Ógn hinnar værukæru velsældar.

"Velsæld er oft orsök ósigurs og ósigurinn lykill að velsældinni. Eitthvað á þessa leið sagði De Gaulle, reynslunni ríkari úr heimsstyrjöldinni. Í hátt í heila öld hefur verið sagt að það sem sé gott fyrir General Motors sé gott fyrir Bandaríkin.
Nú má snúa þessu við og segja að það sem er vont fyrir General Motors sé vont fyrir Bandaríkin.

Vandi bandarísku bílaverksmiðjanna er ekki fjárskortur og innspýting fjár því engin lausn nema meira fylgi. Upp úr síðustu heimsstyrjöld voru bandarískir bílar þeir bestu í heimi. Hurðir féllu þétt að stöfum, gírskiptingar runnu í gegn nákvæmar og áreynslulaust, gæðin og samsetningin gerðust ekki betri.

Preston Tucker, sem framleiddi byltingarkennda bíla 1948 var snúinn niður af ofurveldi bílarisanna og reynt að fá hann sakfelldan fyrir svik. Tucker var sýknaður en sagði í lokaorðum sínum fyrir réttinum að ef Bandaríkin héldu áfram á þessari braut myndu hinar nýsigruðu þjóðir, Þjóðverjar og Japanir, sigla fram úr þeim.

Ærandi hlátur skall á í dómshúsinu, - hvílík fjarstæða, - þessi maður sannaði með þessum orðum að hann væri algerlega geggjaður. Þjóðverjar og Japanir voru enn í sárum og allt í kaldakoli hjá þeim.

Um 1970 gerðu Japanir áætlun. Þeir byrjuðu að framleiða vandaða litla bíla á borð við Honda Civic, sem slógu í gegn hjá hippum 68-kynslóðarinnar.

Bandarísku bílarisarnir brostu, - þessir krakkar borguðu svo lítið fyrir þessar pútur að þeir máttu vel gera það. 15-20 árum síðar vöknuðu risarnir upp við vondan draum. "Krakkarnir" höfðu lokið námi, fengið vel borgaðar stöður og smám saman keyptu þeir stærri og dýrari bíla, en alltaf japanska, vegna gæðanna og áreiðanleikans á sama tíma sem gæðum bandarískra bíla hrakaði sífellt.

Japanska áætlunin hafði verið gerð fyrir 20 ára tímabil sem átti að færa þeim bandaríska markaðinn. Nú eru liðin tæp 40 ár síðan þessi útsmogna áætlun var gerð og niðurlæging bandarísks bílaiðnaðar blasir við öllum.

Á meðan Toyota var með framsýna framleiðsluáætlun sem birtist meðal annars í Prius-tvinnbílnum veðjaði GM á Hummer og risapallbíla.

Í Bandaríkjunum, eins og hér, á að ausa af almannafé til sömu mannanna og klúðruðu öllu og því eru miklar líkur á að þetta verði liður í áframhaldandi hnignun Bandaríkjanna.

"Easy" er algengasta orðið í bandarískum auglýsingum. Barátta gegn hrakandi vinnubrögðum, lánsfjárfíkn og veruleikaflótta verða stærsta viðfangsefni nýs forseta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Japanar eru snillingar.

Við eigum að fá þessa menn til að hjálpa Íslandi.

Þar er heiður og vinnusemi númer eitt.

Spilling þekkist ekki í Japan og samfélagið það þróaðasta í heimi.

Þröstur (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband