Nýr orrustuvöllur.

Ólafur F. Magnússon gekk sem óháður til liðs við Frjálslyndaflokkinn í borgarstjórnarkosningunum 2002. Þá átti það mestan þátt í því að honum tókst að fylgja fram umhverfisstefnu sinni á vettvangi borgarmálanna, að orrustuvöllur stóriðjustefnunnar og náttúrunýtingarstefnunnar var að mestu utan suðvesturhornsins. Þingmenn flokksins höfðu meira að segja setið hjá í atkvæðagreiðslum á þingi um stórvirkjanir á Austurlandi.

Af þessum sökum ónáðaði það ekki fylgismenn álvera úti á landi mikið þótt Ólafur og samherjum hans væri gefinn býsna laus taumur í Reykjavík.

Góður árangur Ólafs 2002 gerði honum kleift að heyja umhverfisbaráttu í kosningunum 2006 með öflugum samherjum á borð við Margréti Sverrisdóttur, Guðrúnu Ásmundsdóttur og Ástu Þorleifsdóttur. Með því að bæta flugvallarmálinu við og gera það að nokkurs konar aðalmáli og sérstöðu framboðsins jók F-listi frjálslyndra og óháðra fylgi sitt verulega.

En á núverandi kjörtímabili borgarstjórnar hafa aðstæður breyst. Í aðdraganda alþingiskosninganna 2007 kom berlega í ljós að Frjálslyndi flokkurinn var orðinn stóriðjuflokkur. Með tilkomu álvers í Helguvík og útþenslu álvera og virkjana á Suðvesturlandi hafa átökin um stóriðju- og virkjanastefnuna færst inn í sveitarstjórnarmál á svæðinu og þar með inn í borgarstjórn Reykjavíkur eins og Bitruvirkjun er gott dæmi um.

Haustið 2006 hefði ég talið heppilegast að breikka fylkingu umhverfisverndarfólks án þess að fjölga framboðum með því að Frjálslyndi flokkurinn yrði grænn. En það varð hann því miður ekki eftir hið farsakennda landsþing sitt í janúar 2007.

Aðeins var tímaspursmál hvenær stóriðjuflokkarnir úr síðustu ríkisstjórn tækju höndum saman í borgarstjórn Reykjavíkur eins og nú hefur gerst í annað sinn og ynnu að því að láta stóriðju- og virkjanadrauma sína rætast.

Í frjálslynda flokknum ræður stóriðjustefnan ríkjum og með yfirráðum Jóns Magnússonar og fylgismanna hans yfir nýstofnuðu borgarmálafélagi flokksins er búið að úthýsa þaðan náttúrunýtingarstefnunni og því sem Jón kallar "kofasósíalisma" Ólafs F. Magnússonar. Þar að auki hefur Jón lýst því yfir að verði innanlandsflugið ekki áfram í Vatnsmýri vilji hann að hann það flytjist til Keflavíkur, sem er sá kostur sem á einna minnst fylgi.

Jón, sem hefur stundað stanslausar árásir á Ólaf F. og umhverfisverndarfólk um langa hríð, vígbýst nú í stóriðju-og steypuvirki borgarmálafélagsins og er ákveðinn í að varna Ólafi og skoðanasystkinum hans inngöngu, hvað sem Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokksins segir.

Af yfirlýsingum Jóns, Magnúsar Þórs og fleiri ráðamanna í Frjálslynda flokknum má ráða að nú eigi ekki að líða F-listanum í Reykjavík að gefa andstæðingum stóriðjustefnunnar lausan taum á vettvangi borgarstjórnar eins og þótti í lagi hér áður fyrr. Vígstaðan hefur breyst og stóriðjusinnarnir í flokknum hafa reist borgarvirki til yfirráða yfir borgarmálastefnu hans.

Ef í brýnu slær út af þessu mætast stálin stinn því Ólafur er einn allra fremsti og ötulasti baráttumaður fyrir umhverfissjónarmiðum, sem við höfum eignast, en Jón hins vegar stóriðjusinni, - algerlega á öndverðum meiði við Ólaf um flest s.s. náttúruvernd, húsafriðun og flugvöll.

Ég tel Ólaf meira en lítið hugaðan að ætla sér í slag við ofurefli liðs í víggirtum stóriðju- og steypu-kastala Frjálslynda flokksins og ég er satt að segja hreint á nálum út af því. En þetta er hans ákvörðun og ég virði hana og óska honum góðs gengis því honum mun svo sannarlega ekki veita af góðum óskum í þeim erfiða leiðangri sem hann er lagður upp í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jahérna, bara verið að hylla liðhlaupann!

Ólafur F. flengist á milli flokka í örvæntingarfullri leit að baklandi. Ég held að maðurinn ætti að taka sér hvíld frá pólitík í 2-3 ár til að ná heilsu og ef hann hefur heilsu til að þeim tíma liðnum, þá er sjálfsagt fyrir hann að hefja baklandsleitina að nýju.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2008 kl. 01:05

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er nauðsynlegt að Íslandshreyfingin haldi starfi áfram þrátt fyrir að skorta fjármagn á við hina flokkana. Tilgangurinn með henni var að breikka fylkingu umhverfisverndarfólks og gefa kost á fyrsta og eina íslenska flokknum sem er með umhverfismál sem helsta stefnumál sitt og skilgreina sig hvorki til vinstri né hægri.

Það veltur síðan á pólitísku ástandi í næstu kosningum hvort og hvernig Íslandshreyfingin gæti gert gagn. Þá þarf hún að vera tilbúin að taka þann slag sem þarf.  

Ómar Ragnarsson, 22.8.2008 kl. 21:13

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef ég stofna flokk sem hefur eitthvert tiltekið áhugamál mitt á stefnuskránni, hef ég þá rétt á fjárframlögum úr ríkissjóði til þess að reka áróður fyrir áhugamáli mínu á pólitískum grundvelli? ... Ég held ekki.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2008 kl. 02:20

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hafa skal það er sannara reynist og ég vil í þessu sambandi alls ekki hafa í huga nafn neins annars en mannsins sem ég veit að talaði við Helgu. Kynni mín síðar af Kjartani Gunnarssyni eru á þann veg að ég ætla honum ekki að hafa staðið á bak við einkasamtal annars manns við konu mína.

Sá maður var hins vegar þannig staðsettur í valdakerfinu að taka varð mark á hótunum hans. Samtal hans var í trúnaði og þann trúnað ber að halda burtséð frá umræðuefninu.

Gunnar, Íslandshreyfingin hafði jafn fjölbreytta og mótaða heildarstefnu í málaflokkum stjórnmálanna og hin framboðin. Hlálegt er hvernig menn setja fram þá kröfu að sumir flokkar séu "aðalflokkar" og aðrir þá væntanlega "aukaflokkar". Það var Vilmundur heitinn Gylfason sem orðaði þetta á þennan veg á sínum tíma þegar menn sögðu að "aukaframboð" ættu ekki rétt á sér.

Þau 3,3 prósent sem greiddu Íslandshreyfinguni atkvæði áttu lagalegan og siðferðilegan rétt á að fá sama styrk og hver 3,3 prósent af atkvæðafylgi hinna flokkanna úr því að lög giltu um þetta á annað borð.

Í þessum kosningum nægðu 3,3 prósent til að fá tvo menn kjörna hjá öllum flokkunum nema Íslandshreyfingunni vegna ranglátra kosningalaga sem byggjast á því, eins og í Tyrklandi og Rússlandi, að sumir flokkar séu óæskileg "aukaframboð."

Gunnar og félagar hans telja sem sagt að hinir flokkarnir hefðu einir átt að falla undir lögin sem þeir settu. Þokkaleg lýðræðishugsun það!

Ómar Ragnarsson, 24.8.2008 kl. 11:55

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Og eitt í viðbót. Samkvæmt lögunum hefur enginn rétt á að fá framboðsstyrk úr ríkissjóði fyrr en eftir að staðfest er í kosningunum að hann hafi fengið minnst 2,5 prósent atkvæða, en það atkvæðamagn samsvarar 1,5 þingmönnum.

Sá aðili ,sem fer út í kosningar sem aldrei geta kostað minna en tugir milljóna miðað við nútíma kosningabaráttu, tekur þá áhættu að tapa þessum fjármunum ef hann fær minna en sem svarar einum og hálfum þingmanni.

Þetta hefði ég talið að ætti að vera nóg hindrun til að yfirvinna miðað við það fljúgandi fjárhagslega start sem "aðalframboðin" fá á grundvelli fyrri fjárframlaga sem þeir hafa úr að spila.

Ómar Ragnarsson, 24.8.2008 kl. 12:01

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki á móti lýðræði, síður en svo, heldur er ég á móti skrumskælingu lýðræðisins. Íslandshreyfingin var stofnuð út frá einu áhugamála þinna og stefnuskránni var hróflað upp í flýti rétt fyrir kosningar til að reyna að klæða þessa flokksónefnu í einhvern búning.

Það er lítið mál að ná 2-4% fylgi við ýmis dægurmál, jafnvel þó málefnið sé bara grín. Ég vil ekki að opinberu fé sé varið í svoleiðis framboð. 5% reglan er fín.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.8.2008 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband