PÍLATUSARÞVOTTUR Á NÝ?

Björn Bjarnason segir að Þorgerður Katrín megi ekki taka ákvörðun um Laugavegshúsin. Hann vill greinilega að hún geri svipað og Pílatus á sínum tíma sem þvoði hendur sínar og vísaði máli Krists frá sér. Þorgerður segist ætla að fara að vilja fólksins, sem mér virðist, samanber næstu bloggfærslu hér á undan, vita álíka mikið um hið raunverulega eðli þessa máls og fólkið vissi um Krist, sem hrópaði: Krossfestu hann! Krossfestu hann! Nú er hrópað í skoðanakönnun í Fréttablaðinu: Rífum þau! Rífum þau!

Og nú er spurningin hvort Þorgerður Katrín geri svipað og Pílatus forðum. Ég vona að svo fari ekki.  


mbl.is Einkennileg staða varðandi Laugavegshús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Við skulum vona að Þorgerður geri rétt og friði húsin.

Þórður Ingi Bjarnason, 10.1.2008 kl. 20:46

2 Smámynd: Sævar Einarsson

Friða hvað ?, eigendur þessara húsa hafa fengið öll leyfi fyrir þessu, rífa þetta niður og byggja ný hús. Ég efast um að ráðherra hafi vald til að friða eitthvað sem búið er að fá leyfi fyrir hjá kjörinni borgarstjórn, ef svo er þá skil ég ekki hvað við erum að gera með borgarstjórn ef hún er valdalaus. Eina húsið sem ég sé eftir að hafi verið rifið var Fjalakötturinn, ég lék mér svo mikið þar þegar ég var yngri.

Sævar Einarsson, 10.1.2008 kl. 21:57

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eins og ég segi í pistlunum þá er það fyrst núna, tíu dögum fyrir niðurrif, sem upplýsingar um þessi hús koma fyrir almennings sjónir. Ég greini frá nokkrum þeirra í pistlinum á undan. 

Fyrst núna vitum við frá hendi húsafriðunarnefndar hvert gildi húsanna er. Neðsta húsið, á horni Skólavörðustígs og Laugavegar, var reist sem eftirlíking af eimreið sem drægi húsaröðina fyrir innan á eftir sér og í þessari "lest" voru og eru húsin sem á að rífa.

Þessi hús eru eins og upphaf á sögu Laugavegar, eins og fyrsti kaflinn í bók. Eftir að þeim sleppir taka við nýrri og stærri hús og þrátt fyrir miklar endurbyggingar við götuna má enn rekja söguslitur og andrúm þessarar einstöku verslunargötu inn eftir henni.

Húsin eru svo sem nógu merkileg til þess að verða endurbyggð á öðrum stað en þá eru þau slitin úr samhengi við mesta gildi sitt, hið menningarsögulega og umhverfislega, svona eins og að taka höfuðið af styttunni af Jóni Sigurðssyni og flytja það á annan stað til varðveislu.

Það er þegar búið að endurbyggja svo mikið við Laugaveginn og á sennilega eftir að gera meira af því ef svo heldur fram sem horfir, að það er skrýtið ef það má ekki þyrma þessum stutta kafla af götunni.

Það gerist allt of oft að árum og jafnvel áratugum saman er stefnt að ákveðnum framkvæmdum sem síðan eru ekki athuguð að gagni fyrr en allt er að komast í óefni.

Fyrir 15 árum hófst þessi ferill hvað snertir þessi hús og fyrst núna liggja gögn fyrir eins og best hefur verið sýnt á forsíðu Morgunblaðsins fyrir þremur dögum.

Það er engin furða þótt almenningur eigi erfitt með að setja sig inn í málið á örskömmum tíma og þetta mál er algert klúður.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 00:04

4 Smámynd: Beturvitringur

TÆTUM OG TRYLLUM(st) Nú væri fínn tími til að rífa helv... kumbaldana í Nyhavn í Kaupmannahöfn. Fáum drífandi ráðamenn okkar til að losa Danina við þessar ýlduholur og byggjum flottar múr-gler-og-stein-hallir.Hvað með Þrándheim? Þar bara reynir enginn að múta ráðamönnum, það er bara BANNAÐ að hrófla við gömlu, góðu miðborgarmyndinni.Hvað með Prag? Þar eru borgarhlutar sem eru verndaðir sem ungbörn, æðislegt að sjá jafnvel hvað fólk hefur verið smávaxnara í "denn".Ég myndi láta flikka uppá foreldra mína eða aðra fótafúna og heilsuveila, þótt auðveldara væri að skipta út. Þetta var e.t.v. væmið en þessi gömlu hús eru sagan og "albúmið" okkar. Albúm er það sem fólki þykir einna sárast að missa, í ólánstilvikum.Foreldrar mínir sögðu mér margt um Lækjargötuna, Vesturbæinn, Höfnina, Laugaveginn og Þvottalaugarna. Mamma bjó á í Vesturbænum í húsi með moldargólfi. Hún fór með mömmu sinni inn að Laugum til að þvo og hékk í pilsfaldinum hennar þegar hún gekk á milli sjúklinga í spænsku veikinni (gamalmenni sluppu skást, amma var þá um 55ára gömul eða á svipuðum aldri og ég núna).Auðvitað komumst við af án húsanna, en hvaða tortímingarárátta er þetta? Ég veit mætavel að framkvæmdamenn hafa byrjað undirbúning og/eða uppbyggingu á lóðum/reitum ÁÐUR EN GILT LEYFI HEFUR FENGIST, á þeim forsendum að þetta væri allt í lagi, það myndi verða samþykkt! Svo varð uppnám milli húsbyggjendanna og t.d. nágranna og þá var BORGIN skaðabótaskyld.Mér sýnist undirbúningur og framkvæmd eitthvað broguð.  Peningarnir ná yfirleitt yfirhöndinni. Ætli líkleg skaðabótaskylda hindri ekki að verndun nái fram að ganga. Enginn vill sóa þessum fjármunum í skaðabætur til þeirra sem eiga nóg fyrir, þegar nota mætti féð til að bæta aðstöðu sjúkra og bágstaddra.

Beturvitringur, 11.1.2008 kl. 02:10

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gamla gatan í Prag með sínum gömlu litlu miðaldahúsum er einstök.En Laugavegurinn er þegar orðinn mjög sundurlaus og ljótur. Ef einhver tekur að sér að taka þessi hús í fóstur finnst mér það gott mál. Að eyða stórfé í að flytja þau finnst mér galið. En ég reyni að koma þeirri hugmynd að, að stórfyrirtæki taki að sér gömul hús í fóstur, fá þannig góða auglýsingu og velvilja samfélagsins. Allir græða. Mér finnst aðalmálið að halda svipnum, jafnvel á kostnað þessara kofa. Steinkumbaldar eiga ekki heima þarna. Það vantar framtíðarsýn fyrir miðborgina. Nauðsynlegt er að vernda Þingholtin í heild. Það þyrfti að fara fram samkeppni um verndun miðborgarinnar.

Hólmdís Hjartardóttir, 11.1.2008 kl. 03:11

6 Smámynd: Steinarr Kr.

Ómar, einhvern tímann þegar þú varst að fjalla um álverin sýndirðu okkur fallegan bæ í Noregi öðrum megin við þig og hinum megin var stórt álver.  Sama með Laugaveg.  Öðru megin hefurðu þessa kofa (það er ekki hægt að kalla þessi hús annað) og hinum megin hefurðu Laugaveg 7.  Risastórt (og ljótt) hús.  Það er engri götumynd að bjarga þarna.  Það má eins gefa spilin upp á nýtt.

Steinarr Kr. , 11.1.2008 kl. 08:53

7 Smámynd: Jóhannes Krog

Hef ekkert persónuleg á móti gömlum húsum, EN í guðanna bænum fjarlægjum þessa hryggðarmynd sem þarna birtist, - samhengislaus við tíma og rúm.  Frekar vildi ég sjá gömlu melina og móana sem voru til staðar áður en byggð hófst við laugarveg frekar en að halda upp á þessa fúakofa.  Hvers vegna rísa þessir friðunarsinnar alltaf upp á afturlappirnar á síðustu stundu ?  Var ekki fyrirsjáanlegt fyrir löngu að þessi kofaskrifli voru til skammar fyrir götumyndina - lýti sem löngu hefði mátt lappa uppá ef spýturnar voru svona rosalega mikilvægar.

Jóhannes Krog, 11.1.2008 kl. 10:37

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Kofaskrifli". Já, það eru orðin. Berið þið saman myndina í Mogganum með húsunum endurgerðum við Bernhöftstorfuna eins og hún er núna. Torfan var kölluð "kofaskrifli".

Hinum megin við Lækjargötu standa hús sem eru ólík Torfunni. Ósamstæð götumynd, ekki satt. Niðurstaða ykkar: Rífum Torfuna og þá jafnvel alla húsaröðina að Menntaskólanum meðtöldum og gerum götuna samstæða. Það er hvort eð er búið að hrófla svo mikið við hinni upprunalegu götumynd.

Það er hvort eð er búið að virkja svo mikið við Kröflu að Gjástykki og Leirhnjúkur mega bara fljóta með. Það er hvort eð er búið að virkja svo mikið á Hellisheiði að við skulum stúta henni allri og leyfa Bitruvirkjun.

Það er búið að virkja svo mikið þegar á Reykjanesskaga að við skulum klára dæmið almennilega.

Það er búið að virkja svo mikið af Þjórsá að við skulum klára hana og Hvítá líka.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 11:03

9 Smámynd: Beturvitringur

Já, UPPGJÖF! Þau eru svo lasburða hvort eð er, látum þau bara drepast. amen

Beturvitringur, 11.1.2008 kl. 15:04

10 Smámynd: Beturvitringur

Miður mín við tilhugsunina að e-r haldi að ég vilji að við gefumst upp, þegar ég er að reyna að bauna á aðra .

Mér finnst uppgjöf (hvort það er gagnvart Laugavegi, eyðulegginu landsins eða hvaðeina), vera í líkingu við það að við leituðum ekki lækninga... af því við værum hvort eð er komin með sýkingu og ör.

Beturvitringur, 11.1.2008 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband