Rússajeppar í formi láns.

1953 leituðu Íslendingar til Rússa um viðskipti með fisk vegna löndunarbanns Breta á íslenskan fisk á mikilvægasta markaði okkar. Rússum leiddist ekki að hjálpa NATO-þjóð og til urðu vöruskipti sem fljótlega mátti sjá í formi rússneskra bíla sem lögðu grundvöll að fyrirtæki sem enn er starfandi, B og L, Bifreiðar og landbúnaðarvörur.

1946-gaz-pobeda

Fyrsti rússneski bíllinn var Pobeda sem hentaði vel, sterkur og hár frá vegi þótt vél og kram væru ekki í hæsta gæðaflokki.

Gísli Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Barðastrandasýslu, flutti þessa bíla innn á þeim tíma.

Í kjölfarið fylgdu Moskwitch og GAZ 69, svonefndur Rússajeppi sem ég tel vera best hannaða jeppa allra tíma, og er þá miðað við þá tíma sem viðkomandi jeppar komu fram á.

DSC00085

Ég hef notað 43ja ára gamlan Rússajeppa við kvikmyndagerð á hálendi Norðurlands og hefur hann verið hreint gull, sá gamli, auk þess sem hann er svo táknrænn fyrir þær stórkarlalegu virkjana- og stóriðjuframkvæmdir í sovétstíl sem þar eru í uppsiglingu.  

Vöruskiptin við austantjaldsþjóðirnar entust langt fram eftir síðustu öld.

Við seldum þangað mikið af síld og öðrum fiskafurðum en fengum þaðan ýmsar iðnaðarvörur.

DSCF5044

Frá Sovétríkjunum komu Lada og UAZ-jeppar Frá Tékkóslóvakíu kom Skoda og Zetor-dráttavélar.

Dacia kom frá Rúmeníu, pólskur Fiat frá Póllandi og Trabant, Wartburg (einn slíkur sést hér í miðjum hópi af gömlum bílum á Egilsstöðum) P-70 og Garant komu frá Austur-Þýskalandi.

Tveir síðastnefndu bílarnir voru líklega lélegustu bílar sem fluttir hafa verið til Íslands.

Þess má geta að við flytjum enn inn bíla sem framleiddir eru í hinum gömlu austantjaldslöndum, Skoda frá Tékklandi og Suzuki Swift frá Ungverjalandi.  

Sumir vændu Rússa um annarlegar hvatir að aðstoð þeirra 1953.

Sama heyrir maður nú.

P1010084

Ólafur Thors sagðist hafa þá reglu að ætla mönnum aldrei illt nema hann reyndi þá að því.

Íslendingar létu fyrstu aðstoð Rússa aldrei hafa áhrif á utanríkisstefnu sína.   

Ég tel að sama eigum við að gera nú. 

Vera Rússum þakklátir án þess að ætla þeim annarlegar hvatir eða láta aðstoð þeirra hafa áhrif á óskyld efni.

Ég enda pistilinn með mynd af bílum tveggja naumhyggjumanna, sem eiga uppruna sinn í austanverðri Evrópu.

Það eru rall-Trabant Dalabóndans Arnar Ingólfssonar og pólskur Fiat 126 í eigu gamals keppinautar hans hér forðum tíð.  

 


mbl.is Rússalán í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kíktu á Rússajeppann á facebook síðunni minni:

http://www.facebook.com/home.php?ref=home#/photo.php?pid=474888&id=1428517024

Ég rakst á þennan við landamærastöð Víetnam og Kína. Fannst hann auðvitað alveg smellpassa í það umhverfi. Þessar fallegu fossamyndir eru frá sama stað, glæsilegir fossar sem tilheyra báðum ríkjum, til helminga.

Þ.

Þorfinnur (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 16:39

2 Smámynd: Einar Steinsson

Það kom fleira frá austrinu heldur en að menn héldu. Upp úr 1980 flutti Volvo umboðið inn nokkuð magn af Volvo C202 jeppum oft nefndi Laplander eða Lappar. Margir keyptu og töldu flestir að þeir væru að kaupa sænska gæðavöru. Það sem ekki var farið hátt með var að þegar Volvo fóru að selja þessa bíla til almennings (áður höfðu þeir verið framleiddir fyrir herinn og opinberar stofnanir) þá hættu þeir að smíða þá í Svíþjóð og fluttu framleiðsluna til Ungverjalands.

Í dag eru margir af stóru framleiðendunum með verksmiðjur í austur Evrópu t.d.:

Í Slóvkíu eru Peugeot/Citroen, VW og Kia

Í Tékklandi eru Peugeot/Citroen, Hyundai, Toyota og VW

Í Póllandi eru Fiat og Opel

Í Ungverjalandi eru Suzuki, Fiat og Audi

Í Rúmeníu er Renault

Í Slóveníu er Renault

Einar Steinsson, 16.7.2009 kl. 17:56

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Opel Corsa hefur verið framleiddur á Spáni og ýmis japönsk merki í Bandaríkjunum.

Raunar er alþjóðavæðingin orðin svo mikil að það er varla hægt að tala um bíla sem eru alfarið af einhverju þjóðerni. Suzuki Grand Vitara er nánast sami bíll og Chevrolet Equinox og Pontiac Torrent.

Toyta Aygo er nánast alveg sami bíllinn og samskonar bílar af Citroen og Peugeot-gerð.

Skodabílar byggja að mestu á undirvagni, vélum og drifbúnaði og Volkswagen bílar af svipaðri stærð.

Einn Þjóðverji sagði við mig í hálkæringi: Ástæðan fyrir því að Skoda er orðinn vandaðri en Volkswagen er sú að það eru Tékkar sem setja Skodann saman en Tyrkir sem setja Volkswagen saman!"

Ómar Ragnarsson, 16.7.2009 kl. 19:21

4 Smámynd: Einar Steinsson

Þessi alþjóðavæðing í bílum lætur fáa bíla ósnortna, konan mín ekur um á einum þrælgóðum Ford Fiesta með 1.6 lítra 90 hestafla díesel vél. Bíllinn er framleiddur í Köln í Þýskalandi nema vélin sem kemur frá Frakklandi og er ekki einu sinni Ford heldur kemur hún frá PSA Peugeot Citroën. Þessa vél er hægt að fá í bílum frá Peugeot, Citroën, Ford, Volvo, Mazda, Suzuki og BMW (Mini). Samvinna milli bílaframleiðenda virðist alltaf vera að verða meiri og meiri.

Einar Steinsson, 16.7.2009 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband