"...MISBEITIR STÓRLEGA..."

Meginatriði ráðningar Árna Mathiesens má koma niður í þessi tvö ofanrituðu orð. Í lögunum um þetta stendur að "ráðherra teljist sekur samkvæmt lögum þessum ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín". Vörn Árna byggist á því að hann hafi ekki farið út fyrir embætistakmörkin en það er ekki nóg. Hann verður að sanna að hann hafi ekki misbeitt valdi sínu stórlega. En þá er komið að því að meta hvað sé "stórleg misbeiting".

Um það snýst deilan.

Tökum hliðstætt dæmi. Á fyrri hluta síðustu aldar tíðkaðist það í Vopnafirði að eftir grunnskólapróf fékk einn nemandi styrk til framhaldsnáms hjá sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur fékk slíkan styrk.

Setjum sem svo að fjórir nemendur hafi lokið grunnskólaprófi í Vopnafirði eitt árið og þrír nemendur hafi verið efstir og nokkuð jafnir, allir með yfir 9,0 í meðaleinkunn, eða ágætiseinkunn. Fjórði nemandinn, sonur alþingismannsins, hafi staðist prófið en verið með aðra einkunn, segjum 7,0, sem nægði þó til að hann héldi áfram námi ef foreldrar hans hefðu til þess getu. Hann væri sem sé hæfur til framhaldsnáms en samkvæmt einkunnunum virtust hinir þrír samt vera miklu hæfari.

Hreppsnefndin hafi síðan ákveðið að styrkja son alþingismannsins til framhaldsnáms. Hefði verið hægt að segja að hún hefði "misbeitt stórlega" valdi sínu?

Ég hygg að svo sé.

Hreppsnefndin hefði getað réttlætt valið með því að segja að einkunnir í skóla væru ekki einhlítur mælikvarði á getu fólks og nefnt sem dæmi menn sem hefðu orðið forsætisráðherrar þótt þeir hefðu rétt skriðið á stúdentsprófi. Ekki væri vitað annað en að þeir hefðu staðið sig frábærlega í starfi.

Hreppsnefndin hefði líka getað sagt að það væri óréttlátt að láta son alþingismannsins líða fyrir það að vera sonur föður síns og sífelldar ábendingar um það væru mjög óréttlátar að öllu leyti.

Hreppsnefndin hefði getað vísað til þess að oft áður hefði hún orðið að meta hver væri hæfastur til framhaldsnáms og standa að vali á ýmsum sviðum og að hún hefði til þess vald og væri beinlínis skylt að ákveða þetta eftir bestu samvisku og mati, sem ekki gæti eingöngu byggst á einkunum.

Það væri ekki einhlítt að sá sem hefði hæstu einkunnina hlyti styrkinn.

Sonur alþingismannsins væri búinn ágætum kostum sem ekki kæmu fram í námsárangri hans og hefði til dæmis staðið sig vel í tónlistarnámi, leiklist og félagslífi, og samið sögur, en slíkt gæti gagnast mjög vel síðar meir.

Skólanefndin hefði mótmælt þessu og sagt að hér væri gróflega vegið að hæfni hennar til að meta námsárangur nemenda og hæfileika til framhaldsnáms.

Og eftir situr álitamálið: Hvað er "grófleg misbeiting"?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég held að langflestir Íslendingar geti tekið undir með þér. Sjálfstæisflokkkurinn fór yfir strikið, því eru margir flokksmenn sammála. Ég kaus Samfylkingu og er óánægð með viðbrögð Össurar við þessu. Ég spá að þessi stjórn eigi stutt eftir

Hólmdís Hjartardóttir, 16.1.2008 kl. 00:55

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ein leið til að bregðast við og tjá sig um þetta mál http://www.domaraskipan.net/

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.1.2008 kl. 01:25

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Snjöll og glögg grein hjá þér, Ómar, þessi réttmæta samlíking við vopnfirzka dæmið, og kemur við sjálfa kviku málsins. Afar athyglisverð líka þessi inngangsklausa þín.

Jón Valur Jensson, 16.1.2008 kl. 01:32

4 Smámynd: Þarfagreinir

Góður pistill - einföld og snjöll samlíking.

Þetta mál er allt saman skelfilegt, og vona ég að sem flestir átti sig á alvarleika þess. Ég hef til að mynda aldrei séð jafn óvandaðan og ómaklegan málflutning hjá jafn mörgum ráðherrum í einu, og þann sem veður uppi þessa dagana, þegar reynt er að verja þennan óverjandi gjörning.

Á hvaða öld lifum við eiginlega? 

Þarfagreinir, 16.1.2008 kl. 02:06

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér skilst að gögn málsins séu ekki opinber, þ.e rökstuðningur Árna fyrir ráðningunni.  Árni átelur Sigurð Líndal o.fl. fyrir að vera stóryrtir án þess að hafa séð rökstuðninginn. Vissulega lítur þetta ekkert sérlega vel út fyrir Árna en ég geri alltaf ráð fyrir því að menn segi sannleikann þar til annað reynist sannara. Eins og Árni tilgreindi í Kastljósviðtalinu þá BER honum að taka ákvörðun út frá sinni eigin sannfæringu. Sumir slá því föstu að hann segi ósatt um sannfæringu sína. Ég hef ekki séð neinar sannanir fyrir því ennþá.

Til þess að koma í veg fyrir svona álitamál, þá þarf einfaldlega að breyta reglunum. En afhverju ganga allir út frá því sem vísu að þessi faglega matsnefnd sé óskeikul? Huglægt mat verður seint fært undir fræðilegt mat, samt er oftast gert ráð fyrir huglægu mati að hluta, í ákvörðunum um ráðningar. Er matsnefndin samansafn sérfræðinga um huglægt mat?

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2008 kl. 02:39

6 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Góð grein hjá þér Ómar.  Svör Árna við eru út ekki góð hann er að reyna að breiða yfir sinn enginn skít.  Það er eins með Össur hann skipaði tvö þann 2.jan og báðar skipanirnar eru umdeildar.  í svörum Össurar segir hann að hæfasti einstaklingur hafi verið ráðinn sem ferðamálastjóri en hún er samt ekki mentuð í ferðafræðum og margir aðrir sem sóttu um voru bæði með meiri starfsreynslu og með nám í ferðafræðum.  En það sem kom svo fram æi fréttum að bæði Orkumálastjóri og ferðamálastjóri hafa stutt samfylkinguna.   með þessum þremur skipunum sem Össur og Árni hafa gert eru allir sem skipaðir voru í sama flokk og ráðherra.  Er þetta tilviljun eða eru ráðherrar að misnota vald sitt.  Ég held því fram að misnotkun á valdi sé þarna í gangi. 

Þórður Ingi Bjarnason, 16.1.2008 kl. 08:08

7 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Mér finnst þessi samlíking frekar sérstök. Ég hefði stutt hreppsnefndina ef styrkþeginn hefði verið sonur fátæks bónda sem hefði þar að auki verið duglegur við að hjálpa pabba sínum. Þingmaðurinn hefði sjálfur getað kostað son sinn til náms. Rök hreppsnefndarinnar eru nefnilega alls ekki fráleit við þessar aðstæður sem þú nefnir og þarna er um að ræða áfanga á námsferli.

Ráðning Árna Matt er hins vegar óverjandi með öllu. 

Þóra Guðmundsdóttir, 16.1.2008 kl. 09:15

8 identicon

“Skylt að ráða þann hæfasta

Í þessu sambandi má nefna að stundum gleymist í umræðunni hérlendis að það er óumdeild lagaregla að skylt er að ráða þann hæfasta; ekki er nægilegt eins og stundum virðist talið að ráða einn af mörgum hæfum. Ef slíkt er leitt í ljós er ákvörðun um ráðningu í starf ólögmæt.”

http://www2.bhm.is/main/view.jsp?branch=618844

Ólögleg embættisveiting:

http://www.visir.is/article/20080116/SKODANIR03/101160040 


Sigurður Líndal á heiður skilinn fyrir að taka upp hanskann fyrir siðað samfélag og rísa gegn spillingarfúski og ofstopamönnum:

http://vefblod.visir.is/index.php?s=1641&p=45064

Rómverji (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 09:19

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér er ekki um einn skipaðan einstakling að ræða, Erlingur, heldur tvo. Um annað málið ræði ég hér: Ráðherragjörð sem vafasöm má virðast: skipan orkumálastjóra.

Jón Valur Jensson, 16.1.2008 kl. 09:21

10 identicon

Skipanir Össurar eru sannarlega ámælisverðar.

Sá er nú ekki kresinn þegar kemur að siðferði, enda ver hann Árna Matt. Þá er skemmst að minnast eftirlaunaspillingarinnar, þar sem Össur var primus motor.

Rómverji (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 09:35

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tel rétt að ítreka það að með þessum og öðrum pistlum mínum er ég alls ekki að segja að allar mannaráðningar af því tagi að grunsamlegar þyki séu rangar. En þegar um langa röð er að ræða verður það til þess að allir þeir sem ráðnir eru, svo og þeir sem veita stöðurnar, líða í raun fyrir það gagnvart almenningsálitinu. Það er dapurlegt.

Dómkerfið er sérstaklega viðkvæmt því að í lögunum er reynt að búa svo um hnúta að allur almenningur geti borið traust til þess og treyst því að það sé eins óháð löggjafar- og framkvæmdavaldinu og kostur er.

Ómar Ragnarsson, 16.1.2008 kl. 09:51

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gunnar Th., þú reynir hér að verja Árna út frá því, (1) að "gögn málsins [séu] ekki opinber, þ.e rökstuðningur Árna fyrir ráðningunni, og þú segist "alltaf [gera] ráð fyrir því að menn segi sannleikann þar til annað reynist sannara," og þú kveðst engar sannanir hafa fyrir fyrir því ennþá, að Árni hafi tekið ákvörðun gegn sinni eigin sannfæringu. – Þetta með sannfæringuna er reyndar ekki, að ég hygg, lagaákvæði um ráðherraskyldur, heldur um alþingismenn í þingstörfum þeirra (og ráðherrar þurfa ekki að vera þingmenn). Árna ber að skipa þann hæfasta eða einn hinna hæfustu, ef þeir eru nokkrir í bezta gæðaflokki. Einmitt þess vegna kveðst hann hafa talið Þorstein hæfastan. En Árni getur ekki búið yfir neinum þeim gögnum um hæfni Þ.D., sem dómnefndinni séu ókunn, því að vitaskuld tjaldaði Þ.D. öllu bitastæðu til í umsókn sinni. Árni hefur í fjölmiðlum reynt að nefna nokkur þeirra, sem honum fannst veigamikil, þar á meðal gat hann þess sérstaklega, að Þorsteinn ætti "auðvelt með að setja fram skýran lögfræðilegan texta." Ég fæ ekki betur séð en þessi meðmæli Árna hrynji til grunna, þegar eftirfarandi klausa er lesin í þeirri greinargerð dómnefndarinnar, sem hún gaf út eftir skipun Þorsteins í starfið:

  • "Þá verður að setja sérstakan fyrirvara við þá ályktun ráðherra, sem ekki verður dregin af umsóknargögnum, að Þorsteinn „eigi auðvelt með að setja fram skýran lögfræðilegan texta.“ Um þetta sagði í umsögn dómnefndar um Þorstein: „Umsækjandi hefur ekki lagt fram höfundarverk af einhverju tagi svo að meta megi tök hans á íslensku máli og rökhugsun við úrlausn vandasamra lögfræðilegra verkefna og hefur hann ekki bætt úr þessu frá fyrri umsókn sinni um dómaraembætti.“"

(2) "En afhverju ganga allir út frá því sem vísu að þessi faglega matsnefnd sé óskeikul? Huglægt mat verður seint fært undir fræðilegt mat, samt er oftast gert ráð fyrir huglægu mati að hluta, í ákvörðunum um ráðningar. Er matsnefndin samansafn sérfræðinga um huglægt mat?" – Þannig spyrðu, Gunnar Th., en allt virðist þetta tal þitt eiga að sá efasemdum í huga lesenda um réttmæti gagnrýninnar á þessa stöðuveitingu. "Huglægt mat" er hugtak sem þú tekur að láni úr loðnum málflutningi Árna Mathiesen í Kastljósi í gær, en staðreyndin er sú, að dómnefndin tekur fyrst og fremst ákvörðun út frá rannsókn á hlutlægum upplýsingum um menntun, reynslu, ritstörf og starfsferil umsækjenda. Á henni hvílir sú embættisskylda að gera þetta vel, og þegar ráðherrann talar um "mistök" hennar við verkið, án þess að rökstyðja (og án þess að vera beðinn af spyrli Sjónvarpsins að rökstyðja) það á skýran og skilmerkilegan hátt, þá sýnast mér þessi léttvægu ummæli hans verða að kallast aðför eða aðdróttun að embættisheiðri dómnefndarmanna.

Jón Valur Jensson, 16.1.2008 kl. 09:53

13 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta er greinilega alveg meingallað kerfi við ráðningu dómara.

Að dómari skuli vera settur í þakkarskuld við æðstuöfl í stjórnmálaflokki varðandi ráðningu í embættið...er ekki traustvekjandi..alveg burtséð frá viðkomandi einstaklingi.

Það er mjög mikilvægt að dómstólar njóti trausts allra landsmanna.

Það er brýnt að breyta þessu ráðningarferli í embætti dómara. 

Sævar Helgason, 16.1.2008 kl. 10:14

14 Smámynd: Þarfagreinir

Össur hefur að mínu mati alls ekki gengið drenglega fram í þessu máli og dæmist af því. Slíkt hlýtur líka því miður að setja frekari spurningamerki við heilindi hans í hans eigin ráðningum.

Varðandi þitt innlegg, Gunnar Th. Gunnarsson, þá vil ég nú meina að sönnunarbyrðin sé Árna. Hann heldur því fram blákalt að hann hafi hugsað málið lengra en þriggja manna sérfræðinefnd, og það á skemmri tíma en hún - en útskýringarnar á því hvernig hann fór nú eiginlega að því láta eitthvað á sér standa. Hvað meinar honum þá eiginlega að gera almennilega grein fyrir í hverju sú vanhæfni, sem hann vænir nefndarmenn um, fellst eiginlega - og eyða þar með öllum vafa um eigin heilindi? Eiga menn að komast upp með það að vega með þessum hætti að heiðri annarra, án þess að þurfa að standa fyrir því máli sínu, nema að því leyti að segja að þeir séu bara ósammála, og að álit þessa manna sé "mjög gallað"?

Nefndarmenn hafa gefið frá sér ágætlega málefnalega greinargerð, sem enginn ráðherra virðist sjá ástæðu til að svara efnislega. Þess í stað ganga menn fram með útúrsnúningum, skætingi, og jafnvel rangfærslum - allt, að því er virðist, til að láta nefndina líta sem verst út, gera sem minnst úr hennar málflutningi, og forðast að ræða málin á réttum forsendum. 

Samviskuspurning: Eftir góðan lestur á greinargerðinni, hvernig samrýmist málflutningur Árna því sem stendur í henni í raun og veru?

Önnur samviskuspurning: Að því gefnu að misræmið sjáist, er líðandi að ráðherrar gangi fram með þessum hætti á opinberum vettvangi - forðist að ræða málin á réttum forsendum, og vegi í þokkabót að starfsheiðri annarra, einungis með vísun til þess að þeir séu þeim bara ósammála?

Þriðja samviskuspurning: Hvað gengur Árna til með þessu hátterni? 

P.S. Ég gerist jafnframt svo djarfur að leggja til, að fólk lesi minn eigin pistil um viðtalið við Árna.

Þarfagreinir, 16.1.2008 kl. 10:21

15 identicon

Í sjálfu sér er fyrirkomulag við skipun í embætti dómara í lagi. En ef ráðherrar skeyta hvorki um skömm né heiður eða lagareglur, þá þarf auðvitað að bregðast við því.

Vonandi kemur skipun Árna til kasta dómstóla.

Össur ætti fólk að hafa séð í gegnum fyrir löngu, og Samfylkingarfólk að hjálpa honum alveg út af framboðslista flokksins.

Rómverji (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 10:28

16 Smámynd: Sigurður Hrellir

Björn.is fékk Árna vin sinn til að gera sér stóran greiða. Þeir eru báðir í Davíðsarmi Sjálfstæðisflokksins og skyldi því engan undra hver fékk dómaradjobbið, sérstaklega með hliðsjón af dómaraskipunum Björns.is á síðustu árum.

Það vekur hins vegar furðu mína að félagshyggjuarmur flokksins með þau Þorgerði Katrínu og Geir Haarde í fararbroddi skuli taka upp hanskann fyrir Árna í þessu misbeitingarmáli. Þau kjósa þrátt fyrir allt að slá skjaldborg utan um hinn fallna erfðaprins og verja með því slæman málstað.

Sigurður Hrellir, 16.1.2008 kl. 11:22

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ráðningarferlið gerir ráð fyrir því að ráðherri taki ákvörðun um málið. Mér er ekkert sérstakt kappsmál að verja Árna og mér leiðist jafnt og öðrum þegar svona mál koma upp. Það hlýtur að vera hægt að búa þannig um hnútana að þetta verði ekki að vinsælu dægurþrasi. Einhver matsnefnd úr röðum dómara er ekki hafinn yfir vafa um óréttlátann úrskurð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2008 kl. 17:51

18 identicon

Það er ekki deilt um hver hefur valdið, það er ráðherra. En þegar ráðherra misnotar vald sitt, þá mótmælum við, og þetta verður ekki að vinsælu þrasi, hugsandi fólki sem sér með báðum augum fer ekki að verja svona, þó ein og ein undantekning sé til.

Meinar þú ekki " hafinn yfir vafa um réttlátan úrskurð " ?? 

Bjartur (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 18:41

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aðal gallinn er sá að aðili að framkvæmdavaldinu ræður í stöðu í dómskerfinu sem á að vera sem óháðast framkvæmdavaldinu. Endurtekin upphlaup vegna ráðninga í dómskerfinu ættu að hvetja menn til að finna heppilegri tilhögun þannig að náð verði þeim tilgangi laganna um þetta að auka traust almennings á dómskerfinu.

Ómar Ragnarsson, 16.1.2008 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband