Hverjir fóru til að "finna eitthvað á hann"?

Það er skemmtileg tilviljun að daginn eftir bloggpistil minn um aðferð Davíðs Oddssonar sem ég kalla "finndu eitthvað á hann"-aðferðina, skuli upplýst hvernig Davíð lagði það upp árið 2003 að gera forseta Íslands að athlægi um víða veröld með því að afhjúpa ólöglegt hjónaband hans og Dorritar, afhjúpa afglöp sýslumannsins í Hafnarfirði og afglöp erlendra kollega sýslumanns, sem hefðu væntanlega gefið fyrrverandi eiginmann Dorritar oftar en einu sinni í ólöglegt hjónaband!

25 ára löng hneykslissaga fjölþjóðlegs fjölkvænis! Gerist varla meira krassandi.

Í bloggpistli mínum lýst ég því hvernig reynt var að hræða mig frá gerð myndarinnar "Á meðan land byggist" með hótunum, sem urðu til í andrúmslofti þar sem ekki þurfti einu sinni atbeina Davíðs til að koma "finndu eitthvað á hann"-aðferðinni í gagnið. Það nægði að viðkomandi héldu að Davíð hugnaðist þetta afsprengi óttans sem gegnsýrði þjóðfélagið.

Svo virðist sem aðförin að forsetanum hafi farið á sömu lund og það sem mér var ætlað. Í ljós kom að allir hjúskapargerningarnir, bæði erlendis og hér heima voru löglegir en Davíð gat látið alla á Hagstofu Íslands og hjá sýslumanninum í Hafnarfirði skjálfa af ótta vikum saman vegna þess að erfitt var að hafa uppi á 25 ára gömlu skilnaðarvottorði erlendis frá.

Eftir situr spurningin um leyniþjónustu Davíðs, bæði þá sem stjórnað var og ekki síður hinni sem var sjálfvirk. Hverjir fóru og fundu eitthvað á forsetann með því að snuðra í gögnum hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði?

Hve víða var farið til að "finna eitthvað á" Ólaf Ragnar og hans fólk? Hvaða meðöl voru notuð? Hve langt mátti ganga? Vonandi ekki að nota símhleranir?

Nei, þar geng ég sennilega of langt, þótt þetta mál sýni allt að það virtust lítil takmörk fyrir því hve hægt var að ganga langt. Og nú bíða allir spenntir eftir því hvað Davíð hefur á Geir og aðra með samtölunum sem hann segist "hafa undir höndum."  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Viðskiptanefnd Alþingis ákvað í morgun að kalla Davíð Oddsson seðlabankastjóra á fund sinn til að skýra frá þeim upplýsingum sem hann segist búa yfir um beitingu hryðjuverkalaga í Bretlandi gegn íslenskum bönkum. ... Er ætlast  til að Davíð mæti á næsta fund, eftir viku."

Þorsteinn Briem, 20.11.2008 kl. 13:18

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ég er hreinlega kjaftstopp! Ekki yfir því sem við vitum um embættisfærslur Davíðs "konungs" Oddsonar. Nei, ég er kjaftstopp yfir því hreinlega að Íslendingar leyfi þessum manni að sitja "þrátt fyrir allt" í stafi Seðlabankastjóra, sem nú hefur byrjað að leika "píslarvottshlutverkið" af slíkri einlægni og útgeislun að hvergi er sést þurr hvarmur hjá þjóðinni.

Veit enginn lengur hvað SANNLEIKUR ER og RÉTTLÆTI? 

Baldur Gautur Baldursson, 20.11.2008 kl. 13:32

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði árið 2005 Davíð Oddsson seðlabankastjóra til október 2012.

Þorsteinn Briem, 20.11.2008 kl. 14:01

4 identicon

Mér hefur fundist í alltof mörg ár að ástandið á stjórnar heimilinu vera eins og lýsandi dæmi um ástand á heimili alkans sem stjórnar öllu og öllu í kringum sig annaðhvort með yfirgangi eða fýlu,hans mottó er ég vil fá mitt þetta er ekki mér að kenna.SK'ITT MEÐ SANNLEIKANN EÐA R'ETTLÆTIÐ.

Ellý B.

Elíngunnur Birgisdóttir (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 14:10

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi pistill er enn ein hlekkurinn í þeirri keðju ófrægingarherferðar sem á Davíð hefur dunið alla tíð. Yfirleittf er um dylgjur og ósannaðar fullyrðingar að ræða og slíkt bítur þegar til lengri tíma er litið.

Ég hef verið þeirrar skoðunnar í nokkra mánuði að Davíð ætti að víkja, þó ekki væri nema vegna ófriðarbálsins sem stöðugt virðist kvikna í kringum hann. Brennuvargar leynast víða.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.11.2008 kl. 15:18

6 identicon

Það er skrýtið hvernig margir hafa fengið það á heilann að allt sé Davíð að
kenna. Það á greinilega að finna blóraböggul og þá er nærtækast að finna
þann sem maður hatar mest. Það er einmitt það sem einkennir alla þessa
umræðu framar flestu öðru - hatur: Rökræðan fer fyrir lítið en skítkastið
er því meira. Vissulega er Davíð ekki fullkominn en hvað hefur verið sannað
upp  á hann að hann verðskuldi svona skítkast og fyrirlitningu? Þá er ég að
biðja um rök en ekki orðróm eða skoðun fjöldans. Þeir sem mest virðast stunda
þetta skítkast tala mest um sannleika og réttlæti. Þvílíkur öfugsnúningur. Þetta er farið að verða eins og í hvalveiðimálinu - það snýst ekki um rök heldur tilfinningar.

Magnús (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 16:59

7 identicon

Einkennileg tímasetning hjá Fréttablaðinu að birta þetta núna svona mörgum árum seinna. Held að þeir séu á nornaveiðum og að dreifa athyglinni frá málum sem skipta einhverju máli nú til dags, eins og hvernig útrásargengið  með Jón Ásgeir í broddi fylkinga hefur komið þjóðinni í skuldafen.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 17:21

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvers vegna dettur mönnum alltaf hvalveiðar í hug þegar minnst er á Davíð Oddsson?

Þorsteinn Briem, 20.11.2008 kl. 17:45

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bréfin, sem Davíð hefur skrifað, allt frá bréfinu fræga til Sverris Hermannssonar til þessa sem nú er birt og hann sendi Ólafi Ragnari, sem og annað sem skjalfest er af umdeilanlegum verkum hans, - þetta eru staðreyndir en ekki "dylgjur eða ósannaðar fullyrðingar."

Öðru máli gegnir um samtölin sem hann sjálfur segist hafa undir höndum eins og hann orðar það og hann segir að eigi að sanna ástæðuna fyrir beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum. Hann birtir ekki þessi samtöl né rökstyður frekar þessar alvarlegu ásakanir.

Ég gæti skrifað langan bloggpistil um ágæti Davíðs og einstæða hæfileika hans og hef reyndar gert það, til dæmis þegar hann átti sextugsafmæli þegar ég birti langt lofkvæði um hann sem ég flutti eitt sinn á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Ekkert skorti á glæsilegan flutning hans á ræðunni umdeildu hjá Viðskiptaráðinu og svo flotta frammistöðu að hvað eftir annað stóð ég mig að því að hrópa upp, þar sem ég var staddur: "Djöfull er hann góður, maður!!"

Það var ekki fyrr en eftir á þegar maður fór að spá í það hvað hann sagði virkilega sem að sló á glýjuna í augum manns.

Hann er einn þessara manna sem getur töfrað heilu samkomurnar upp úr skónum með persónutöfrum, seiðmagni og hárbeittum og mögnuðum húmor. Ferill hans sem borgarstjóra var líklega glæsilegasti ferill nokkurs borgarstjóra í sögu Reykjavíkurborgar og verkin sýna merkin í höfuðborginni. 

Ég minnist frammistöðu hans í fyrsta þættinum "Á líðandi stundu", en eftir þann þátt sagði Gvendur jaki við mig: "Guð hjálpi okkur, andstæðingum hans í pólitík."

Og Guðmundur sagði þetta á þann hátt að meira hrós fyrir snilld var varla hægt að gefa Davíð en þessi orð eins harðasta andstæðings hans.

En síðan eru liðin 22 ár og enginn maður er svo fullkominn að hann geti átt að baki samfelldan 26 ára valdaferil (hann varð borgarstjóri 1982) án þess að hafa stigið feilspor.

Þau eru orðin of mörg að mínum dómi og hefði Davíð hætt eftir átta ár sem forsætisráðherra, jafn mörg ár og bestu Bandaríkjaforsetar fá að sitja, þá væri myd hans bjartari en hún er nú.

Ég hef þekkt Davíð lengi og haft á honum miklar mætur, hvort sem fólk trúir því eða ekki. Mér þykir of vænt um hann til þess að ég geti látið sem ekkert sé þegar hæfileikar hans nýtast ekki eins og vert væri. Vinur er sá er til vamms segir.

Ómar Ragnarsson, 20.11.2008 kl. 21:03

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En eins og málið leit út með forsetann og hjúskaparmál hans.... var þetta bréf þá ekki bara eðlilegt? Hversu vandræðalegt hefði það verið, ef þessir skilnaðarpappírar eiginkonunnar hefðu ekki komið í leitirnar? Málið var að þessir umbeðnu pappírar bárust ekki og Forsetinn fékk flýtimeðferð á giftinguna umfram aðra þegna þessa lands. En afhverju honum lá svona á er kannski efni í aðra forsetasögu

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.11.2008 kl. 22:46

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dorrit gat átt lögheimili á Bessastöðum sem sambúðarmaki Ólafs Ragnars. Hún þurfti ekki að giftast honum til þess.

Dorrit hefði hins vegar átt að leggja fram skilnaðarpappíra sína þegar hún giftist Ólafi Ragnari en sýslumaður gifti þau engu að síður og vandséð hvers vegna Davíð Oddsson hefði átt að vera með nefið ofan í þeim koppi.

Þorsteinn Briem, 20.11.2008 kl. 23:39

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég efast um að Davíð hafi verið með nef sitt í þeim koppi. Honum hefur verið bent á þetta og það hefðu erlendir papparassar gert líka, á forsíðum götublaðanna, ef þessir hlutir hefðu ekki verið í lagi. Það hefðu getað orðið kostulegar fyrirsagnir, sérstaklega í bresku blöðunum. Þeir eru snillingar í fyrirsögnum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 01:12

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bent á hvað, Gunnar minn? Hjónaband Dorritar og Ólafs Ragnars var alla tíð gilt og er enn gilt. Það varð ekki allt í einu gilt þegar Dorrit lagði fram skilnaðarpappírana, að kröfu Davíðs Oddssonar, sem hafði akkúrat ekkert fyrir sér í því að Dorrit væri ekki skilin, nema einhverjar kjaftasögur.

En Davíð kemur það ekkert við hvort Dorrit og Ólafur Ragnar eru gift eða ekki gift, frekar en önnur pör í landinu.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 01:38

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú! Kemur það ekki forsætisráðherra né þjóðinni við hvort áhöld séu um það hvort hjónaband forsetans sé löglegt eða ekki? Á meðan illar tungur eru að smjatta á því að skilnaðarpappírarnir höfðu ekki skilað sér eins og Ólafur lofaði, þá væri það nú eitthvað skrítið ef æðsti pólitíski valdhafinn í landinu léti sér slíkt mál í léttu rúmi liggja.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 02:47

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er ekki í verkahring forsætisráðherra að kanna hvort forseti Íslands er kvæntur eða ekki, og hlaupa á eftir slúðursögum, eins og hver önnur kjaftakerling.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 03:02

16 Smámynd: Jón Ragnarsson

Eins gott að hafa alla pappíra á hreinu þegar maður giftir sig. Annars fær maður bréf frá Davíð! Ætli fleiri pör hafi lent í svona?

Jón Ragnarsson, 21.11.2008 kl. 11:24

17 identicon

Einkennilegar athugasemdir hjá þér Steini Briem. Áttu við að það væri bara allt í lagi ef forseti Íslands fengi sér sambúðarmaka eins og ekkert væri eða skipti um maka á Bessastöðum þegar hann væri í þannig skapi? Eða fengi sér kannski líka hjákonu? Er ekki augljóst að hann þurfi að gefa gott fordæmi? Og það gerði hann með því að gifta sig. Gott hjá honum.

Og varðandi skilnaðarpappírana: Ef Jón og Gunna geta ekki gift sig aftur án þess að sýna skilnaðarpappíra er þá til of mikils mælts að sjálfur forseti Íslands geri það?
Og ef valdamesta manni landsins (forsætisráðherra) kemur ekki við hvernig ímynd forseta landsins er, hverjum kemur það þá við?
Og auðvitað kemur okkur öllum við hvernig ímynd æðstu ráðamanna þjóðarinnar er án þess að gleyma okkur í smáatriðum. En varla telst hjúskaparstaða forseta Íslands smáatriði.

Magnús (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 12:47

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús. Engum kemur við hvort forseti Íslands er kvæntur eða ekki og það er engan veginn ómerkilegra að eiga sambúðarmaka en maka. Ef forseti Íslands vill koma því á framfæri við þjóðina að hann sé kvæntur maður er það hans mál en hann verður ekki merkilegri maður fyrir vikið.

Og sama vers með Dorrit. Hún verður hvorki merkilegri né ómerkilegri kona við það að giftast og þá skiptir engu máli hverjum hún giftist. Hins vegar er til mikillar fyrirmyndar að vera með gyðing á Bessastöðum.

En hvort þessi gyðingur er maki eða sambúðarmaki prótestants á sama bæ og samtýnis breytir engu, nema gagnvart Jesú Kristi, sem sjálfur var ókvæntur gyðingur en nýtur þó allmikillar virðingar. Á Bessastöðum hefur meira að segja verið reist sérstakt hús honum til dýrðar og er kallað kirkja.

Sýslumaður gifti hins vegar Dorrit og Ólaf Ragnar, og það er við sýslumann að sakast að hann krafðist þess ekki að Dorrit legði fram skilnaðarpappíra sína við giftinguna. Og sýslumenn heyra undir dómsmálaráðuneytið en ekki forsætisráðuneytið.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 13:41

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég tek undir með þér Magnús. Afstaða Steina Briem er torskilin. Ég held að hatur hans á Davíð sé að valda honum einhverjum fyrirtíðarkvíða

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 13:43

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta liggur allt saman ljóst fyrir, strákar mínir, og er engan veginn torskilið, nema fyrir þá sem eru tornæmir.

Við Davíð Oddsson erum frændur, báðir af Briemsættinni, og það hefur aldrei hvarflað að mér að hatast við ættingja mína, enda skrifaði ég lofræðu hér langa um Davíð fyrir skömmu.

Ég tek hins vegar undir með Ómari Ragnarssyni þegar hann segir að Davíð hafi einnig gríðarlega stóra galla. Og það er sjálfsagt að gagnrýna þá og þessa stórfurðulegu framkomu hans, í staðinn fyrir að upphefja hann á stall, sem hann á engan veginn heima á.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 14:31

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er líka óþarfi að gagnrýna hann bara af því maður elskar að hata hann. Þetta bréf er held ég dæmi um það.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2008 kl. 17:01

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það má gagnrýna bæði Davíð og Ólaf Ragnar fyrir ýmislegt. Báðir eru þeir þjónar fólksins í landinu, en ekki öfugt, og engan veginn yfir gagnrýni hafnir.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 17:13

23 identicon

Sæll Steini Briem og fl.
Þessi umræða er farin að færast á viðkvæmara stig!
Ég er íslenskur þegn og mér kemur svo sannarlega við hvernig forseti landsins míns hegðar sér í meginatriðum - þótt ekki væri nema vegna atkvæðis míns. Það skiptir miklu máli hvort hann heiðrar hjónabandið eða ekki. Það felst m.a. siðferðisleg fyrirmynd í því og hún er miklu meira virði en öll sú landkynning sem hann hefur staðið fyrir. Og varðandi Gyðinga þá sé ég ekki hvað það kemur málinu við. Þeir eru miklir vinir mínir almennt séð en ég vissi ekki að það væri til umræðu hér. Eigum við ekki að halda okkur við efnið? Við vorum aðallega að tala um þessa skilnaðarpappíra.

Ég skil ekki hvað það kemur málinu við hvort Davíð er frændi þinn eða ekki.
Er málstaður hans nokkuð betri eða verri fyrir það?
Ég er engan veginn að upphefja Davíð á stall, eins og þú segir og ég hef aldrei hvorki hitt hann né talað við hann . En má hann ekki njóta sannmælis eins og aðrir? Á ég að sýna honum andúð eða hatur til að sanna að ég sé ekki að hefja hann upp á stall?
Ég efast ekki um að Davíð hafi ýmsa galla og kannski eru þeir "gríðarlega stórir" eins og þú segir. En eru þessir skilnaðarpappírar virkilega dæmi um það? Ef svo er þá mætti aldeilis gagnrýna ýmsa aðra jafn mikið. Umræðan um Davíð er greinilega lituð af persónulegri andúð og tilfinningum en ekki rökstuddri umræðu.
Og ég spyr aftur: Ef Jón og Gunna geta ekki gift sig aftur án þess að sýna skilnaðarpappíra er þá til of mikils mælts að sjálfur forseti Íslands geri það?

Magnús (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 17:19

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús. Ef einhver talar hér út og suður ert það þú sjálfur, elsku kallinn minn.

1. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði átti að krefja Dorrit um skilnaðarpappírana en gerði það ekki og gifti Dorrit og Ólaf Ragnar án þess að hafa skilnaðarpappírana undir höndum.

2. Það var því við sýslumanninn að sakast í þessum efnum en ekki þau sem hann gifti í þessu tilfelli.

3. Sýslumenn heyra undir dómsmálaráðuneytið en ekki forsætisráðuneytið og Davíð Oddssyni kom þetta mál því ekkert við, frekar en mér eða þér, hvern svo sem þú kýst í Alþingis- og forsetakosningum, eða hvort þú kýst nokkurn yfirhöfuð.

Forseti Íslands getur búið með svörtum og trúlausum homma án þess að þér komi það nokkurn skapaðan hlut við. Það er trúfrelsi í landinu, samkvæmt Stjórnarskrá Íslands, og einkalíf manna, fjölskylda og heimili er einnig verndað, samkvæmt Stjórnarskránni.

Og hvorutveggja gildir um forseta Íslands. Hann getur til dæmis verið trúlaus eða Ásatrúar, ef honum sýnist svo, enda þótt hér sé evangelísk-lútersk þjóðkirkja.

4. Gunnar sakaði mig hér fyrr í umræðunni um að hata Davíð Oddsson. Ég sagði honum að við Davíð værum skyldir og ég hataði hvorki hann né aðra í ættinni. Ég fæ ekki séð að þú þurfir að blanda þér í það spjall okkar og þú ættir nú að taka þér smá tak áður en þú byrjar að gagga hér eins og móðursjúk hæna.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 18:38

25 identicon

Nú? Er þessi þráður einkasamtal ykkar eða er hann lokaður fólki eins og mér? Þú ávarpaðir okkur "strákar mínir" þegar þú nefndir skyldleika við Davíð.

Þér finnst að ég ætti að taka mér tak? Viltu ekki bara líta í eigin barm? Það virðist vera sem ég fari eitthvað í taugarnar á þér. Ég hélt að það væri hægt að rökræða við þig svo að við hefðum sameiginlegt gagn af því en það virðist vera hægara sagt en gert því tónninn í þér versnar. Ég vil ekki segja neitt ljótt um þig en kannski ættirðu ekki að líkja öðrum við móðursjúkar hænur. Það gæti ræst á sjálfum þér.

Magnús (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 20:50

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús minn. Farðu nú að hætta þessu bulli hérna. Þú ert greinilega á eiturlyfjum.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 21:24

27 identicon

Steini. Orð þín hljóta að lýsa þínum innri manni. Ég og fleiri erum að reyna að tala skynsamlega við þig en þú svarar með skítkasti.

Magnús (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:46

28 Smámynd: Þorsteinn Briem

Magnús. Ég er búinn að svara þér og það oftar en einu sinni í löngu máli með lagarökum. Þú hefur hins vegar ekki fært nein rök fyrir þínu máli. Það er ekki nóg að segja að þér finnist þetta eða hitt um þetta mál. Þú getur allt eins spjallað hér um veðrið en það er heldur ekki til umræðu hér.

Þorsteinn Briem, 21.11.2008 kl. 23:11

29 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Rólegan æsing, strákar

Það er ekki hægt að líkja Forseta Íslands við einhvern Nonna út í bæ. Hann hefur bæði önnur réttindi og aðrar skyldur en við almúginn. Hvort sem þér, Steini, forsetanum, eða einhverjum öðrum líkar það betur eða verr, þá eru einkamál hans undir smásjá ýmissa aðila. Ekki bara Íslendinga, heldur annarra þjóða líka, sérstaklega af því að ÓRG er giftur moldríkri konu af þó nokkuð alþjóðlega frægum gyðingaættum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2008 kl. 04:25

30 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og af því hann er forseti lýðveldisins, þá þurfa "smáatriði" eins og skilnaðarpappírar margkvæntrar konu hans að vera á hreinu, ef hann vill koma fram sem þjóðhöfðingi landsins.

Úr því sýslumannssauðurinn hafði ekki rænu á að fylgja eftir kröfum um pappírana, þá hlaut einhver úr stjórnsýslunni með sómakennd, að þurfa að benda á þetta. Hvort það var Davíð eða dómsmálaráðherra er aukaatriði, nema menn vilji gera það smáatriði að aðalatriði málsins.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2008 kl. 04:29

31 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Hér er það Stjórnarskrá Íslands sem gildir og hana ber að virða, hvort sem þér eða Davíð Oddssyni líkar það betur eða verr.

Þorsteinn Briem, 22.11.2008 kl. 08:20

32 identicon

Mikið er ég hissa á ykkur sem segið að Davíð hafi einhverja kosti sem máli skipta. Jú eflaust, en ókosturinn sem hann hefur með að geta ekki farið eðlilega með völd eru gífurleg, en þetta er það sem skiptir almenning máli. Fjölmörg dæmi eru um það að hann hefur gjörsamlega misst sig ef menn hafa ekki verið honum sammála, erft hlutina við þá, hringt sem brjálæður væri eða sent þeim bréf, hótunarbréf.  Um það snýst málið, að hann reyni "að finna eitthvað á þá". Dæmið um Ólaf forseta er bara eitt af mörgu. Og það er að sjálfsögðu rétt hjá Steina Briem, þetta kemur honum ekkert við ! Kannski kemur það dómsmálaráðherra við, en þá verður viðkomandi ráðherra að vera fullviss um að ekki hafi allt verið með felldu. Svo var ekki í þessu tilfelli.

Af hverju eiga menn svona erfitt með að skilja það Gunnar Th. ? Þú sem alla jafna virðist skýr í hugsun. Er það vegna þess að þegar DO á í hlut, þá væri hann alltaf að njóta vafans ? Svona rétt eins og með 300 Mkr. sem átti að múta honum með en var því miður aldrei upplýst. Bara enn ein smjörklípan sem hann notaði til að beina athyglinni annað, frá eigin skít og vanstillingu. Af hverju þessi dýrkun á foringja. Þurfa landsmenn alltaf að vera eins og sauðir sem þurfa einhverja vanstillta eða geðstirða foringja ? Þurfum við kannski foringja svo við þurfum ekki að hugsa sjálfstætt? Þannig hefur það reyndar verið síðustu ár. Segja má að landsmenn kusu ósköpin yfir sig, því miður.

Gísli (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband