BJÖRK ATHYGLISSJÚK?

Fróðlegt viðtal var við föður Bjarkar Guðmundsdóttur í Íslandi í dag nú í kvöld. Hann vitnaði í fréttir þess efnis að "árás" hennar á ljósmyndara á Nýja-Sjálandi væri til merkis um athyglissýki hennar. Einnig hefði verið sagt að nýleg "árás"Britneyjar Spears á ljósmyndara væri til merkis um að hún væri athyglissjúk. Þetta minnir á það þegar sagt var um Björk Guðmundsdóttur á sínum tíma þegar hún mótmælti Kárahnjúkavirkjun að það sýndi að hún væri haldin athyglissýki.

Með öðrum orðum: Kona sem er fræg meðal milljarða manna reynir á sjúklegan hátt að vekja athygli á sér hjá 300 þúsund manna þjóð, 0,005% mannkyns. Þetta eru sömu mannfjöldahlutföll og að maður sem væri frægur á Íslandi og vildi hafa áhrif á ákveðið mál á Grímsstöðum á Fjöllum væri talinn athyglissjúkur ef hann tjáði sig þar á bæ um málið.

Spyrja hefði mátt á móti á sínum tíma: Þarf manneskja sem er fræg um allan heim á því að halda að vekja á sér athygli á því útskeri sem Ísland er? Ég þekki sjálfur vel til aðstæðna Bjarkar þegar hún er hér heima og allt það sem hún þarf að gera til þess að losna við þessa margumtöluðu athygli, sem sagt er að hún sækist eftir á sjúklegan hátt.

Björk er ekki ein um að verða fyrir grófri ásókn hér heima. Ég hef heyrt lýsingar á því hvernig Eiður Smári Guðjohnsen hefur lent hér heima í kröppum dansi í hatramlegri ásókn um hábjarta daga um helgar og skemmst er að minnast árása á hann og Hannes Þ. Sigurðsson knattspyrnumann í miðborg Reykjavíkur þar sem bloggað var eftirá um það að þeir Eiður og Hannes gætu sjálfum sé um kennt, - þeir ættu ekki að vera á "fylleríi" í miðborginni ! 

Samkvæmt þessu bloggi getur hver sá sem er "að flækjast" niðri í miðborg að næturþeli sjálfum sér um kennt ef ráðist er hann og honum hrint í götuna eða hann margbeinbrotinn !  

Nú eru liðin tólf ár frá síðustu "árás" Bjarkar Guðmundsdóttur á ljósmyndara. Ég set "árás" innan gæsalappa því að enginn talar um árásir paparazzi á þá, sem þeir sækja svo ákaft á, að dæmdur væri á þá margfaldur ruðningur ef þeir væru í handboltaleik.

Þeir sem smjatta á því að Björk sé ekki geðlaus ættu að kynna sér í hverju það er fólgið að standast stöðuga ásókn ljósmyndara sem víla ekki fyrir sér að stjaka og hrinda fólki stanslaust og ryðjast eins og mannýg naut inn að skotmörkum sínum.

Athyglisvert er að faðir Bjarkar upplýsti að hvergi fengju Björk og hennar líkar betri frið en í stórborginni New York.  

Þótt Björk hafi loksins þrotið þolinmæðina eftir tólf ára áreiti held ég ekki að það sé hvorki merki um athyglissýki hennar né árasarhneigð.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Er söngkona á niðurleið sem enn er tilnefnd til verðlauna? 

Alltaf gaman að sjá setningar eins og "kjánaprik sem borga fé á kaffihúsum."

Sjálfur kem ég nánast aldrei á kaffihús og hægt að telja heimsóknir mínar þangað síðustu 50 ár á fingrum annarrar handar. Samt er sífellt verið að tala til mín sem einn úr "kaffihúsaliðinu í 101 Reykjavík" og hef ég þó ekki átt heima í 101 Reykjavík síðan árið 1943 þegar ég var tveggja ára! 

Alltaf er verið að gera lítið úr fólki sem kemur á kaffihús. Samkvæmt því voru mestu kaffihúsamenn Íslandssögunnar, Jón Sigurðsson og Fjölnismenn, ónýtjungar og ómerkingar.  

Ómar Ragnarsson, 15.1.2008 kl. 20:32

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Miðað við frægð Bjarkar hefur hún verið lítið í fjölmiðlum. Og svo má á manninn reyna að eitthvað gefi eftir. Fólk gerir ýmislegt til að vernda börnin sín. Paparazzarnir eru frægir fyrir ágang og tillitsleysi og skemmst er að minnast Díönu prinsessu.

Hólmdís Hjartardóttir, 15.1.2008 kl. 20:42

3 Smámynd: Furðufuglinn

Ég held að allir sem vinna og eru í sviðsljósinu hafi einhvern snert af athygglissýki. Hvað annað gæti rekið fólk í þetta?

Furðufuglinn, 15.1.2008 kl. 21:15

4 Smámynd: Jens Guð

  Það er alrangt að Björk hafi verið lítið í fjölmiðlum.  Þvert á móti hefur hún að undanförnu verið meira í fjölmiðlum en ég man eftir.  Hef ég þó fylgst náið með ferli hennar.

  Í áramótauppgjöri helstu vestrænna fjölmiðla var nýjasta plata hennar ofarlega á lista yfir bestu plötur síðasta árs.  Björk var jafnframt ofarlega á lista í nýlegu lesendavali breska tímaritsins NME yfir fegurstu söngkonurnar.  Framhlið nýjustu plötu hennar var einnig ofarlega á lista í lesendavali bandaríska tímaritsins Rolling Stone.

  Til viðbótar er einmitt um þessar mundir hver verðlaunaakademían á fætur annarri að útnefna Björk til verðlauna.  Þar á meðal bandarísku Grammy sem eru þau er mesta athygli fá í heiminum af öllum slíkum.  Líka bresku Brit. 

  Hvað úr hverju fara helstu músíktímaritin að birta úrslit í vinsældavali lesenda sinna á bestu plötum síðasta árs,  bestu söngkonum og svo framvegis.  Ég er sannfærður um að nafn Bjarkar mun koma fyrir á mörgum þeirra.

Jens Guð, 15.1.2008 kl. 21:39

5 Smámynd: Jens Guð

  Það vantaði inn í setninguna um Rolling Stone að þar var framhlið plötunnar Volta með Björk kosið eitt af bestu plötuumslögum síðasta árs. 

Jens Guð, 15.1.2008 kl. 21:42

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þessir ágengu ljósmyndarar mættu nú taka tillit til þeirra sem þeir eru að mynda og finna rétta augnablikið til þess að draga sig í hlé. Því miður gleyma sumir sér og týna sér í algleymi atburðarins sem þeir eru að „festa á spjöld sögunnar“. En einmitt þá snýst þetta við: heimsbyggðin finnst nóg komið!

Í fréttum hefur komið fram að Björk hafi beðið þennan ljósmyndara að sitja á strák sínum en hann ekki ansað því. Og þegar hann eltir hana á röndum þá er mælirinn eðlilega fullur.

Fjölmiðlafólk þarf að kunna sér hóf. Þegar leikurinn stendur sem hæst þá er oftast rétta augnablikið að hætta.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2008 kl. 22:26

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi meinta árás Bjarkar vekur nú víðar athygli en á Íslandi, hún fær umfjöllun í heimspressunni út á þetta en ég efast nú um að hún þurfi á því að halda miðað við það sem Jens telur hér upp. Hins vegar er Björk ekkki sú eina sem papparassar elta á röndum og það heyrir til undantekninga ef fræga fólkið bregst við þeim eins og hún gerir.

Eins sjóuð í bransanum og Björk er, þá veit hún vel að þetta er fylgifiskur frægðarinnar en hún þarf kannski bara að fara í "Anger management" kúrs til að höndla þetta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2008 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband