaðinu þar sem meirihlutinn veit líkast til lítið meira um þetta mál en fólkið sem ég hef hitt þarna. 

Menntamálaráðherra segist ætla að fara að vilja fólksins. Dómsmálaráðherra gefur á bloggsíðu sinni Þorgerði Katrínu línuna og segir að hún megi ekki ákvarða í málinu. Málið verði að fara frá Pílatusi til Heródesar. 

Rífum kofana! Rífum kofana! Þetta vill fólkið núna og svipað hefur heyrst áður. Krossfestu hann! Krossfestu hann! Og aftur þvær Pílatus hendur sínar, eða hvað? 

Í svona tilfellum er ekki fólkinu um að kenna heldur þeim sem hafa látið undir höfuð leggjast að veita því upplýsingar.

Þetta er kunnugleg hringekja: Upplýsingar vantar og skoðanakönnun leiðir í ljós álit fólks þar sem yfirgnæfandi meirihluti veit ekki hvað verið er að tala um. Á grundvelli þessa á síðan að taka endanlega ákvörðun. 

Enn heiti ég á Þorgerði Katrínu að þvo ekki hendur sínar eins og Pílatus heldur taka á þessu máli eins og hún gerði í hliðstæðu máli á Akureyri.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband