Mótmælastaða 17. júní í Dómkirkjunni.

Í trúarjátningunni segja menn: "Ég trúi á.....heilaga almenna kirkju." Sá andi sveif ekki yfir vötnunum í Dómkirkju Íslendinga í gær á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Mikilúðlegur maður með stór, svört gleraugu og fjarskiptabúnað í eyrum tók völdin af kirkjuverðinum að prestum og biskupi forspurðum og varnaði almenning aðgangi að helgidóminum, nema hann færi upp á loft.

Niðri var kirkjan hálftóm, en þeir sem ekki komu snemma og reyndu að fara upp á loft urðu að standa þar í kös og hrökkluðust margir niður og út úr kirkjunni fyrir bragðið.

Heimildarmaður minn er kirkjurækin íslensk kona sem hefur talið það ómissandi hluta af hátíðarhaldinu 17. júní að taka auglýstu boði í fjölmiðlum um að koma og vera viðstödd hátíðarguðsþjónustuna. Hún trúði á þessa auglýsingu en komst að raun um annað.

Þessi kona hefur aldrei tekið þátt í mótmælum af neinu tagi og friðsamari og yndislegri manneskju er varla hægt að hugsa sér.

Kirkjuvörðurinn sagðist aldrei hafa upplifað annað eins. Sá sem beitti hann valdi í fordyri Guðshússins kvaðst vera sendur af til þess bærum yfirvöldum að framkvæma þessa frávísun frá hinni "almennu kirkju."

Konan, sem er heimildarmaður minn, kvaðst ekki geta unað þessu ofríki og móðgun og harðneitaði að fara upp á loft og slást þar við niðurlægða kirkjugesti, sem stóðu þar á meðan bekkirnir voru að hálfu auðir niðri í kirkjunni.

Hún kvaðst ætla að standa þar sem hún væri niðurkomin og hreyfa sig hvergi. Þetta gerði hún og þar með afrekaði snillingurinn sem að ofríkinu stóð það að gera stöðu hennar að nokkurs konar mótmælastöðu.

Ef hún hefði verið hugsanlegur hryðjuverkamaður, eins og gefið var í skyn, hefði hún svo sem getað sprengt sprengju þar sem hún var niður komin. Almenningurinn sem var uppi á loftinu hefði líka getað stundað háreysti og kastað einhverju niður á fína fólkið sem fékk að fara inn um gullna hliðið.  

Raunar afrekuðu snillingarnir sem að þessari lokun stóðu það að benda óeirðamönnum, ólátabelgjum og hryðjuverkamönnum á að Dómkirkjan í Reykjavík væri komin á lista með vænlegum stöðum til slíkra athafna.

Ég er ekkert feiminn við að nota orðið hryðjuverkamaður í þessu sambandi. Við eigum það sameiginlegt, Ólafur F. Magnússon og ég að menn hafa notað þetta orð yfir okkur.

Ég hélt ég ætti heima á Íslandi en ekki í Írak þar sem menn sprengja sig í loft upp í og við trúarathafnir. Kannski var það misskilningur hjá mér. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæll, Ómar,

Ég sendi þessa færslu á facebook í gær og eftirfarandi athugasemd var skrifuð þar og ég beðin að koma henni á framfæri hér. Hún er frá Kolbrúnu Ósk Óskarsdóttur:

"Skömm er að þessu Ómar.Sjálf er ég ekki kirkjurækin kona enda Ásatrúar þ.e. virði náttúru vora og landvætti.

Ástæða þess að ég gekk endanlega úr þjóðkirkjunni var sú að hvergi annars staðar í þjóðfélaginu hef ég orðið vör við jafnmikla valdabaráttu spillingu sundrungu og peningagræðgi, eins og þar. Sjáðu sóknarnefndir út um allt land, baktalið laumuspilin og plottið sem á sér þar stað.

Ég trúi því einlæglega að ég sé betur sett nú, trúi því að ef maður virðir náttúruna muni hún vinna með okkur.

Kær kveðja,
Kolbrún"

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.6.2009 kl. 08:58

2 identicon

Sæll frændi,

Það er svo sannarlega skömm að þessu og mjög ókristileg framkoma. Allir menn eru jafnir fyrir guði! En því miður hefur þjóðfélagið okkar þróast í þessa átt undanfarin ár að meiri stéttarskipting er í landinu en nokkurn tíman hefur verið fyrr. Gríðarlegur launamundur.

Það var mjög fróðlegt að hlusta á skilgreiningu Evu Joly á þessu í sjónvarpinu fyrir skömmu síðan. Þar talaði hún um þá lægst settu, sem var áður fyrr stærsta stéttin, hina vinnusömu millistétt sem færi eftir öllum lögum og reglum. Elítuna eða klíkuna, sem öllu réði en færi ekki eftir lögum og reglum nema eins og þeim hentaði. Það sem er að gerast er að millistéttin er að verða svo fjölmenn og öflug. Hefði nú yfir að ráða öflugum fjölmiðlum eins og til dæmis internetinu, þannig að takmarkaður aðgangur hennar að fjölmiðlum skipti ekki lengur eins miklu máli. Elítan eða klíkan er því að veikjast, vonandi þurkast hún bara út í nýja Íslandi.

Anna Margrét Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband